Víkverji verður seint fullorðinn. Hann hefur sætt sig við það og ætlar ekki að hika við að skella sér á tónleika með Justin Bieber sem verða í Kórnum fljótlega. Víkverja finnst þetta frekar unglingalegt en ætlar að láta vaða.

Víkverji verður seint fullorðinn. Hann hefur sætt sig við það og ætlar ekki að hika við að skella sér á tónleika með Justin Bieber sem verða í Kórnum fljótlega.

Víkverja finnst þetta frekar unglingalegt en ætlar að láta vaða. Hann er þegar farinn að hita upp og hlustar af miklum móð á poppgoðið og skammast sín ekkert fyrir það.

Víkverji vonar samt heitt og innilega að hann verði að minnsta kosti ekki í algjörum minnihluta á tónleikunum. Hann þykist samt vita að á tónleikana fjölmenni ungar stúlkur sem munu eflaust láta hressilega í sér heyra. Kannski slæst Víkverji í hópinn, hermir eftir þeim og þenur raddböndin.

Annars var Víkverji minntur harkalega á að hann er farinn að eldast fyrir stuttu. Þannig var mál með vexti að ungur drengur reif í spaðann á Víkverja þar sem hann sat makindalega í vinnunni og hlustaði á tónlist Biebersins algjörlega í eigin heimi. Drengurinn ungi sagðist vera gamall nemandi hans. Það passaði, Víkverji var umsjónarkennari og íslenskukennari á unglingastigi rétt fyrir og í miðju hruni. Víkverji varð hálfkvumsa yfir því að hann hefði kennt tilvonandi samstarfsmanni sínum fyrir nokkrum árum. Kannski er réttara að segja, kennt og ekki kennt því Víkverji hefur ekki hugmynd um hverju hann náði að koma til skila og hvað síaðist inn en það skal látið liggja milli hluta.

Það eina gáfulega sem Víkverja datt í hug að romsa út úr sér við drenginn var: „Djöfull ertu orðinn stór.“ Þetta var mögulega það hallærislegasta sem hægt er að segja við ungan mann sem er kominn yfir tugina tvo. Tekið skal fram að þegar Víkverji sá hann síðast var hann lítill hávær unglingur. Þannig var hann enn í huga Víkverja.

Þessi kennsluár voru fyrir nokkrum árum í minningu Víkverja en þau voru víst fyrir tæplega áratug. En eins og skáldið sagði: „Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér.“