Gylfi Sigfússon
Gylfi Sigfússon
Hagnaður Eimskipafélags Íslands nam 8,8 milljónum evra á öðrum fjórðungi ársins, eða sem svarar til 1,2 milljarða króna á núverandi gengi. Þetta er 59% meiri hagnaður en á sama ársfjórðungi í fyrra.

Hagnaður Eimskipafélags Íslands nam 8,8 milljónum evra á öðrum fjórðungi ársins, eða sem svarar til 1,2 milljarða króna á núverandi gengi. Þetta er 59% meiri hagnaður en á sama ársfjórðungi í fyrra.

Rekstrartekjur drógust saman um 0,4% á milli ára og námu 126,1 milljón evra. Á sama tíma drógust rekstrargjöld enn meira sa man, eða um 3,0% miðað við annan ársfjórðung í fyrra. Þetta leiddi til þess að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, jókst um 22% á milli ára og nam 16,2 milljónum evra á síðasta ársfjórðungi, jafngildi 2,1 milljarðs króna.

Hagnaður Eimskips á fyrri árshelmingi nemur 10,6 milljónum evra sem er 50,6% aukning á milli ára. Eiginfjárhlutfall var 62% í lok júní.

Gylfi Sigfússon, forstjóri, segir í afkomutilkynningu til Kauphallar að Eimskip stefni að því að ljúka á þriðja og fjórða ársfjórðungi kaupum á nokkrum fyrirtækjum í Evrópu sem falla undir kjarnastarfsemi félagsins. „Félagið er nú í samstarfi við alþjóðleg lögfræði- og endurskoðunarfyrirtæki til að ljúka áreiðanleikakönnunum,“ segir Gylfi. „Eins og áður hefur komið fram er það áfram markmið okkar að vaxa, bæði með innri vexti og með kaupum á fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og auka virði þess.“