Skemmtilegur Ragnar Sigurðsson var frábær á Evrópumótinu í Frakklandi og hann leikur með Fulham í vetur.
Skemmtilegur Ragnar Sigurðsson var frábær á Evrópumótinu í Frakklandi og hann leikur með Fulham í vetur. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
PENINGAR Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Tvennt kom mér á óvart við flutning landsliðsmannsins Ragnars Sigurðssonar frá rússneska liðinu Krasnodar til enska b-deildarliðsins Fulham.

PENINGAR

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is

Tvennt kom mér á óvart við flutning landsliðsmannsins Ragnars Sigurðssonar frá rússneska liðinu Krasnodar til enska b-deildarliðsins Fulham. Í fyrsta lagi sú staðreynd að einn besti miðvörður Evrópukeppninnar í sumar veki ekki alvöru áhuga úrvalsdeildarklúbba í Englandi og í öðru lagi sú staðreynd að Ragnar tók á sig verulega launalækkun til að uppfylla gamlan draum og spila í Englandi.

Ekki bara peninganna vegna

Fyrri hluta undrunarinnar geta allir Íslendingar verið sammála um. Voru menn ekkert að horfa á EM? Sáu þeir ekki Ragnar pakka Kane, Vardy, Rooney og öllum þessum ofmetnu ensku leikmönnum saman þetta töfrakvöld í Nice?

Svo berast fréttir af því að einhverjir meðalskussar eins og Ragnar Klavan landi samningi hjá stórliði Liverpool og þá klórar maður sér ansi hressilega í hausnum.

Þetta er samt ekki það sem ég ætla að fjalla sérstaklega um. Seinni hluti undrunarinnar er það sem ég ætla að skoða nánar. Það er svo yndislega hressandi að sjá og heyra í íþróttamanni eins og Ragnari Sigurðssyni, sem kemur alltaf hreint og beint fram og segir/gerir það sem hann langar til. „Ég er ekki í fótboltanum peningana vegna“ sagði Ragnar í samtali við blaðamann Morgunblaðsins þegar hann var búinn að skrifa undir samninginn við Fulham. Þetta er viðhorf sem ekki sést oft í nútíma fótbolta og er að mínu mati virðingarvert.

Ég skil samt alveg að menn elti peninginn. Atvinnumenn í fótbolta mega teljast heppnir ef þeir ná 10-12 árum á topplaunum. Því er það líklega eðlilegt að reyna að þéna sem mest og geta kannski leyft sér meira en eina Benidorm-ferð á ári þegar ferlinum lýkur.

Stjörnuvitlausar upphæðir

Launin í fótboltanum eru reyndar kapítuli út af fyrir sig. Upphæðirnar sem þeir bestu í bransanum eru að þéna eru svo háar að erfitt er fyrir meðalmanninn að skilja þær. Portúgalinn Cristiano Ronaldo er besti leikmaður heims og hann þénar sem nemur um 45 milljónum króna á viku! Allt mjög eðlilegt bara?

Fótboltaheimurinn er orðinn svo fullkomlega geggjaður að menn yppa bara öxlum yfir því að einn leikmaður hafi kostað tæplega 14 milljarða króna. Ertu að átta þig á þessum tölum, lesandi góður? Fjórtán þúsund milljónir fyrir mann sem er góður í fótbolta. Svona er víst umhverfið orðið og lítið við því að gera. Ef félögin eiga þessa peninga og eru tilbúin að reiða slíkar upphæðir af hendi þýðir lítið að sitja og tuða yfir þessari eyðslu. Ég spurði einu sinni bílasala hvers virði bíllinn minn væri og hann svaraði: „Hann er þess virði sem kaupandinn borgar fyrir hann.“ Nákvæmlega.

Ég get samt ekki annað en hugsað til allra þeirra leikmanna sem bjuggu til þennan veruleika en fengu í raun aldrei að njóta hans. Þarna á ég við leikmenn sem gerðu garðinn frægan fyrir 25-30 árum en luku ekki ferlinum sem milljónamæringar, algjörlega lausir við fjárhagsáhyggjur. Bryan Robson, Jean Tigana, Paul Gascoigne, Allan Simonsen og ótal fleiri snillingar fengu laun sem þóttu góð á þessum árum en eru líklega á pari við það sem meðalgóður bakvörður í ensku b-deildinni þénar í dag. Hvað með íslensku leikmennina? Goðsagnir á borð við Ásgeir Sigurvinsson, Arnór Guðjohnsen, Pétur Pétursson o.fl fengu aldrei þá uppskeru sem hæfileikar þeirra verðskulduðu. Svona getur þetta verið skrýtið.

Jarðtengdar knattspyrnukonur

Þið takið eftir því að ég tala eingöngu um karlmenn í þessum pistli og ástæðan er sú að peningar ráða ekki för í kvennaboltanum. Vissulega eru til nokkrir leikmenn í kvennaboltanum erlendis sem fá ágætis laun fyrir að spila fótbolta en þær eru undantekning frá reglunni. Edda Garðarsdóttir, fyrrverandi landsliðskona, lék með stórliði Chelsea um hríð. Í viðtali um lífið hjá Lundúnaliðinu kom það fram að leikmenn kvennaliðsins ættu ekki að spjalla við leikmenn karlaliðsins nema þeir sjálfir ættu frumkvæðið að því spjalli. Konur í fótbolta eiga alla mína virðingu. Þær eru langflestar í þessu út af öðru en peningum, rétt eins og Raggi Sig.