Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "„Brýnasta þörfin lýtur að breytingu á reglum um skipan hæstaréttardómara, en sitjandi dómarar í réttinum hafa nú í reynd alræðisvald um það hverjir skuli nýir fá að komast inn í hópinn."

Á Alþingi sl. vor voru samþykkt ný lög um dómstólaskipan, þar sem stofnað var millidómsstig, Landsréttur. Þegar innanríkisráðherra lagði fram frumvarpið að þessum lögum lét hann þess getið að í vinnslu væri í ráðuneytinu sérstakt frumvarp um breytingu á ákvæðum laga um skipan nýrra dómara að dómstólum landsins. Kvaðst ráðherrann hafa sérstakan áhuga á því máli. Vakti þetta vonir um að innan seilingar væru breytingar á þeirri skipan sem gilt hefur um þetta efni og er með öllu óásættanleg og raunar hugsanlega í andstöðu við stjórnarskrá. Brýnasta þörfin lýtur að breytingu á reglum um skipan hæstaréttardómara, en sitjandi dómarar í réttinum hafa nú í reynd alræðisvald um það hverjir skuli nýir fá að komast inn í hópinn. Minnast menn væntanlega dæma úr fortíðinni þar sem sérvaldir umsækjendur hafa með eins konar fautaskap verið teknir fram yfir aðra með afar hlutdrægum umsögnum um hæfni, en ráðherra er samkvæmt gildandi lögum með ákveðnum hætti bundinn við slíkar niðurstöður hins ráðandi dómarahóps. Og sá hópur vill fá að ráða þessu til að geta viðhaldið „fjölskyldustemningunni“ sem ræður ríkjum við dómsýslu réttarins. Hún leyfir ekki að einstakir dómarar í hópnum leggi sjálfstætt mat á sakarefni málanna fremur en að skrifa upp á það sem frá hinum kemur.

Frumvarpið um þessar breytingar var þó aldrei flutt á vorþinginu þrátt fyrir yfirlýstan áhuga ráðherrans og nú á því stutta þingi sem yfir stendur mun það heldur ekki verða flutt eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Hvernig ætli standi á þessu? Þetta mál er ekki flókið í smíðum. Ætli geti verið að ráðherrann láti sitjandi valdahóp í Hæstarétti hrekja sig frá verki? Spyr sá sem ekki veit. Niðurstaðan er alltént sú að enn munu sitjandi dómarar um ófyrirsjáanlega framtíð ráða skipun nýrra dómara.

Nú eru kosningar fram undan og ný ríkisstjórn verður mynduð að þeim loknum. Ég leyfi mér að láta í ljósi ósk um að þá taki við dómsmálunum ráðherra sem láti ekki valdaklíku dómaranna, sem öllu vilja ráða, segja sér fyrir verkum, heldur hafi á því sjálfstæðar skoðanir hvað gera þurfi til að tryggja að dómstólar starfi af hlutleysi og málefnalegum heilindum. Á það hefur skort svo um munar á liðnum árum.

Höfundur er fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands.

Höf.: Jón Steinar Gunnlaugsson