[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir nokkrum áratugum átti ég orðastað við ungt skáld sem kvaðst vera haldið ljóðrænni vatnsorkusálsýki. Ástæðan væri sú að hann sæi ekki annað fyrir sér en bunulæki og bakkafagrar ár.

Fyrir nokkrum áratugum átti ég orðastað við ungt skáld sem kvaðst vera haldið ljóðrænni vatnsorkusálsýki. Ástæðan væri sú að hann sæi ekki annað fyrir sér en bunulæki og bakkafagrar ár. Eftir langdvalir erlendis hefði hann lagst í Jónas Hallgrímsson og nú væru töfrar Rómar og Parísar horfnir og allt sem hann reyndi að semja væri hlaðið þessari sérkennilegu, bráðlifandi vatnsorku svo að ekkert annað kæmist að.

Sjálf hef ég aldrei beinlínis lagst í Jónas en samt er hann snar þáttur af sjálfri mér. Þegar sunnudagslærið var í ofninum fórum við pabbi oftast út að ganga og þá þuldi hann fyrir mér það sem honum þótti magnaðast hjá Jónasi. Mig minnir að Fjallið Skjaldbreiður hafi haft mest áhrif á hann og enn finnst mér ég heyra hljómþýða rödd hans fara með eftirfarandi hendingar úr því:

Belja rauðar blossa móður,

blágrár reykur yfir sveif

undir hverfur runni rjóður

reynistóð í hárri kleif.

Svo lét hann mig fara með kvæðið Óhræsið og Ísland farsælda frón, sem ég kunni ágætlega en átti til að rugla röð erindanna og þá leiðrétti hann mig samviskusamlega. Stundum þegar hann fékk sér í glas með gömlum skólabróður sínum og vini barst talið að Jónasi og þá lagði ég gjarnan við hlustir. Pabbi sagði að þótt Jónas væri snillingur væri stundum braglýti hjá honum að finna, t.d. þessar ljóðlínur út kvæðinu Réttarvatn:

Á engum stað ég uni

eins vel og þessum mér.

og sumt í kveðskap Jónasar jaðraði við að vera leirburður eins og eftirfarandi staka um Suðursveit.

Suðursveit er þó betri

en Seltjarnarnesið var

taðan er töluvert meiri

og tunglið rétt eins og þar.

Vinurinn var umburðarlyndari og hafði meiri áhuga á rómantísku ljóðunum hans Jónasar. Hann fór með kvæðið Ferðalok og úr Hulduljóðum, sem mér þótti miklu fallegra en Fjallið Skjaldbreiður og Ísland farsældarfrón. Svo talaði hann um ástkæra ylhýra málið sem hlýjaði mér inn að hjartarótum. Og þannig seytlaðist Jónas inn í mig, kannski á sama hátt og ljóðræna vatnsorkusálsýkin sem greip unga skáldið á sínum tíma.

Sonarsonur minn fékk ljóðasafn Jónasar í fermingargjöf nú í vor og ég gat ekki stillt mig um að lesa fyrir hann nokkur erindi. Hann brosti fallega þegar ég fór með þessar hendingar úr erfiljóðinu um Tómas Sæmundsson.

Flýt þér vinur, í fegra heim;

krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.

Drengurinn er góður námsmaður og ætlar að leggja fyrir sig eðlisfræði í framtíðinni. „Það er vegna þess að hún getur útskýrt hvernig allt virkar,“ sagði hann. Ég hefði kannski átt að segja honum að engin eðlisfræði gæti útskýrt hvernig skáldið mitt, Jónas Hallgrímsson, virkaði á mig.

Guðrún Egilson

Höf.: Guðrún Egilson