Jóhanna Björnsdóttir fæddist 27. janúar 1919 á Kollufossi í Vesturárdal í V-Húnavatnssýslu. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Hvammstanga 16. ágúst 2016.
Hún var dóttir hjónanna Ingibjargar Jónsdóttur húsmóður, f. 9. desember 1891, d. 4. júní 1974, og Björns Guðmundssonar bónda, f. 23. febrúar 1985, d. 24. mars 1985. Jóhanna var næstelst sjö systkina, elst var Þorbjörg Hólmfríður, látin, Guðmundur Reyndal, látinn, Jón Björgvin, látinn, Ólöf, f. 14. desember 1926, Jóhannes Ingvar, f. 1. janúar 1930, og Jón Elís, látinn.
Jóhanna giftist hinn 1. september 1945 Jóni Kristni Péturssyni frá Tungukoti á Vatnsnesi, f. 20. apríl 1918, d. 25. ágúst 1978. Þau hófu búskap á Hvammstanga í september 1941 en hugur þeirra stóð til búskapar í sveit og leigðu þau jörðina Tjörn í Þverárhreppi á Vatnsnesi og bjuggu þar til 1945 að þau keyptu Skarfshól í Miðfirði. Þar hófu þau mikið starf í ræktun lands og byggingu húsa á jörðinni og ráku þar myndarbúskap. Það var henni mikið áfall er Jón lést, rétt sextugur að aldri, en hún hélt ótrauð áfram búskap með sonum sínum til dauðadags. Hún hélt andlegu atgervi til síðasta dags, fylgdist vel með ættingjum sínum og þjóðmálum í hvívetna.
Börn Jóhönnu og Jóns voru fimm og komust þrjú upp: 1) Kristín Dóra Margrét, f. 19. september 1943, gift Haraldi Holta Líndal, f. 20. nóvember 1939, d. 27. maí 2013. Synir þeirra eru: a) Jón Pétur, f. 6. mars 1964, sambýliskona Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 1. júní 1963, fyrri sambýliskona Sólveig Valgerður Stefánsdóttir, f. 3. júní 1965; börn þeirra eru: i) Soffía Kristín, f. 21. ágúst 1989; ii) Sólveig Jóhanna, f. 21. ágúst 1989; iii) Kolbrún Védís, f. 11. september 2000. b) Jónatan Elvar, f. 13. maí 1965. c) Júlíus Bjarki, f. 24. nóvember 1968, sambýliskona Aðalheiður Lilja Magnúsdóttir, f. 17. júlí 1969. Börn þeirra eru: i) Haraldur Holti, f. 4. september 2003, ii) Vilborg Jóhanna, f. 27. janúar 2005, iii) Friðbjörg Margrét, f. 9. apríl 2007. d) Jóhann Haukur Kristinn, f. 21. júní 1978, maki Birna Aldís Fernández, f. 21. apríl 1981. Börn: i) Júlía Karen, f. 23. janúar 2009, ii) Davíð Ari, f. 28. nóvember 2010. 2) Jón Ívar Jónsson, f. 3. maí 1946. 3) Magnús Ari, f. 5. nóvember 1955.
Útför Jóhönnu fer fram frá Melstaðarkirkju í dag, 27. ágúst 2016, klukkan 14.
Ég var þeirrar gæfu njótandi að upplifa það að vera send í sveit á sumrin. Fékk að hjálpa til á Skarfshóli í Miðfirði hjá Hönnu frænku. Raka meðfram, sækja beljurnar og gefa kálfunum en líka leika mér í móanum og lesa bækur. Hönnu frænku var ætíð umhugað um heilsu mína og eitt af því sem hún setti sem skilyrði, þegar ég var hjá henni á sumrin, var að ég drykki mjólk sem var og er eitthvað það alversta sem ég veit svo við gerðum með okkur samkomulag. Maggi-súputeningarnir komu í þá daga í glösum, stórum og litlum og eitt slíkt lítið glas skyldi ég drekka á hverjum degi og hún gaf sig ekkert með það.
Hanna frænka innrætti mér nægjusemi, að leggja alúð við öll verk og aldrei að takast á við neitt af hálfum hug. Minningin um hana er í mínum huga minning um sterka konu, ákveðna, fíngerða og hlýlega. Hanna frænka var ekki bara frænka, hún var mér eins og amma og börnum mínum langamma, bækur og smá gotterí á jólunum frá Hönnu frænku var stóri hluti hefðarinnar og minninganna.
Hvað er fallegra en heilbrigð ferðalok? Hanna frænka á Skarfshóli hefur lokið langri ævi. Hún var iðin kona og allt hennar fas var hógvært og rólynt en nú er hennar dagsverk að lokum komið. Við kveðjum Hönnu frænku með virðingu og þökk fyrir allt. Sendum þeim Stínu, Nonna og Ara sem og öðrum ættingjum samúðarkveðjur.
Ef til vill er ekkert fegurra í lífinu
en að kynnast fegurð eldri konu,
sem alltaf er að vaxa að þolinmæði
mildi og manngæsku.
Hugsar til allra gjafa síns liðna lífs,
með þakklæti og varpar
aftanskini af friði í kringum sig.
(Sigurður Nordal)
Magnea Steinunn og börn.
Þegar hún kynntist eiginmanni sínum flutti hún að heiman og byggði síðar upp stórbýli með honum á Skarfshóli. Jóhanna fór ekki varhuga af sorginni í lífi sínu en tvö barna þeirra hjóna létust í fæðingu og manninn sinn, hann Jón, missti hún árið 1978 úr krabbameini. Þetta hlýtur að hafa tekið á hana en hún kvartaði aldrei, svona var lífið og það þýddi ekkert að tala um þetta.
Það er skrítið til þess að vita að 97 ára konan sem maður hafði einhvern veginn hugsað sér að yrði eilíf sé ekki lengur í eldhúskróknum á Skarfshóli. Hún leiðréttir ekki lengur misminni hjá mér eða öðrum og hún kemur ekki til með að koma brosandi til dyra og bjóða okkur velkomin og segir nei, að hún ætli ekki að koma með okkur til Reykjavíkur. Rödd hennar er þögnuð en minningarnar streyma fram og ylja á kveðjustund.
Ég heimsótti Jóhönnu síðast að Skarfshóli í apríl sl. Næsta heimsókn var á sjúkrahúsið á Hvammstanga þar sem hún var flutt og dvaldi í nokkra daga í lok maí, þá tjáði hún mér að þetta væri nú að verða gott, við kvöddumst og þökkuðum hvor annarri fyrir samveruna og allt og allt. Nokkrum dögum síðar var hún komin heim í eldhúskrókinn sinn og átti eftir að sjá um heimilið og taka á móti gestum í allt sumar. Þann 16. ágúst kvaddi hún í svefni og varð þar með að ósk sinni að þurfa ekki að liggja lengi áður en kallið kæmi. Ég hef þá trú að hún hafi farið sátt frá borði.
Klukkur tímans tifa
telja ævistundir
ætíð lengi lifa
ljúfir vinafundir.
Drottinn veg þér vísi
vel þig ætíð geymi
ljósið bjart þér lýsi
leið í nýjum heimi.
(Hákon Aðalsteinsson)
Jóhanna var ein af þessum stórmennum sem veita innblástur langt út yfir gröf og dauða. Við erum rík sem fengum að kynnast henni og eiga að. Eftirlifandi systkinum Jóhönnu, þeim Jóhannesi, Ólöfu (mömmu) og Kristínu Rut (skásystur) og börnunum hennar, þeim Kristínu, Jóni, Ara, barnabörnum og öðrum afkomendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um kjarnakonuna hana Jóhönnu lifa með okkur.
Ingibjörg Ólöf
Vilhjálmsdóttir.
þjóna, njóta, gleðja.
Elska, hlæja, fagna, fá,
fara, missa, kveðja.
(Bragi V. Bergmann.)
Miðvikudaginn 10. ágúst síðastliðinn sátum við hjónin í eldhúsinu hjá Hönnu frænku og sonum hennar, gæddum okkur á nýbakaðri hjónabandssælu og öðrum kræsingum, framreiddum af Hönnu. Við ræddum um lífið og tilveruna eins og við Hanna höfum gert með reglulegu millibili í nær 50 ár. Ekki grunaði mig þá, þrátt fyrir háan aldur Hönnu, að hún myndi leggja upp í sitt hinsta ferðalag örfáum dögum síðar.
Ég kom fyrst til sumardvalar að Skarfshóli sjö ára gömul, til Hönnu og Jóns heitins. Ég kom norður um miðjan maí og hélt aftur suður um miðjan september – og þannig var það í fjögur sumur. Ég var umvafin hlýju og kærleika á Skarfshóli og við Hanna bundumst strax mjög sterkum böndum; böndum sem entust ævilangt. Æ síðan var ég heimagangur á Skarfshóli og alltaf aufúsugestur. Minningarnar hrannast upp og eru efni í heila bók.
Hanna frænka hafði mjög ákveðnar lífsskoðanir og sterka réttlætiskennd. Hún var nægjusöm, þakklát, örlát og gestrisin með afbrigðum. Hún hafði líka mjög skemmtilega kímnigáfu. Á Skarfshóli var ég hvött til bókalesturs og menntunar og að standa ávallt við mitt. Hanna og fjölskylda veittu mér veganesti út í lífið sem ég kem til með að búa að alla tíð.
Ég kveð Hönnu frænku með sorg í hjarta en full þakklætis. Ég er þakklát fyrir langa og einstaklega ljúfa samferð en jafnframt fyrir það að Hanna fékk þá ósk sína uppfyllta að vera hress og kát og ekki upp á aðra komin allt til hinsta dags.
Við Bragi, Magnús og Alexander sendum Kristínu, Jóni og Ara sem og öðrum aðstandendum hugheilar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning heiðurskonu.
Ingibjörg Sólrún Ingimundardóttir.
Um tvítugsaldur kynntist Jóhanna ungum bóndasyni, Jóni Péturssyni frá Línakradal á Vatnsnesi. Þau hófu sambúð á Hvammstanga árið 1941. Þau festu kaup á jörðinni Skarfhóli í Miðfirði árið 1945 og bjuggu þar síðan. Við kaupin á Skarfhóli tóku þau eina lánið sem þau tóku á lífsleiðinni. Ávallt síðan var framkvæmt á Skarfhóli fyrir sjálfsaflafé. Jóhanna og Jón voru einstaklega samhent hjón, allt gert með fyrirhyggju og rósamri yfirvegun. Það var girt, ræktað, öll hús byggð ný, keyptar vélar og á ótrúlega skömmum tíma var öll þessi uppbygging framkvæmd án þess að taka eyrir að láni.
Jón lést í ágúst 1978 af erfiðum sjúkdómi og annaðist Jóhanna bónda sinn í veikindum hans af einstakri nærfærni, þannig vildu þau hafa það, saman til síðustu stundar.
Jóhanna og Jón eignuðust fimm börn. Af þeim lifðu þrjú, þau Kristín, f. 1943, Jón, f. 1946 og Ari, f. 1955. Kristín býr á Holtastöðum í Langadal og þeir bræður Jón og Ari eru bændur á Skarfhóli, og halda þar uppi fána ráðdeildar og fyrirhyggju. Á Skarfhóli er einstök gestrisni og móttökur gesta höfðinglegar. Mikill áhugi er á þjóðmálum, og sérstaklega öllu er snýr að landbúnaði. Það er við hæfi að enda þessar línur með erindi úr bændasálminum góða:
Ef ég mætti yrkja,
yrkja vildi ég jörð.
Sveit er sáðmanns kirkja,
sáning bænar gjörð,
...
(Bjarni Ásgeirsson.)
Við kveðjum Jóhönnu Björnsdóttur með þakklæti fyrir langa og trausta vináttu um leið og við vottum börnum hennar og afkomendum dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Jóhönnu Björnsdóttur
Ingimundur
Magnússon.