Talið er að 70% bygginga standist ekki öryggiskröfur

Á Ítalíu ríkir þjóðarsorg eftir jarðskjálftann sem reið yfir á miðvikudag með skelfilegum afleiðingum. Síðdegis í gær var vitað að 278 manns hefðu látist í skjálftanum og enn er margra saknað. Um fimm þúsund manns hafa unnið við að leita í rústunum. Mörg hundruð eftirskjálftar hafa gert þeim starfið erfitt en þó hefur tekist að ná 215 manns á lífi. Vonir um að finna fleiri á lífi í rústunum fara dvínandi.

Skjálftinn reið yfir á miðri Ítalíu. Verst urðu úti bæirnir Amatrice og Accumoli í héraðinu Lazio og Arquata del Tronto og Pescara del Tronto í héraðinu Marche. Þorpin í Marche standa við forna rómverska götu, Via Salaria, sem liggur frá Róm til Adríahafs.

Ítalir hafa snúið bökum saman eftir skjálftann og hafa hjálpargögn borist víða að. „Við höfum orðið vitni að ótrúlegri samstöðu, einingu, ást, hjálp alls staðar að á Ítalíu. Það fyllir mig stolti af að vera Ítali,“ sagði Giancarlo Carloni, varaborgarstjóri Amatrice.

Eyðileggingin eftir skjálftann er gríðarleg og sum þorpin verða sennilega ekki endurreist. Í Pescara del Tronto standa fimm hús eftir. Allar aðrar byggingar hrundu og segja yfirvöld að í ljósi þess sé spurning hvort skynsamlegt sé að byggja aftur á sama stað. Íbúarnir munu því væntanlega verða að sætta sig við að fara annað. Einn íbúi þorpsins sagði við blaðamann The New York Times að verst væri að skjálftinn hefði ekki aðeins svipt þorpsbúa framtíðinni, heldur einnig fortíðinni.

Önnur þorp verða þó endurreist. Ítalir hafa reynslu af því. Frá 1968 hefur samtals 180 milljörðum evra verið varið í að endurreisa mannvirki eftir jarðskjálfta, samkvæmt útreikningum samtaka ítalskra verktaka. 13,7 milljarðar evra voru settar til hliðar til uppbyggingar eftir skjálftann í L'Aquila 2009.

Gagnrýnisraddir eru þegar farnar að heyrast í kjölfar skjálftans. Ítölsk stjórnvöld kunni að bregðast við, en forvarnir séu þeim framandi. Óvíða í Evrópu eru jarðskjálftar jafn algengir og á Ítalíu. Á nokkurra ára fresti farast nokkur hundruð manns vegna náttúruhamfara.

Í fjölmiðlum hefur verið haft eftir sérfræðingum að 70% bygginga standist ekki öryggiskröfur. Gerð hefur verið greining á því hvaða svæði séu hættulegust og þar er Mið-Ítalía ofarlega á blaði. 60 milljónir manna búa á Ítalíu. Þar af búa 24 milljónir þar sem mikil hætta er á jarðskjálftum.

Enzo Boschi, fyrrverandi forseti jarðfræði- og eldfjallastofnunar Ítalíu, segir að í landinu sé aðeins byggt af ábyrgð eftir skjálfta. Hann bendir á Norcia í Úmbríu máli sínu til stuðnings. Þar var byggt aftur eftir skjálfta 1979 og 1997. Þar var farið eftir stöðlum og í skjálftanum á miðvikudag lést enginn í bænum, enginn slasaðist og tjón var óverulegt. Þó liggur bærinn skammt frá miðju skjálftans.

Sérfræðingar benda einnig á að ekki sé lögð næg áhersla á að fræða fólk um hvernig það eigi að bregðast við í jarðskjálftum. Því hefur verið haldið fram að á milli 20% og 50% dauðsfalla vegna skjálfta megi rekja til þess að fólk bregðist rangt við.

Flestir láta hins vegar lífið vegna þess að þegar hús hrynja verða þeir undir rústunum. Í mörgum tilfellum er það vegna þess að hús eru gömul og voru jafnvel reist aftur á miðöldum.

Tilraunir til þess að hvetja húseigendur til að styrkja hús sín með því að veita skattafslátt hafa ekki virkað. Eigendur fasteigna hafa ekki viljað að öryggi húsa í einkaeigu yrði metið vegna þess að það gæti þýtt að eignin lækkaði í verði eða ráðast yrði í dýrar umbætur.

Sérfræðingar hafa krafist þess að í það minnsta verði reynt að tryggja öryggi opinberra bygginga á borð við sjúkrahús og skóla. Í Amatrice hrundi skóli, sem gerður var upp 2012 og átti að standast öryggiskröfur, en klukkuturn frá þrettándu öld haggaðist ekki. Það mál verður nú rannsakað.

Lýst var yfir neyðarástandi í gær vegna skjálftans á miðvikudag. Ítalir eru í sárum eftir þessar hamfarir og samhugur með þeim er mikill, ekki síst á Íslandi þar sem náttúruöflin láta einnig að sér kveða. Ítalir hafa reynslu af að bregðast við þegar jarðskjálftar dynja yfir. Nú þurfa þeir að nýta þá reynslu til að styrkja hús og auka öryggi því að hættan hverfur ekki.