Hetjan? Tom Hiddleston leikur næturvörðinn.
Hetjan? Tom Hiddleston leikur næturvörðinn.
Síðasta mánudag hófst ný spennuþáttaröð á RÚV, Næturvörðurinn, sem lofar góðu. Hún er byggð á sögu eftir John le Carré og er aðalpersónan næturvörður á lúxushóteli í Kairó þegar arabíska vorið ríður yfir.

Síðasta mánudag hófst ný spennuþáttaröð á RÚV, Næturvörðurinn, sem lofar góðu. Hún er byggð á sögu eftir John le Carré og er aðalpersónan næturvörður á lúxushóteli í Kairó þegar arabíska vorið ríður yfir. Hann flækist inn í glæpastarfsemi og eitt leiðir af öðru.

Það skemmtilegasta við vandaða spennu- og glæpaþætti er að áhorfandinn verður svo virkur. Eitthvað á sér stað sem á yfirborðinu virðist augljóst hvað er, en fljótt fer mann að gruna að ekki sé allt sem sýnist. Hvað sviðsetja persónurnar til að villa manni sýn og hvað er satt? Hverjum er treystandi? Hver er í alvöru vondi karlinn? Til að svara þessu spinnur maður jafnóðum sögur og samsæriskenningar og er alltaf tilbúinn með nýja um leið og sú síðasta fellur um sig sjálfa. Maður fær að vera með í leiknum, en vill samt ekki vinna, því þá er hann ekki nógu ögrandi og sagan ekki nógu vel sögð.

Á einum stað í þættinum var ég sannfærð um að næturvörðurinn sjálfur, sem sagan er sögð út frá og er í raun hetjan okkar, væri glæpamaður að ljúga að okkur sem sögumaður, en viðurkenni að þá var ég algjörlega búin að missa tökin á ímyndunaraflinu... eða hvað?

Hildur Loftsdóttir

Höf.: Hildur Loftsdóttir