Stefán Einar Stefánsson: "Umræðan um Guð er sístæð. Hún stendur yfir í einhverri mynd á öllum stundum og hefur gert frá því að maðurinn kom fram á sjónarsviðið. Hann er gæddur hæfni til að hugsa um það sem er handan þess sýnilega veruleika sem augun og önnur skynfæri greina."

Umræðan um Guð er sístæð. Hún stendur yfir í einhverri mynd á öllum stundum og hefur gert frá því að maðurinn kom fram á sjónarsviðið. Hann er gæddur hæfni til að hugsa um það sem er handan þess sýnilega veruleika sem augun og önnur skynfæri greina. Þannig getur maðurinn ekki aðeins látið sig dreyma heldur einnig velt fyrir sér hinstu rökum, spurningum á borð við þá hvort eitthvað taki við að lífinu loknu en ekki síður hvaðan maðurinn kemur og sá lífskraftur sem knýr alla sköpunina áfram í mikilfengleik sínum.

Umræðan um Guð er eðlilega stórbrotin og frá henni eru sprottin mörg af mögnuðustu listaverkum heims og einnig mörg af þeim afrekum sem vekja undrun og eftirtekt. En þessi umræða er einnig á tímum leiðigjörn og á síðustu áratugum hefur hún orðið rýrari að innihaldi en oftast áður. Ræður þar mestu ómálefnalegt og vanstillt tal þeirra sem sjá trúnni allt til foráttu. Sú umræða sem þaðan sprettur hefur engu bætt við um þá áleitnu og um leið áhugaverðu spurningu hvort Guð sé til og hvort hann eigi hlut að máli þegar tilvist okkar er annars vegar.

En endrum og eins glittir í góða og innihaldsríka umræðu um Guð. Eitt slíkt dæmi er frábærlega vel skrifuð bók Árna Bergmann frá árinu 2008 sem ber heitið „Glíman við Guð“. Þar er glímt um Guð og það er gert af yfirvegun, þekkingu og þess sem reynt hefur mörg fangbrögð í trúarbaráttu sinni. Bókin eldist vel.

Annað dæmi er nýútkomin bók sem ber hið áhugaverða heiti: „Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð.“ Þar er á ferðinni þýðing dr. Grétars Halldórs Gunnarssonar guðfræðings á vinsælu riti Rob Bell, bandarísks prests og rithöfundar, sem fyrst kom út í Bandaríkjunum árið 2012 og hefur vakið mikla athygli víða. Rob Bell hefur haft mikil áhrif með boðun sinni og var árið 2011 talinn af tímaritinu Time í hópi 100 áhrifamestu einstaklinga í heimi.

Í bókinni glímir Rob við sömu spurningar og Árni Bergmann og svo margir á undan þeim hafa gert. Hann gerir það hins vegar á nýstárlegan hátt og aðgengilegan sem eflaust mun fá margt fólk sem ekki hefur áður gefið viðfangsefninu sérstakan gaum, til að brjóta heilann um Guð og sína persónulegu trú eða trúleysi. Bókin flæðir vel og uppbygging hennar er nokkuð óvenjuleg. Meðan á lestri hennar stendur er ekki laust við að maður finni sig á stundum í smásögum og prósum en þess á milli í hefðbundnara formi bókmennta af þessu tagi. Það gerir hana ekki síður spennandi.

Vonandi mun bókin hreyfa við fólki og stuðla að upplýstu, fordómalausu og yfirveguðu samtali um Guð. Hún væri til dæmis upplögð fyrir foreldra sem ræða vilja við börn á fermingaraldri um stærstu spurningar lífsins. Kannski væri ekki vitlaust að hefja fermingarveturinn á lestri hennar og eiga svo gott spjall um efni hennar og innihald þegar jólin taka að nálgast. ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson

Höf.: Stefán Einar Stefánsson