Sala Landið sem um ræðir er við suðvesturenda neyðarbrautarinnar.
Sala Landið sem um ræðir er við suðvesturenda neyðarbrautarinnar. — Morgunblaðið/Þórður
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Heimild ríkisins í fjárlögum til sölu á landi í Skerjafirði við Reykjavíkurflugvöll var skýr um til hvaða landsvæðis hún næði, að því er fram kemur í minnisblaði sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær.

Ennfremur segir þar að skilyrðið um heimild í fjárlögum hafi verið uppfyllt enda hefði skylda ríkisins til að selja landið myndast árið 2013 þegar samkomulag um hana var undirritað milli Reykjavíkurborgar og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Þurfti því ekki að afla nýrrar heimildar í fjárlögum vegna sölu landsins í síðustu viku.

Fyrr í vikunni bentu forsvarsmenn samtakanna Hjartans í Vatnsmýri á að ekki hefði verið heimild til sölunnar í fjárlögum árið 2016 og að fjárlagaheimild árið 2013 næði aðeins til „lands utan flugvallargirðingar,“ sem væri aðeins lítill hluti landsins sem til stæði að selja.

Í minnisblaðinu segir að samkvæmt nýlegum hæstaréttardómi um lokun neyðarbrautarinnar svonefndu hafi hin eiginlega skuldbinding stofnast árið 2013. Skilyrði til að standa við skuldbindinguna hefðu svo raknað við þegar neyðarbrautinni var lokað í sumar.

Einnig segir að fram komi í athugasemdum við söluheimildina í fjárlögum að hún taki mið af fyrirhugaðri færslu girðingarinnar, eftir lokun neyðarbrautarinnar.

Salan heimil
» Sala landsins var heimil hvað varðar heimild í fjárlögum og útfærslu hennar.
» Skylda til sölu landsins stofnaðist til handa ríkinu árið 2013 og raknaði við við lokun neyðarbrautarinnar.
» Orðalagið „land utan flugvallargirðingar“ miðaði við fyrirhugaða tilfærslu flugvallargirðingarinnar.