[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrna Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir flutti sig um set í sumar. Eftir fimm ár í Svíþjóð í Malmö skrifaði Sara undir tveggja ára samning við þýska stórliðið Wolfsburg.

Knattspyrna

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir flutti sig um set í sumar. Eftir fimm ár í Svíþjóð í Malmö skrifaði Sara undir tveggja ára samning við þýska stórliðið Wolfsburg. Liðið hafnaði í öðru sæti bæði í þýsku deildinni og einnig Meistaradeild Evrópu á síðasta keppnistímabili. Sara, sem varð í 19. sæti á lista yfir bestu knattspyrnukonur Evrópu á tímabilinu 2015-2016, segir að sér lítist vel á aðstæður en keppni í þýsku deildinni hefst eftir viku.

„Þetta er allt mjög fagmannlegt. Hópurinn er tiltölulega nýkominn allur saman en það voru níu leikmenn á Ólympíuleikunum. Við erum með 25 manna hóp, sem er ólíkt því sem ég hef vanist þar sem við höfum haft 11-14 leikmenn í fínu standi,“ sagði Sara þegar Morgunblaðið ræddi við hana eftir æfingu hjá Wolfsburg í gær.

Vill mikla samkeppni

Hún býst við harðri samkeppni um sæti í byrjunarliðinu enda segir stærð leikmannahópsins allt sem segja þarf um samkeppnina sem væntanleg er. „Ég hugsa að mér verði spilað sem sexu á miðjunni og það eru fjórir leikmenn í þeirri stöðu. Það er því mikil samkeppni og þetta eru allt gæðaleikmenn. Það er ástæðan fyrir því að ég kom hingað. Ég vil fá mikla samkeppni, ég vil að þetta sé krefjandi og þetta er búið að standa undir því. Við höfum æft eins og brjálæðingar á undirbúningstímabilinu. Reyndar er undirbúningstímabilið búið að vera mjög stutt miðað við það sem ég er vön. Í Svíþjóð voru þetta þrír mánuðir en hér eru það sex vikur. Hér er æft mjög vel í sex vikur og það er mjög erfitt. Síðan byrjar tímabilið og þá verður það aðeins minna.“

Þrátt fyrir mikla samkeppni um stöður í liðinu segir Sara að leikmönnum sé vel til vina utan æfinga. „Utan vallar eru allar góðar vinkonur og það er enginn slagur á æfingum á milli þeirra sem eru að keppa um stöðu í liðinu. Það eru samt gerðar rosalegar kröfur til allra. Ef þú sendir lélega sendingu þá er spurt „hvað ertu að gera?“ og þjálfararnir hika ekkert við að öskra upp í eyrað á þér. Þeir láta þig vita ef þú gerir mistök. Það er gerð mikil krafa um að þú gerir allt rétt og allt sé fullkomið. Auðvitað er það ekkert þannig, maður gerir fullt af mistökum en þetta heldur manni virkilega á tánum og maður bætir sig í þannig umhverfi. Ef gæðin eru mikil þá ertu að fara að bæta þig.“

Klárlega skref upp á við

Sara varð fjórum sinnum meistari á fimm árum í Svíþjóð. Dvölin í Svíþjóð var því góð en að hennar mati er Wolfsburg skref upp á við. „Þetta er klárlega skref upp á við, allt í sambandi við félagið og leikmennina. Ég á eftir að sjá hvernig deildin er en ég held að hún sé aðeins sterkari og þetta verður mjög krefjandi og er búið að vera það. Ég þarf að vera á tánum á hverri einustu æfingu og í hverjum einasta leik. Þetta er umhverfi sem ég mun bæta mig mest í. Þetta er mesta atvinnumannaumhverfi sem ég hef verið í, þannig að það er frábært.“

Sara vissi að hún væri komin í risaklúbb en samt kom umstangið í kringum liðið henni á óvart að vissu leyti. „Ég vissi hversu stór klúbbur þetta væri en það eru fimm þjálfarar á æfingu og fjórir sjúkraþjálfarar fyrir og eftir hverja æfingu. Ég vissi að við myndum æfa mjög stíft en kannski ekki alveg svona stíft. Ég hef bara gaman af því.“

Eru eins og vélmenni

Þjóðverjarnir eru hressir utan vallar en hinar mörgu reglur sem ríkja komu íslensku landsliðskonunni líka á óvart. „Utan vallar eru Þjóðverjarnir mjög fínir. Þegar þeir eru einbeittir þá eru þeir eins og vélmenni. Það kom mér líka á óvart að það eru ótrúlega margar reglur og ég þarf að vera mjög vel á tánum hvað það varðar. Ég skulda alveg smá í sektasjóðinn hérna,“ sagði Sara hlæjandi og útskýrði málið nánar: „Maður þarf að merkja vatnið sitt og þú mátt ekki koma of löngu áður en æfing byrjar og þú mátt ekki koma of seint. Við erum með GPS-tæki og ef við gleymum því þá skuldum við smá og þú þarft að skila því 15 mínútum eftir æfingu og mátt ekki vera of lengi úti eftir æfingu. Það er fullt af svona litlum reglum. Þeir eru agaðir og standa undir því.“

Sara flutti til Þýskalands í sumar og vill reyna að komast inn í tungumálið sem fyrst. „Ég er að reyna það. Ég vil komast sem fyrst inn í málið. Ég skil miklu meira inni á vellinum en til að komast betur inn í hópinn þá er betra að ná þýskunni sem fyrst.“

Þurfum að klára þessa tvo leiki

Sara, sem verður 26 ára í næsta mánuði, hefur leikið 94 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún lék fyrsta landsleikinn fyrir níu árum, mánuði áður en hún varð 17 ára. Sara hefur tekið þátt í tveimur lokamótum Evrópumóts og stefnir á það þriðja á næsta ári.

„Við þurfum bara að klára þessa tvo leiki og þá getum við fagnað þessu almennilega,“ en Ísland tekur á móti Slóveníu 16. september og Skotlandi fjórum dögum síðar í síðustu leikjunum í undankeppni Evrópumótsins. Mótið fer fram í Hollandi næsta sumar og Ísland þarf eitt stig úr þessum tveimur leikjum til að gulltryggja farseðilinn þangað.