[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er að hefja sitt annað tímabil með ungverska meistaraliðinu Veszprém en Aron gekk í raðir félagsins frá þýska liðinu Kiel fyrir síðustu leiktíð.

Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er að hefja sitt annað tímabil með ungverska meistaraliðinu Veszprém en Aron gekk í raðir félagsins frá þýska liðinu Kiel fyrir síðustu leiktíð. Aron átti mjög góðu gengi að fagna með ungverska liðinu á síðasta tímabili. Hann varð ungverskur meistari með því, vann bikarkeppnina og Austur-Evrópudeildina og komst alla leið í úrslit í Meistaradeildinni þar sem liðið tapaði fyrir pólska liðinu Kielce en úrslitin réðust í vítakeppni. Aron var útnefndur besti leikmaður úrslitahelgarinnar á „Final Four“ í Meistaradeildinni og það í annað sinn á ferlinum.

„Það er bara allt komið á fullt hjá okkur. Ungverska deildin er byrjuð og nú erum við með í henni frá upphafi og Austur-Evrópudeildin byrjar í næstu viku. Svo hefst Meistaradeildin í næsta mánuði og maður getur eiginlega ekki beðið eftir að hún byrji,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið.

Veszprém er ekki með neinum smáliðum í riðli í Meistaradeildinni en með liðinu í riðli eru: Barcelona, Paris SG, Kiel, Flensburg, Bjerringbro-Silkeborg, Wisla Plock og Schaffhausen.

„Við erum nokkrir í liðinu sem komum ekki til með að spila mikið í ungversku deildinni til að byrja með. Hópurinn hjá okkur er orðinn gríðarlega stór og ég held að það séu eitthvað um þrjátíu leikmenn á launaskrá. Liðið er búið að fá flesta þá leikmenn sem spila með unglingalandsliði Ungverjalands og þeir fá að spreyta sig í deildinni,“ segir Aron.

Stefnum á alla titlana

Meðal nýrra leikmanna sem eru komnir til Veszprém eru slóvenski hornamaðurinn Dragan Gajic og króatíski risinn Marko Kopljar. Á móti hefur Christian Zeitz yfirgefið liðið og er farinn aftur til Kiel.

„Ég held að þessir leikmenn komi alveg til með að styrkja liðið. Hópurinn er orðinn breiðari en ég held að styrkurinn á liðinu sé svona svipaður. Markmiðin eru þau sömu og áður. Við ætlum okkur að vinna alla þá titla sem eru í boði og ekki síst ætlum við að vinna Meistaradeildina sem við klúðruðum illilega í vor.“

Aron segist vera mjög ánægður með lífið og tilveruna í Ungverjalandi en hann segir óvíst hvað taki við hjá sér þegar samningur hans við félagið rennur út eftir næsta tímabil.

„Mér líður ágætlega hérna en það verður svo bara að koma í ljós hvað gerist í framtíðinni. Ég veit að Veszprém vill framlengja samninginn við mig og ég veit líka af áhuga hjá öðrum liðum á mér. Ég ætla að einbeita mér bara sem mest að sjálfum mér hvað handboltann varðar. Það hefur endalaust verið að pota í mann en það er bara jákvætt álag. Ég er alveg rólegur yfir þessu öllu saman og það sem öllu máli skiptir er að æfa vel og standa sig inni á vellinum. Ég ætla bara að spila vel og skoða svo mín mál þegar lengra líður. Ef eitthvað kemur upp þá er ég tilbúinn til þess að skoða það. Maður veit svo sem aldrei hvað getur gerst í þessum bolta. Ég var til að mynda rétt kominn hingað í fyrra þegar þjálfarinn var rekinn,“ sagði Aron.

„Ég hef ekkert farið leynt með það að Barcelona er félag sem heillar og eftir að Paris SG varð að því stórveldi sem það er þá hefur það verið spennandi kostur. En ég er svo sem ekkert að hugsa um þessi mál núna. Ég hef heyrt af áhuga hjá mjög mörgum félögum en það hafa engin samningstilboð komið upp á borð enn sem komið er. Aðalmálið er að komast í hörkuform og spila vel,“ segir Aron.

Frábær auglýsing fyrir íslenskan handbolta

Aron segist hafa glaðst mjög yfir árangri íslensku þjálfaranna á nýafstöðnum Ólympíuleikum þar sem Guðmundur Guðmundsson fékk gull og þeir Dagur Sigurðsson og Þórir Hergeirsson brons.

„Þetta var ekkert smá flott hjá þeim. Ég þekki lítið til Þóris en árangurinn sem hann hefur náð er glæsilegur. Gummi og Dagur eru frábærir þjálfarar og árangur þeirra er hreint út sagt magnaður. Þetta er glæsileg auglýsing fyrir íslenskan handbolta.“