Í eldlínunni Gylfi verður vonandi í stuði gegn Leicester í dag en hér er hann í baráttu við Eric Dyer í leiknum við Englendinga á EM í sumar.
Í eldlínunni Gylfi verður vonandi í stuði gegn Leicester í dag en hér er hann í baráttu við Eric Dyer í leiknum við Englendinga á EM í sumar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í velska liðinu Swansea City verða í eldlínunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar þeir sækja meistara Leicester City heim á King Power-völlinn í...

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í velska liðinu Swansea City verða í eldlínunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar þeir sækja meistara Leicester City heim á King Power-völlinn í Leicester. Swansea hóf leiktíðina með útisigri gegn nýliðum Burnley en tapaði á heimavelli fyrir nýliðum Hull um síðustu helgi.

Morgunblaðið náði tali af Gylfa Þór og spurði hann fyrst hvort það hefði verið erfitt að gíra sig upp fyrir leiktíðina eftir ævintýrið með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar?

„Nei, alls ekki. Við leikmennirnir sem vorum á EM í sumar fengum lengra aðeins lengra frí en aðrir. Nú er EM löngu búið, sem var frábær tími, en nú er tímabilið bara hafið hér og það er bara mjög gaman,“ sagði Gylfi Þór.

Getum á góðum degi unnið Leicester

Spurður út í slaginn gegn Englandsmeisturunum sagði Gylfi: „Það verður bara mjög gaman að mæta þeim en framundan er mjög erfitt prógramm hjá okkur þar sem við mætum flestum bestu liðunum. Eftir landsleikjahléið mætum við Chelsea, Southampton, Manchester City, Liverpool og Arsenal í deildinni og þar inni á milli er leikur við Manchester City í deildabikarnum. Það verður mikilvægt fyrir okkur að safna einhverjum stigum í þessum leikjum. Tapið á heimavelli á móti Hull var ansi svekkjandi en það þýðir ekkert að hengja haus yfir þeim úrslitum. Það verður gaman að eiga við meistarana. Við getum á góðum degi unnið þá en við getum líka skíttapað. Leicester hefur átt í smábasli í fyrstu umferðunum og það er kannski eðlilegt því allir vilja vinna meistarana. Nú tekur við ný áskorum fyrir þá. Leicester er áfram með hörkugóða leikmenn sem geta klárað leiki upp á sitt eindæmi,“ sagði Gylfi Þór.

Swansea hafnaði í tólfta sæti í deildinni á síðustu leiktíð en hvernig metur hann liðið á þessu tímabili?

„Það er erfitt að segja til um það. Fyrir tímabilið í fyrra leist mér mjög vel á liðið. Við byrjuðum mjög vel en svo fór allt í baklás og við vorum við botninn. Okkur tókst að rétta úr kútnum og enduðum um miðja deild en ég neita því ekki að tímabilið var frekar svekkjandi. Okkur skorti stöðugleika. Það verður eiginlega bara að koma í ljós hvernig okkur reiðir af á tímabilinu. Við erum búnir að fá til okkar tvo góða framherja og vonandi komast þeir á skotskóna sem allra fyrst. Annar þeirra er að vísu meiddur sem stendur,“ sagði Gylfi en framherjarnir sem um ræðir eru Spánverjarnir Fernando Llorente sem kom frá Sevilla og Borja Bastón sem kom frá Eibar. Á móti hefur Swansea misst fyrirliðann Andy Williams til Everton og André Ayew til West Ham.

Erfitt að missa Williams

Gylfi segir það hafa verið mjög slæmt að missa Williams. „Williams var fyrirliði liðsins, mikill karakter og stór persónuleiki í klefanum. Það var erfitt að sjá á eftir honum en svona er fótboltinn. Oft fara bestu leikmennirnir og þá verða bara aðrir menn að stíga upp í staðinn,“ segir Gylfi.

Gylfi gerði nýjan fjögurra ára samning við Swansea eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar og er nú samningsbundinn velska liðinu til ársins 2020. Gylfi var orðaður við nokkur félög í úrvalsdeildinni en ákvað að halda kyrru fyrir og skrifa nafn sitt undir nýjan samning.

Swansea var alltaf númer eitt

„Það voru einhver lið sem settu sig í samband við mig en ég var búinn að vera í viðræðum við Swansea um nýjan samning í nokkuð langan tíma eða frá síðasta tímabili lauk. Það tók lengri tíma þar sem nýir bandarískir eigendur komu til félagsins. Swansea var alltaf númer eitt í stöðunni hjá mér og ég er bara mjög ánægður að vera hér,“ sagði Gylfi Þór.

Spáir City titlinum

Um titilbaráttuna í ár segi Gylfi: „Ég hélt því fram fyrir ári að Manchester City myndi fara alla leið og ég segi það sama núna. Manchester United og Chelsea hafa bæði styrkst verulega og ég geri ráð fyrir því að þau verði líka með í þessari baráttu.“

Gylfi er ekki lengur eini Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni því landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er genginn í raðir nýliða Burnley og eru þrír landsliðsmenn, Jón Daði Böðvarsson, Ragnar Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon komnir í ensku B-deildina. Gylfi fagnar þessum tíðindum.

Gott fyrir íslenskan fótbolta

„Þetta er gott fyrir íslenskan fótbolta og fyrir þessa leikmenn að fá tækifæri á Englandi þar sem þeir vildu spila. Þeir eru að taka fín skref. Enska B-deildin er gríðarlega erfið og krefjandi. Leikirnir eru margir og liðin mörg hver erfið viðureignar. Jón Daði hefur farið vel af stað og ég er viss um að Raggi og Hörður eiga eftir að gera það gott líka. Vissulega hefði verið gaman að fá fleiri í úrvalsdeildina því það er alltaf gaman að mæta löndum sínum. En Jói kom og það var mjög ánægjulegt.“

Íslenska landsliðið tekur upp þráðinn í næstu og hefur undirbúninginn fyrir undankeppi HM en fyrsti leikur Íslands er á móti Úkraínu í Kiev hinn 5. september. Spurður hvernig hann haldi að það verði fyrir leikmenn að koma sér í gírinn eftir EM ævintýri í sumar segir Gylfi:

Markmiðið að komast aftur á stórmót

„Nú tekur bara við nýtt verkefni og ég held að við séu allt mjög einbeittir á það. Það verður svolítið fúlt að spila fyrsta leikinn fyrir luktum dyrum. En það eru þrjú stig í boði og um það snýst þetta. Leikurinn við Úkraínumenn verður gríðarlega erfiður. Það yrði vitaskuld frábært að byrja keppnina með sigri en ég held að eitt stig út úr þeim væri góð úrslit fyrir okkur. Ég held að það sé ekkert okkur í hag að það verði engir áhorfendur á leiknum. Við erum allir atvinnumenn í fótbolta og við viljum hafa fjölmenni og stemningu á þeim stöðum sem við spilum á. Það verður skrýtið að spila svona mikilvægan leik þar engir áhorfendur verða og mikil viðbrigði frá síðasta leik okkar þar sem við mættum Frökkum á Stade de France fyrir framan um 80 þúsund áhorfendur. Við viljum allir byggja ofan á árangurinn sem náðist á EM og markmiðið er að komast í lokakeppnina í Rússlandi. Við ætlum okkur á HM. Við upplifðum það allir hversu skemmtilegt það er að taka þátt í stórmóti og ekki síður fyrir fólkið heima á Íslandi og þetta er eitthvað sem við viljum upplifa aftur. Við gerum okkur grein fyrir því að riðillinn er gríðarlega erfiður þar sem aðeins efsta liðið tryggir sér sæti á HM. Ég held að það verði ekki mörg stig sem segja til um það hvort þú komist áfram eða ekki,“ segir Gylfi.

Söknuður að Lars en Heimir er tilbúinn

Nú hefur sú breyting orðin að Lars Lagerbäck er hættur og það kemur í hlut Heimis Hallgrímssonar að stýra liðinu einn og hefur með sér Helga Kolviðsson til aðstoðar.

„Nú fær Heimir tækifæri til að vera einn með liðið og fær fínan mann með sér. Þetta er stórt og mikið tækifæri fyrir Heimi og ég hef fulla trú á honum. Ég held að við séum í góðum höndum með Heimi og Helga. Vissulega er söknuður að Lars því hann gerði frábæra hluti þessi ár sem hann var með okkur. Heimir er örugglega í einhverju sambandi við Lars en ég tel að Heimir sé alveg tilbúinn í þetta verkefni,“ sagði Gylfi sem vonast svo sannarlega eftir því að fagna sigri á King Power-vellinum í Leicester í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson
» Gylfi Þór hóf atvinnumannaferil sinn hjá Reading árið 2008. Fyrst lék hann með unglinga- og varaliðinu og síðan með aðalliðinu.
» Hann lék sem lánsmaður með Shrewsbury og Crewe en samdi við þýska liðið Hoffenheim árið 2010.
» Hann gekk í raðir Tottenham árið 2012 og var síðan lánaður til Swansea. Hann samdi síðan við Swansea árið 2014. Gylfi hefur spilað 44 landsleiki og hefur í þeim skorað 14 mörk.