Einn af föstum viðburðum í Hörpu er tónleikaröðin Perlur íslenskra sönglaga, en þar er sungið á íslensku en kynnt á ensku. Tónleikarnir eru venjulega í Kaldalóni en í dag, laugardag, verða þeir í fyrsta skipti í Eldborg. Aðspurður sagði Bjarni Thor Kristinsson, listrænn stjórnandi tónleikanna, að einungis væri verið að „prófa“ stóra salinn fyrir þessa röð. „Dagskrá okkar hentar vel fyrir Kaldalón og þar erum við að staðaldri en nú stóð okkur til boða að vera í Eldborg einu sinni og það tækifæri vildum við ekki láta okkur úr greipum ganga. Aðsóknin í sumar hefur verið mjög fín og það er ljóst að þessi dagskrá er að festa sig í sessi þótt auðvitað sé ólíklegt að við náum að fylla Eldborgarsalinn.“
Á tónleikunum koma fram Lilja Guðmundsdóttir sópran, Eyrún Unnarsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari. Tónleikarnir í Eldborg í dag hefjast kl. 17 en á morgun kl. 12.30 eru þeir síðan aftur á sínum vanalega stað í Kaldalóni.