Flugbraut Norður-suðurbrautin sem nú er verið að malbika.
Flugbraut Norður-suðurbrautin sem nú er verið að malbika. — Ljósmynd/Rúnar Jón Friðgeirsson
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Meðal þess sem felst í umfangsmiklum framkvæmdum sem nú standa yfir á Keflavíkurflugvelli er að ljósakerfi frá tímum Bandaríkjahers verður skipt út og leggja á sem samsvarar 100 kílómetrum af malbiki.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Meðal þess sem felst í umfangsmiklum framkvæmdum sem nú standa yfir á Keflavíkurflugvelli er að ljósakerfi frá tímum Bandaríkjahers verður skipt út og leggja á sem samsvarar 100 kílómetrum af malbiki. Áætlað er að framkvæmdirnar muni kosta um 20 milljarða króna, gert verður hlé á þeim í október og þráðurinn síðan tekinn upp næsta vor. Það eru Íslenskir aðalverktakar sem sjá um framkvæmdirnar og við þær starfa á milli 60 og 70 manns.

Á flugvellinum eru tvær flugbrautir, austur-vesturbrautin og norður-suðurbrautin. Sú braut, sem nú er verið að endurnýja, er sú síðarnefnda og á meðan framkvæmdir standa yfir er flugumferð beint að hluta til yfir á hina brautina. „Það var ákveðið að endurnýja hana í sumar því þá er minni hætta á hliðarvindi á AV-brautinni, en þegar hann er getur verið erfitt að lenda á henni,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Hann segir að þrátt fyrir framkvæmdir sé alltaf einhver hluti NS-brautarinnar opinn. „Núna er t.d. rúmur helmingur, 1.600 metrar af henni, opinn, en hún er 3 kílómetrar á lengd og 60 metrar á breidd,“ segir Guðni.

Ljósakerfið á flugvellinum hefur fram að þessu verið byggt á bandarísku rafkerfi, en það nýja er með LED-ljósum eða díóðum. Að sögn Guðna fylgir því talsverður orkusparnaður. Í nýja kerfinu verða líklega um 6.000 ljós sem tengd verða saman með 150 kílómetra löngum kapli.

700.000 fermetra malbik

Guðni segir að samtals verði lögð um 100.000 tonn af sérstyrktu malbiki á flugvöllinn á meira en 700 þúsund fermetra. Í malbikið hafa verið flutt inn 50.000 tonn af steinefni með fjórum skipum. „Ef það væri lagt á sjö metra breiðan veg væri hann um 100 kílómetra langur, eða frá flugvellinum til Selfoss,“ segir Guðni til marks um umfang framkvæmdanna.
Flugbrautarframkvæmd
» Settur verður upp nýr flugleiðsögubúnaður.
» Tilboð Íslenskra aðalverktaka í verkið hljóðaði upp á 5,6 milljarða.
» Framkvæmdalok eru áætluð í október 2017.