— Morgunblaðið/Líney
Líney Sigurðardóttir lineysig@simnet.is Fólk á ýmsum aldri, allt frá 18 ára upp í 46 ára, hefur verið á Þórshöfn undanfarið og unnið við hreinsun og fegrun umhverfisins, mest í lystigarðinum.

Líney Sigurðardóttir

lineysig@simnet.is

Fólk á ýmsum aldri, allt frá 18 ára upp í 46 ára, hefur verið á Þórshöfn undanfarið og unnið við hreinsun og fegrun umhverfisins, mest í lystigarðinum. Hópurinn er frá samtökunum Veraldarvinum og þátttakendur frá allmörgum löndum en Kínverjar voru flestir, ellefu alls í þessum átján manna hópi. Þeir höfðu sýnt mikinn áhuga á að koma til Þórshafnar og kusu það fremur en aðra staði á landinu en upphaflega átti ekki að koma svo stór hópur til Þórshafnar.

Jaroslaw Radtke og Nína Sæmundsdóttir hjá Langanesbyggð höfðu ásamt sveitarstjóra umsjón með hópnum, átján manns og verkefnum sem vinna átti.

Einn góðan sunnudag var farið með hópinn í stutta siglingu, en Jaroslaw fékk þrjá reynda sjómenn til að sigla út á fjörðinn í blíðuveðri og veitt skyldi í soðið um leið. Óhætt er að segja að ferðin hafi gengið vel, því að höfrungar dönsuðu kringum bátana og voru erlendu ungmennin alsæl með sjónarspilið.

Ekki spillti það að veiðin var góð, feitur og fallegur þorskur var dreginn af kappi um borð.

Hópurinn var alsæll með sjóferðina og veiðina, en Jaroslaw flakaði allan aflann á bryggjunni. Þorskurinn verður á matseðlinum næstu dagana og hlakka allir til hverrar máltíðar. Fleira var þessum Veraldarvinum gert til skemmtunar því að líka var farið með þá í sunnudagsferð út á Langanes, allt út á Font og í Skálar, einnig upp á Heiðarfjall þar sem mikið útsýni er í björtu veðri. Hópurinn var hér í 10 daga, hæstánægður með veruna á Þórshöfn og skilaði líka góðu hreinsunarverki.