Hestamaður Haraldur Magnússon og föruneyti hans. Hattfell í baksýn.
Hestamaður Haraldur Magnússon og föruneyti hans. Hattfell í baksýn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Lengri og hlýrri sumur ráða því að Fjallabakssvæðið er orðið miklu grónara en áður.

Lengri og hlýrri sumur ráða því að Fjallabakssvæðið er orðið miklu grónara en áður. „Ég sé breytingar ár frá ári og þetta er allt annað land en þegar ég fór fyrst að flækjast um þessar slóðir, fyrir um fimmtíu árum,“ segir Haraldur Magnússon, verktaki og skólabílstjóri á Hellu.

Blaðamaður hitti Harald á söndunum norðan við Hattfell á Emstrum í upphafi fimm daga hestaferðar um þessa slóðir. Fyrsta daginn reið vinahópurinn af Einhyrningsflötum í Hvanngil, þaðan á Hungurfit norðan Tindfjalla og þar var höfð tveggja nátta viðstaða. Síðasta daginn var svo riðið til vesturs þvert yfir Hekluhraun að Svínhaga á Rangárvöllum, sem er einn hinna svonefndu Heklubæja.

„Þetta er einstök leið og fyrir mér er þetta sumarið sjálft,“ segir Haraldur, sem fer aftur á fjöll eftir nokkra daga. Ætlar þá með fjallmönnum að smala Rangárvallaafrétt; það er svæðið vestan við Eystri- Rangá ofan við Keldur inn að Vatnafjöllum. „Margir staðir þarna innfrá eru mér mjög kærir. Sérstaklega langar mig að tilgreina Hungurfit, þar sem ég á hlut í fjallaskála. Þar er ágæt aðstaða fyrir bæði menn og hross.“