Tveir góðir Jóhann Helgason tónlistarmaður og Jagúarinn eiga vel saman enda fara þeir allra ferða saman og njóta lífsins, hvor á sinn hátt.
Tveir góðir Jóhann Helgason tónlistarmaður og Jagúarinn eiga vel saman enda fara þeir allra ferða saman og njóta lífsins, hvor á sinn hátt. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Jóhann Helgason tónlistarmaður á bifreið af tegundinni Jagúar Sovereign, árgerð 1986.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Jóhann Helgason tónlistarmaður á bifreið af tegundinni Jagúar Sovereign, árgerð 1986. Bíllinn tengist bresku konungsfjölskyldunni óbeint og stjórn Bretlands með skemmtilegum hætti og er því ekki aðeins eðalgripur heldur á sér merka sögu.

„Ég hef aldrei verið með bíladellu, tók ekki bílpróf fyrr en ég var 27 ára, en eftir að ég flutti á Seltjarnarnesið 1981 hef ég reglulega gengið um Valhúsahæð og fyrir utan rafmagnsverkstæði Sævars sá ég eitt sinn bíla sem ég hafði aldrei séð áður,“ rifjar Jóhann upp. Hann segir að þessir bílar hafi vakið forvitni sína og einn daginn hafi hann farið inn og rætt við Sævar, eiganda verkstæðisins. „Hann kom mér í samband við Englendinginn Peter Hugo, sem hefur meðal annars oft leikið Karl Bretaprins, auk þess sem hann selur klassíska bíla eins og Jagúar. Það endaði með því að hann seldi mér sinn bíl 1999, árið sem ég varð fimmtugur.“

Vísað til vegar sem prinsi

Leiðir Jóhanns og Peters lágu fyrst saman eftir að hann keypti bílinn en í ljós kom að Peter rak gjafavöruverslunina Sterling í Hafnarstræti í samstarfi við Hilmar Friðrik Foss. „Við Hilmar heimsóttum hann 2008 og í þeirri ferð fékk ég „nýjan“ ljósarofa hjá kunningja Hilmars í klassíska varahlutabransanum, úr bíl sem var áður í eigu Margrétar Thatcher.“

Jóhann áréttar að Peter sé mjög líkur Karli prinsi. „Hann sagði okkur meðal annars frá því að lögreglan hefði eitt sinn stöðvað hann þar sem hún hélt að hann væri að villast á leiðinni í húsnæði hirðarinnar í nágrenninu.“

Jagúar er ekki sama og Jagúar

Jóhann bendir á að árgerð 1986 sé síðasta árgerð smíðuð samkvæmt ákveðinni ítalskri hönnun. „Breytingin var ekki til bóta, svona eins og að breyta lögun kókflöskunnar,“ segir hann. Bætir við að þegar hann hafi verið í kauphugleiðingunum hafi hann sagt Peter að hann vildi dökkbláan bíl með stýrinu vinstra megin og sér lægi ekki á, því hann væri búinn að bíða svo lengi. „Þetta endaði með því að Peter sagðist vera tilbúinn að selja mér sinn bíl, sem er reyndar með stýrinu hægra megin, og því fékk ég meiri lúxusbíl en til stóð í upphafi, bíl með þaklúgu og ýmsu öðru, og hann hefur reynst mér sérlega vel.“

Jóhann notar Jagúarinn eins og hann þarf nema hvað hann sleppir því að keyra í snjónum. „Saltið er svo fljótt að skemma en þetta er góð árgerð og ég er sáttur enda gefandi og gerir lífið skemmtilegra að eiga svona bíl.“