Rósa Guðbjartsdóttir
Rósa Guðbjartsdóttir
Eftir Rósu Guðbjartsdóttur: "Nú verður hægt að halda áfram að greiða niður óhagstæð lán sem hafa sligað bæjarsjóð."

Hálfsársuppgjör Hafnarfjarðarbæjar sýnir mikinn viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins. Niðurstaða fyrri hluta ársins var jákvæð um 483 milljónir króna eða hátt í milljarði betri en á sama tíma í fyrra, en þá var hallinn tæpar 400 milljónir króna. Þá hefur veltufé frá rekstri aukist um 1.350 milljónir króna á milli ára. Þær umbætur á heildarrekstri sveitarfélagsins sem ráðist var í eru að skila tilætluðum árangri.

Þegar núverandi meirihluti tók við stjórnartaumunum, fyrir um tveimur árum, var farið í ítarlega greiningu og úttekt á öllum rekstri bæjarfélagsins sem hafði, eins og kunnugt er, glímt við erfiða fjárhagsstöðu um langt árabil. Í kjölfarið var gripið til aðgerða sem miðuðu að því að endurskipuleggja reksturinn og forgangsröðun. Jafnframt var verkefnum breytt með það að markmiði að efla þjónustuna og auka samkeppnishæfni sveitarfélagsins.

Ríkuleg uppskerara

viðsnúningur sem uppgjörið ber með sér sýnir glögglega hve nauðsynlegar þær hagræðingaraðgerðir voru og hve mikilvægt er að festa og ábyrgð einkenni rekstur sveitarfélagsins. Nú verður hægt að halda áfram að greiða niður óhagstæð lán sem hafa sligað bæjarsjóð. Samhliða því á að vera svigrúm til að lækka álögur á bæjarbúa en um leið efla grunnþjónustuna. Þá mun einnig vera hægt að auka viðhald á eignum bæjarfélagsins og byggja upp frekari innviði. Og það allt fyrir eigið fé!

Engin ný lán í ár

Það sem af er ári hefur bæjarsjóður ekki tekið nein ný lán og einungis framkvæmt fyrir eigið fé. Dæmi um breytta stefnu og áherslur í rekstri bæjarins er framkvæmd við leikskóla sem nýverið var opnaður á Völlum. Leikskólinn var eingöngu byggður fyrir eigið fé sveitarfélagsins. Ef svo fer fram sem horfir þá verður það nú, árið 2016, í fyrsta sinn í a.m.k. 14 ár, eða frá árinu 2002, sem Hafnarfjarðarbær þarfnast engra nýrra lána. Gert er ráð fyrir því að á miðju næsta ári verði skuldaviðmið bæjarfélagsins komið niður fyrir 150%. Sá árangur er framar björtustu vonum þeirra sem tóku við stjórnun bæjarsins fyrir um tveimur árum en gefur tilefni til bjartsýni á framtíðina.

Höfundur er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Höf.: Rósu Guðbjartsdóttur