Aldeyjarfoss Lagt er til að vatnasvæði Skjálfandafljóts fari í verndarflokk rammaáætlunar. Hugmyndir hafa verið um virkjun fljótsins í Bárðardal, ofan Aldeyjarfoss. Sú virkjun myndi aðallega hafa áhrif á Hrafnabjargafoss.
Aldeyjarfoss Lagt er til að vatnasvæði Skjálfandafljóts fari í verndarflokk rammaáætlunar. Hugmyndir hafa verið um virkjun fljótsins í Bárðardal, ofan Aldeyjarfoss. Sú virkjun myndi aðallega hafa áhrif á Hrafnabjargafoss. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Umhverfisráðherra mun skoða það hvort unnt verður að leggja þingsályktunartillögu um 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar fram á Alþingi fyrir kosningar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Umhverfisráðherra mun skoða það hvort unnt verður að leggja þingsályktunartillögu um 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar fram á Alþingi fyrir kosningar. Sigrún Magnúsdóttir segist meta það að lokinni skoðun á tillögum verkefnisstjórnarinnar hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Engar breytingar eru á röðun virkjunarkosta og náttúrusvæða í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, frá skýrsludrögum sem verið hafa til kynningar hjá almenningi og hagsmunaaðilum í sumar. Stjórnin skilaði tillögunum til ráðherra við sérstaka athöfn í gær.

Átta nýir virkjunarkostir

Lagt er til að átta nýir virkjunarkostir bætist við þá tíu kosti sem fyrir voru í orkunýtingarflokki. Nýju kostirnir eru Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Þeir fela í sér uppsett afl í vatnsaflsvirkjunum upp á alls 277 MW, 280 MW í jarðvarmavirkjunum og 100 MW í vindmyllugarði.

Í verndarflokk bætast fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, það eru Héraðsvötn, Skjálfandafljót, Skaftá og Kjalölduveita í Þjórsá. Fyrir eru sextán virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki.

Hörð gagnrýni kom á tillögur verkefnisstjórnar frá því í vor í umsagnarferlinu, meðal annars frá Orkustofnun og Landsvirkjun. Verkefnisstjórnin dregur gagnrýnina saman í nýju skýrslunni og svarar.

Semur tillögu til Alþingis

Þessi verkefnisstjórn er sú fyrsta sem vinnur samkvæmt heildstæðum lögum um rammaáætlun. Sigrún tekur fram að hún telji að gott starf hafi verið unnið. Þá sé það einstakt í viðamiklu verkefni að allar tímaáætlanir sem hún hafi lagt upp með formanni verkefnisstjórnar hafi staðist.

Ráðherra mun í samvinnu við iðnaðarráðherra flytja málið til Alþingis með þingsályktunartillögu. Þeir geta gert breytingar en þær þurfa þá að fara í nýtt umsagnarferli. Alþingi tekur endanlega ákvörðun.