[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Jóhannesson fæddist 27. ágúst 1956 á Akureyri og ólst þar upp. „Ég var sjö sumur í sveit á Ytra-Hóli í Fnjóskadal, lærði þar að vinna og verða sjálfstæður hjá góðu fólki sem er mér kært.“ Náms- og starfsferill Helgi tók vélstjórapróf...

Helgi Jóhannesson fæddist 27. ágúst 1956 á Akureyri og ólst þar upp. „Ég var sjö sumur í sveit á Ytra-Hóli í Fnjóskadal, lærði þar að vinna og verða sjálfstæður hjá góðu fólki sem er mér kært.“

Náms- og starfsferill

Helgi tók vélstjórapróf 4. stig, frá Vélskóla Íslands 1977, sveinsbréf í vélvirkjun frá Vélsmiðjunni Atla hf. 1981, er stúdent frá Tækniskóla Íslands 1982, véltæknifræðingur – BSc. frá Odense Teknikum 1985 og vélaverkfræðingur – MSc. frá Aalborg Universitet 1987. „Ég hef sótt mér endurmenntun gegnum fjölda námskeiða sérstaklega varðandi markaðsmál, stjórnun og rekstur, meðal annars stjórnendanámið, „Stjórnendur framtíðarinnar hjá IMG árið 2004.“ Helgi nam einnig vátryggingalögfræði við Háskólann í Reykjavík, 2008-2009.

Helgi var fyrsti vélstjóri og yfirvélstjóri á togurum, mest hjá ÚA, 1977-1980, deildarstjóri tæknideildar hjá Sláturfélagi Suðurlands, 1987-1996, forstöðumaður Atvinnumálaskrifstofu Akureyrarbæjar, 1996-1997, framkvæmdastjóri kjötiðnaðarsviðs KEA, 1997-2000, framkvæmdastjóri Norðlenska ehf., 2000-2001, framkvæmdastjóri Norðurmjólkur ehf., 2001-2007, umdæmisstjóri Vátryggingafélags Íslands á Norðurlandi 2007-2012. Helgi hefur verið forstjóri Norðurorku hf. frá apríl 2012.

Áhugamál

„Það helsta um mig er að við hjónin eigum bát á Akureyri og erum dugleg við að veiða í matinn sem og að rækta okkar eigin kartöflur og kál. Við förum einnig í veiði með vinafólki. Ég á gamalt mótorhjól sem notað er yfir sumarið, en samt sparlega. Við erum einnig dugleg á skíðum, flestar helgar yfir vetrartímann er farið á skíði. Við eigum sumarhús í Borgarfirði þar sem við náum m.a. að hitta eldri börnin og þeirra fjölskyldur sem búa á suðurhluta landsins. Eigum síðan sumarhús í Vaðlaheiðinni gegnt Akureyri með systkinum mínum, í landi sem foreldrar okkar eignuðust og gróðursettu í, allt frá 1959.

Við erum enn í miklum tengslum við Danmörku eftir námsárin fimm í landinu á sínum tíma og ég hef verið danskur konsúll á Akureyri/Norðurlandi frá 2001 sem tengir mikið. Það má segja að við höldum aldrei svo veislu að ekki sé boðið upp á „Gammel dansk“. Við erum dugleg í útivist, s.s. hlaup á sumrin, syndum og hjólum, höfum alltaf mikið umleikis og mikið að gera. Það má kannski segja að um margt erum við hálfgerðir bændur, alltaf að brasa saman við að byggja og bæta enda tel ég mig vera vélstjóra af gamla skólanum sem getur flest.

Við höfum alltaf verið dugleg að ferðast, ekki síst árin erlendis. Nú er það oft til að reyna að slappa af en verður þó oftar en ekki að einhvers konar fjallaferðum af þokkalegri erfiðleikagráðu.

Börnin okkar hafa oft sagt að það versta sem fyrir gæti komið væri að við hefðum ekki nóg að brasa og að við byggjum og breytum til að hafa nóg að gera en ekki vegna annarra þarfa. Annars má segja að lífið snúist að miklu um fjölskylduna, sem er stór, samverustundir og samhjálp.“

Fjölskylda

Kona Helga er Stefanía Sigmundsdóttir, f. 9.6. 1958, tæknifulltrúi hjá Akureyrarbæ. Hún er dóttir Sigmundar Magnússonar, fyrrv. umdæmisstjóra Vinnueftirlitsins á Akureyri og Guðrúnar Kristjánsdóttur húsmóður, sem bæði eru látin.

Börn Helga og Stefaníu: Anna Kristín, f. 5.11. 1977, leikskólastjóri, maður hennar er Smári Sigurbjörnsson og eiga þau þrjú börn; Magnús Gunnar, f. 14.11. 1980, viðskiptastjóri, kvæntur Sigrúnu Lóu Svansdóttur og eiga þau fjóra syni; Jónína Björg, f. 14.8. 1989, myndlistarmaður í sambúð með Magnúsi Jóni Magnússyni og á hann tvo syni, og Helga Þóra, f. 18.11. 1991, háskólanemi, í sambúð með Hallgrími Gíslasyni og eiga þau eina dóttur.

Systkini Helga: Hermundur Jóhannesson, f. 24.9. 1951, bílstjóri á Akureyri, kvæntur Þórunni Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn; Friðný Jóhannesdóttir, f. 5.8. 1953, læknir í Reykjavík og á hún einn son; Guðrún Jóhannesdóttir, f. 11.7. 1960, kennari á Akureyri og á hún einn son; Hjalti Jóhannesson, f. 1.11. 1962, sérfræðingur hjá RHA, kvæntur Fjólu Helgadóttur kennara og eiga þau tvo syni; Lilja Sigurlína Jóhannesdóttir, f. 28.4. 1966, læknaritari, gift Unnari Jónssyni og eiga þau þrjú börn.

Foreldrar Helga eru Jóhannes Gunnar Hermundarson, f. 6.3. 1925, d. 24.02. 2010, líkkistusmiður á Akureyri og k.h. Anna Hermannsdóttir, f. 12.8. 1927, húsmóðir, bús. á Akureyri.