Flutningar Íbúar fluttir úr Daraya.
Flutningar Íbúar fluttir úr Daraya. — AFP
Jóhannes Tómasson johannes@mbl.is Þúsundir uppreisnarmanna og óbreyttra borgara yfirgáfu sýrlenska bæinn Daraya eftir fjögurra ára umsátur sýrlenska hersins.

Jóhannes Tómasson

johannes@mbl.is

Þúsundir uppreisnarmanna og óbreyttra borgara yfirgáfu sýrlenska bæinn Daraya eftir fjögurra ára umsátur sýrlenska hersins.

Samningar náðust á milli ríkisstjórnar Bashar al-Assads forseta og andspyrnuhreyfingarinnar í bænum. Daraya er nálægt höfuðborginni Damascus og var meðal fyrstu bæja sem gerðu uppreisn gegn stjórn Assads.

„Þetta er erfiðasti tíminn, allir gráta, ungir sem aldnir,“ sagði einn uppreisnarmannanna við AFP, en íbúar Daraya kveðja vini sína og heimili. „Mæður eru að kveðja píslarvottana í gröfum sínum.“

Tilkynnt var um rýmingu bæjarins síðastliðinn fimmtudag á SANA, ríkisfréttastofnun Sýrlands. Í tilkynningunni sagði að sjö hundruð vopnaðir menn myndu yfirgefa Daraya með vopnin sín og halda til borgarinnar Idlib, sem lýtur stjórn andspyrnuhreyfingarinnar. Uppreisnarmönnunum var gerð súskylda að láta annan vopnabúnað í hendur sýrlenska hersins. Einnig verða 4.000 óbreyttir borgarar að yfirgefa bæinn og verða sendir til Damascus.

Bærinn lagður í rúst

Ákveðið var að rýma bæinn sökum versnandi aðstæðna. „Það er ekki lengur hægt að búa í bænum, hann hefur verið lagður í rúst,“ sagði áðurnefndi uppreisnarmaðurinn.

Daraya hefur verið sem birtingartákn uppreisnarinnar sem hófst í formi saklausra mótmæla gegn stjórn Assads og varð að stríði sem hefur kostað yfir 290 þúsund manns lífið.

Sýrlenska ríkisstjórnin hefur margsinnis þvingað uppreisnarmenn til þess að gera brottflutningssamkomulag eftir löng umsátur.

Tyrkir flækja málin

Innrás tyrkneska hersins í Norður-Sýrland í því skyni að berjast gegn Ríki íslams og Kúrdum hefur flækt deilurnar enn frekar.

Binali Yidirim, forsætisráðherra Tyrklands, þvertekur fyrir ásakanir um að heraðgerðir Tyrklands í Sýrlandi snúist gegn Kúrdum frekar enRíki íslams. „Þeir sem segja þetta vita annaðhvort ekkert um heiminn, eða það er vinna þeirra að segja lygasögur.“