Steinunn Þóra Árnadóttir
Steinunn Þóra Árnadóttir
Eftir Steinunni Þóru Árnadóttur: "Á undanförnum misserum hafa tyrknesk stjórnvöld þrengt að lýðræði í landinu."

Slæmar fréttir hafa borist frá Tyrklandi um alllangt skeið og hafa áhyggjur umheimsins af stöðu mála í landinu síst minnkað í kjölfar valdaránstilraunar þar í landi fyrir fáeinum vikum. Stjórn Erdogans Tyrklandsforseta virðist einbeitt í að nota hana sem átyllu til að herða tök sín á öllum sviðum, jafnt til að ganga milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og til að sveigja tyrkneska löggjöf og samfélag í átt sem stjórninni hugnast betur en lýðræðissinnuðu fólki.

Rétt er að árétta að hér er ekki um nýja þróun að ræða. Ár er liðið frá því að Tyrklandsstjórn rauf áralangt en viðkvæmt vopnahlé sitt við Kúrda með loftárásum. Lýsti NATO við tilefni þeirri skoðun sinni að Tyrkir væru í fullum rétti. Fyrir hálfu ári lék Tyrklandsforseti þann háskaleik að láta skjóta niður rússneska herþotu og aftur reyndist hann njóta stuðnings NATO, sem var til í að taka áhættu á þriðju heimsstyrjöldinni fyrir þennan dyntótta liðsmann sinn. Nú síðast hefur komið fram í fréttum að þýsk stjórnvöld álíti að Tyrkir hafi um árabil unnið með íslömskum hryðjuverkasamtökum og stutt þau fjárhagslega.

Blikur á lofti

Á undanförnum misserum hafa tyrknesk stjórnvöld þrengt að lýðræði í landinu, m.a. með því að svipta þingmenn, fyrst og fremst kúrdíska, á tyrkneska þinginu þinghelgi og mikill fjöldi blaðamanna hefur verið hnepptur í fangelsi. Efasemdir um að lýðræði og frjáls fjölmiðlun njóti tilhlýðilegrar verndar eru því óhjákvæmilegar. Ýmis óheillaskref sem stigin hafa verið í Tyrklandi að undanförnu vekja eins upp ugg. Má þar nefna áætlanir um að taka á ný upp dauðarefsingu, sem og dómsúrskurð í þá átt að lækka samræðisaldur, sem vakið hefur hörð viðbrögð mannréttinda- og kvennasamtaka í landinu.

Tyrkland er meðlimur í NATO sem fyrr segir. Í ljósi þess að kjarnorkuvopn úr vopnabúri NATO eru staðsett í Tyrklandi hlýtur hið ótrygga ástand þar að vekja sérstakan ugg. Raunar ættu atburðir liðinna mánaða að vekja upp alvarlegar spurningar um skynsemi þess að vera í hernaðarbandalagi með gagnkvæmri verndarskyldu með Tyrkjum.

Fyllsta ástæða er til að hafa sérstakar áhyggjur af hlutskipti tyrkneskra Kúrda við ríkjandi aðstæður og er vert að beina þeirri áskorun til stjórnvalda í Tyrklandi að virða mannréttindi og mannhelgi allra tyrkneskra borgara. Við aðstæður sem þessar er það skylda annarra ríkja að láta í sér heyra og það á Ísland að gera þótt smátt sé. Yfirgangur og ofbeldi má aldrei líðast.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Höf.: Steinunni Þóru Árnadóttur