— Morgunblaðið/Golli
Eiðurinn, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni San Sebastian- hátíðarinnar sem er ein af fáum svokölluðum „A“-kvikmyndahátíðum.

Eiðurinn, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni San Sebastian- hátíðarinnar sem er ein af fáum svokölluðum „A“-kvikmyndahátíðum. Þetta er í annað sinn sem kvikmynd eftir Baltasar keppir í aðalkeppni San Sebastian-hátíðarinnar, því 2002 keppti Hafið. Hátíðin fer fram á Spáni dagana 16.-24. september.

Eiðurinn mun keppa um Gullnu skelina, aðalverðlaun hátíðarinnar sem eru veitt fyrir bestu mynd. Myndin verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem hefst 8. september, en daginn eftir verður hún frumsýnd hérlendis. Baltasar leikstýrir og skrifar handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni auk þess sem hann leikur eitt aðalhlutverkanna. Meðal annarra leikara eru Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Baltasar lék síðast í kvikmyndinni Reykjavík Rotterdam, 2008.