Sigurður Ragnarsson sagnfræðingur skrifar um erlendar þjóðir í sögubókina Nýja tíma , sem Mál og menning gaf út 2006 fyrir framhaldsskólanema. Sigurður er gamall kommúnisti sem tók þátt í að þýða Úrvalsrit Marx og Engels á íslensku 1968.

Sigurður Ragnarsson sagnfræðingur skrifar um erlendar þjóðir í sögubókina Nýja tíma , sem Mál og menning gaf út 2006 fyrir framhaldsskólanema. Sigurður er gamall kommúnisti sem tók þátt í að þýða Úrvalsrit Marx og Engels á íslensku 1968. Mál og menning naut ríflegra styrkja frá Moskvu fram yfir 1970.

Sigurður segir á bls. 246: „Árið 1940 voru Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, innlimuð í Sovétríkin.“ Hann minnist ekki á að kommúnistastjórnin í Moskvu hernam löndin og beitti aftökum og fjöldahandtökum til að kúga þjóðir landanna til hlýðni.

Þegar sögunni víkur að opnuninni (glasnost) í Rússlandi á níunda áratug síðustu aldar segir Sigurður á bls. 292: „Hin opna umræða varð hins vegar til að vekja upp gamla þjóðernishyggju í ýmsum lýðveldum. Sterkust varð þessi þjóðernishreyfing í Eystrasaltsríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en hennar gætti einnig annars staðar. Þar kom að Eystrasaltsríkin lýstu yfir sjálfstæði og úrsögn sinni úr Sovétríkjunum eins og þau höfðu raunar heimild til samkvæmt stjórnarskrá ríkisins.“

Þetta er fráleitt. Eystrasaltsþjóðirnar gengu aldrei úr Ráðstjórnarríkjunum, af því að þær gengu aldrei í þau, heldur voru innlimaðar með ofbeldi. Þjóðernisvitund var sterk í löndum þeirra allan hernámstímann, eins og Ants Oras og Andres Küng lýsa í bókum sem komið hafa út á íslensku. Heimild til að ganga úr Ráðstjórnarríkjunum var innantóm andspænis ofureflinu, gráu fyrir járnum, með ritskoðun sína, leynilögreglu og aftökusveitir. Ísland viðurkenndi aldrei hernám Eystrasaltsríkjanna, og varð fyrst ríkja til að endurnýja viðurkenningu sína á sjálfstæði þeirra, þótt Sigurður minnist ekki á það.

Söguskoðun Sigurðar er fyrirskipuð í rússneskum skólum. Fleiri skoðanir hljóta að komast að í íslenskum skólum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is