Alls bárust um 1.900 umsóknir um sumarstörf flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair fyrir sumarið 2017. Hafa þær aldrei verið fleiri, en í fyrra bárust um 1.500 umsóknir.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, voru langflestar umsóknir frá konum en 2-300 karlar sóttu um að þessu sinni. Guðjón segir að undanfarin ár hafi verið ráðnir um hundrað, eða á annað hundrað, nýliðar til starfa árlega. Alls hafa rúmlega 1.200 flugfreyjur/flugþjónar starfað hjá fyrirtækinu í sumar.
Störfin voru auglýst í byrjun ágúst en umsóknarfrestur var til 18. ágúst. Nú tekur við langt og strangt ráðningarferli og því voru störfin auglýst jafnsnemma og raun ber vitni.
Í auglýsingunni var gerð krafa um stúdentspróf eða sambærilega menntun, góða kunnáttu í íslensku og ensku og hæfni í mannlegum samskiptum. „Við leitum að að fjölhæfu, glaðlyndu og skemmtilegu fólki sem hefur náð 23 ára aldri á næsta ári,“ sagði m.a. í auglýsingunni. sisi@mbl.is