Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Löngum er hún lögð í sjá. Líka heiti gyðjunnar. Fylgja henni í flokknum á. Form á vörum sams konar. Harpa á Hjarðarfelli svarar: Línu oft menn leggja í sjá. Lína heiti gyðjunnar.

Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Löngum er hún lögð í sjá.

Líka heiti gyðjunnar.

Fylgja henni í flokknum á.

Form á vörum sams konar.

Harpa á Hjarðarfelli svarar:

Línu oft menn leggja í sjá.

Lína heiti gyðjunnar.

Flokkslínunni fylgja á.

Fatalína iðjunnar.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Nú þarf af raunsæi að rýna,

rannsaka, skoða og brýna,

útsjónarsemina' að sýna,

með semingi birtist þá lína.

Guðrún Bjarnadóttir á „súrrealíska lausn“:

Leggja vill hún línu í sjó,

Lína skáldagyðja,

því lína flokks er ljúf en mjó

og línuvarir biðja.

Helgi Seljan leysir gátuna þannig:

Línan góða fiskin löngum er.

Línu Hlínarnafn kann ég að meta.

Flokkslínunni ætíð fylgja ber

flott sem lína varir orðið geta.

Guðmundur skýrir gátuna svona:

Á veiðum lína er lögð í sjá.

Lína er heiti gyðjunnar.

Fylgja línu flokksins á.

Framleiða vörulínu má.

Og síðan kemur limran:

Kvað Ástþór við unnustu sína:

„Ég ann þér svo heitt, Karólína,

að háir það mér

og allt að því er

óskapleg kvöl og pína!“

Nýjum laugardegi fylgir ný gáta:

Árla morguns upprisinn

á sér lét ei standa,

kokkaði gátu kokkurinn

kekkjótta að vanda.

Og gátan hljóðar svo:

Yfir hæð á fold ég fer.

Í fornöld þarna kappi bjó.

Sveitarfélag heitir hér.

Hygg ég vera birkiskóg.

Pétur Stefánsson bendir á, að ýmislegt sé hægt að gera í Reykjavík:

Í Reykjavík er dásamlegt að dvelja.

Dolfallinn má eyða tíma á safni.

Við Laugaveg má túristana telja,

til að hafa eitthvað fyrir stafni.

Á náttborðinu hjá mér eru ljóðmæli Jóns Þorsteinssonar á Arnarvatni. Þar yrkir hann „í orðastað manns um hest“. Kristján Karlsson fór oft með þessa stöku þegar vel lá á honum:

Góði minn, þegar æfi er öll

eigandans týndra vona

um grjótið norðan við Herrans höll

hlauptu þá með mig svona.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is