— Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
27. ágúst 1729 Hraun rann í kringum kirkjuna í Reykjahlíð í Mývatnssveit og síðan út í Mývatn. Þá gaus í Leirhnjúksgígum en Mývatnseldar hófust árið 1724 og stóðu með hléum fram í september 1729. 27.

27. ágúst 1729

Hraun rann í kringum kirkjuna í Reykjahlíð í Mývatnssveit og síðan út í Mývatn. Þá gaus í Leirhnjúksgígum en Mývatnseldar hófust árið 1724 og stóðu með hléum fram í september 1729.

27. ágúst 1946

Fyrsti bíllinn komst yfir Siglufjarðarskarð. Þar með var einangrun Siglufjarðar rofin, en vinna við veginn hafði staðið í ellefu ár. Vegurinn um Strákagöng leysti Skarðsveginn af hólmi rúmum tveimur áratugum síðar.

27. ágúst 1951

Sýningarsalir Listasafns Íslands í húsi Þjóðminjasafnsins voru formlega teknir í notkun. Listasafnið var stofnað árið 1884 og hús safnsins við Fríkirkjuveg vígt árið 1988.

27. ágúst 1994

Kvikmyndin Bíódagar eftir Friðrik Þór Friðriksson hlaut norrænu Amanda-kvikmyndaverðlaunin. Hún var að mati dómnefndar í senn þjóðleg og alþjóðleg.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson