Hugsjónin um sameinaða Evrópu er á hröðu undanhaldi.

Þótt samgöngur á milli landa hafi stórbatnað og bylting hafi orðið í fjarskiptum tekur stundum langan tíma fyrir nýjar hugmyndir, skoðanir, hugsanir eða viðhorf að berast milli landa. Þegar ég kom fyrst til Bandaríkjanna fyrir rúmlega hálfri öld fannst mér einna skemmtilegast að komast í tæri við nýjar hugmyndir, sem þar voru til umræðu, ekki sízt í háskólasamfélaginu, en höfðu ekki náð að nema land hér af einhverjum ástæðum.

Og þótt merkilegt kunni að virðast er eins og nýir hugmyndastraumar og breytt viðhorf í öðrum löndum eigi enn erfitt með að ná til Íslands, alla vega tekur það óeðlilega langan tíma.

Viðhorf í Evrópu til sameiningar Evrópuríkja í eins konar Bandaríkjum Evrópu hafa gjörbreytzt á nokkrum árum. Sú fallega og göfuga hugmynd, sem hafði það meginmarkmið að koma í veg fyrir eilíf stríð á milli þessara ríkja, sem staðið höfðu öldum saman, er nú á hröðu undanhaldi. Þótt forráðamenn Evrópusambandsins hafi hvatt aðildarríkin til að efla samstöðu sín í milli í kjölfar ákvörðunar Breta um að yfirgefa ESB hefur það þveröfuga gerzt. Það er „gjá“ á milli sjónarmiða almennra borgara og forystusveitar ESB, svo vitnað sé í vinsælt orðalag úr stjórnmálaumræðum hér.

Þessi viðhorfsbreyting í Evrópu hefur af einhverjum ástæðum ekki náð til Íslands að nokkru ráði. Í aðdraganda þingkosninga í haust er það yfirlýst markmið nokkurra stjórnmálaflokka að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þá spurningu hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands.

Nú er það skiljanlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir vilji halda stjórnarflokkunum við skýr og óumdeilanleg fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB á þessu kjörtímabili. En þá hefði mátt ætla eftir það sem á undan er gengið að þessir flokkar gætu fallizt á þjóðaratkvæðagreiðslu um þá grundvallarspurningu hvort Íslendingar vilji yfirleitt aðild að ESB eða ekki. Þjóðin var ekki spurð sumarið 2009 og í því fólust hin miklu mistök ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í því máli.

Stjórnarandstöðuflokkarnir ætla hins vegar að stytta sér leið, alveg eins og þeir reyndu að gera 2009 og reyna að notfæra sér stórpólitísk mistök núverandi stjórnarflokka, sem hverfa frá þessu máli á þessu hausti án þess að hafa dregið aðildarumsókn Íslands að ESB formlega til baka. Það ótrúlega kæruleysi þeirra mun seint gleymast.

Hvernig er staðan í Evrópu nú?

Hún er svona:

Bretar hafa ákveðið að yfirgefa Evrópusambandið. Sú ákvörðun þeirra hefur haft önnur áhrif innan ESB en forráðamenn þess gerðu sér vonir um.

Í Frakklandi er nú vaxandi andstaða við ESB, bæði til hægri og vinstri í pólitíkinni. Francois Hollande forseti stendur nú frammi fyrir nýjum áskoranda á vinstri væng. Sá heitir Arnaud Montebourg og er fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn forsetans og talinn í vinstra armi Sósíalistaflokksins. Hann segir Evrópusambandið komið á leiðarenda og að fólkið í Frakklandi hafi ekki lengur áhuga á því.

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakkands, ætlar að reyna að endurheimta embættið og telur beztu leiðina til þess að sveigja enn lengra til hægri og taka upp óvinsamlega stefnu gagnvart útlendingum og múhameðstrúarmönnum en auk þess vill hann afnema Lissabon-sáttmálann, sem hann sjálfur þrælaði í gegn sem forseti og sjá til þess að löggjöf frá ESB gangi ekki framar franskri löggjöf.

Hvort sem frambjóðandi sósíalista verður Hollande eða Montebourg munu þeir sem í framboði verða þurfa að kljást við Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar sem vill úrsögn Frakka úr ESB.

Alþjóðlegur viðskiptaritstjóri Daily Telegraph í London segir hugmyndir Montebourg í ætt við ríkjandi viðhorf í Póllandi og Ungverjalandi en ráðamenn í þessum tveimur fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna hagi sér á þann veg að þeir séu í raun að yfirgefa ESB, þótt ríkin séu formlegir aðilar.

Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sagði fyrir nokkrum dögum í samtali við vefritið Business Insider, að pólitísk og efnahagsleg vandamál Ítalíu væru orðin svo alvarleg að þau gætu orðið banabiti evrunnar sem sameiginlegs gjaldmiðils ESB-ríkja. Ítalía er þriðja stærsta aðildarríki evrunnar.

Í greiningu, sem tekin hefur verið saman hjá Deutsche Bank (en sá banki á líka í tilvistarkreppu) er því haldið fram að mistökum Seðlabanka Evrópu megi líkja við mistök þýzka Reichsbank og Seðlabanka Bandaríkjanna á þriðja tug síðustu aldar, sem hafi stuðlað að Kreppunni miklu.

Í Belgíu eru nú uppi hugmyndir um að vegna útgöngu Breta úr ESB verði nýju lífi hleypt í hugmynd um Norðursjávarbandalag með aðild Dana, Þjóðverja, Hollendinga, Frakka, Svía og Norðmanna sem geri viðskiptasamninga við Breta.

Fyrir skömmu birtust fréttir af skýrslu eins konar innra eftirlits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem fram kemur að björgunarleiðangur ESB/Seðlabanka Evrópu/AGS var ekki farinn fyrst og fremst til að bjarga Grikkjum heldur bönkum í Norður-Evrópu, sem höfðu lánað óvarlega til Grikklands og láta grískan almenning borga brúsann.

Hér er aðeins stiklað á stóru um dæmi um viðhorfsbreytingar í Evrópu sem virðast ekki hafa náð til Íslands ef marka má þann málflutning stjórnarandstöðuflokkanna að sjálfsagt sé og eðlilegt að halda áfram samningaviðræðum við ESB um aðild Íslands.

En ætli nokkur dugur sé í núverandi stjórnarflokkum til að koma í veg fyrir það?

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is