Afl Margar virkjanir eru nyrða. Myndin er af Laxárvirkjun II.
Afl Margar virkjanir eru nyrða. Myndin er af Laxárvirkjun II. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands sem haldinn var á dögunum lýsir í ályktun yfir fullum stuðningi við baráttu Verndarfélags Svartár og Suðurár gegn virkjun Svartár í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands sem haldinn var á dögunum lýsir í ályktun yfir fullum stuðningi við baráttu Verndarfélags Svartár og Suðurár gegn virkjun Svartár í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Er stutt við þau markmið félagsins að Svartá öll, ásamt Suðurá frá upptökum að útfalli við Skjálfandafljót, verði friðlýst. Í þessu samhengi er skorað á umhverfisráðherra að hraða vinnu starfshóps sem á að fjalla um hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu og friðlýsingu aðliggjandi svæða, enda verði verndun Svartár og Suðurár hluti af því.

Umhverfi Svartár og Suðurár er einstakt á landsvísu, segja Náttúruverndarsamtök Íslands. Nefnt er að svæðið sé í jaðri hálendisins og á þessum slóðum sé sérstakt samspil lindarvatns, jarðmyndana, gróðurs og dýralífs. „Hér er um tiltölulega ósnortið landsvæði að ræða, aðeins að litlum hluta í byggð, þar sem þróun íslenskrar náttúru hefur náð fram að ganga á eigin forsendum. Svæðið er rómað fyrir náttúrufegurð,“ segir í ályktunni.

sbs@mbl.is