[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Þeir sem fá sér göngutúr um miðbæ Reykjavíkur taka fljótt eftir því að þar er varla þverfótað fyrir erlendum ferðamönnum.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Þeir sem fá sér göngutúr um miðbæ Reykjavíkur taka fljótt eftir því að þar er varla þverfótað fyrir erlendum ferðamönnum. Þeir ganga um götur, kíkja í búðir, sitja á kaffihúsum, virða fyrir sér byggingar og gera flest það sem ferðamenn gera jafnan í borgarferðum. Eitt af því er að njóta menningar og lista og þar hefur framboðið í miðborginni aukist samhliða auknum ferðamannastraumi, með sérstökum leiksýningum, hátíðum og tónleikum. Forsvarsmenn menningarstofnana telja að fleiri tækifæri séu til að gera betur í þeim efnum.

Þúsundir ferðamanna eiga leið um miðborgina á degi hverjum. Daglega yfir sumarið koma um 2.500 manns í Upplýsingamiðstöð ferðamanna hjá Höfuðborgarstofu, og vikulegar heimsóknir í Hörpu hafa að jafnaði verið um 65 þúsund talsins í júlí og ágúst, þar af eru erlendir ferðamenn taldir vera um 90%, eða um 58 þúsund.

60% fjölgun í Hörpu

„Við erum orðinn mest sótti ferðamannastaðurinn á Íslandi,“ fullyrðir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, og nefnir nokkrar fleiri tölur því til staðfestingar. Þannig komu um 240 þúsund gestir í húsið í júlí sl. borið saman við um 150 þúsund í sama mánuði í fyrra. Fjölgunin á milli ára er þarna um 60%. Í sumar hafa um 20 þúsund gestir séð leiksýningar eða tónleika fyrir ferðamenn, um fimm þúsund hafa farið í skoðunarferðir um húsið í sumar, 15 þúsund skoðuðu Expo-skálann og fimm þúsund gestir hafa keypt sig inn á sýningar í austurhluta Hörpu um David Bowie og Vesturfarana.

„Við sjáum hérna fullt af ferðamönnum á hverjum degi. Margir koma til að dást að húsinu og taka myndir en við litum á það sem hlutverk okkar að auka framboð viðburða í samstarfi við aðra aðila,“ segir Halldór og nefnir þar fyrst leiksýninguna „How to Become Icelandic in 60 Minutes“ sem hefur verið sýnd nokkur undanfarin ár á ensku við góðar undirtektir. Leikritið samdi Bjarni Haukur Þórsson og Siggi Sigurjóns leikstýrir þeim Erni Árna og Karli Ágústi Úlfssyni. Þá byrjaði í sumar leiksýningin „The Icelandic Sagas – The Greatest Hits in 75 Minutes“, sem flutt er á ensku í Norðurljósasalnum að kvöldi til. Ólafur Egill Egilsson er leikstjóri og skrifaði hann handritið, byggt á Íslendingasögunum, ásamt leikurunum Jóhanni Jóhannssyni og Lilju Nótt Þórarinsdóttur. Aðrir leikarar í sýningunni eru Björn Ingi Hilmarsson, Esther Talía Casey, Oddur Júlíusson og Aðalbjörg Árnadóttir.

Einnig geta ferðamenn hlustað reglulega á perlur íslenskra sönglaga, í flutningi Bjarna Thors Kristinssonar óperusöngvara. Tónleikarnir eru í Kaldalóni í hádeginu eða síðdegis. Halldór segir hádegistónleika í Eldborg einnig hafa gefist mjög vel, þar sem Nína Margrét Grímsdóttur hefur farið á kostum á píanóinu og ferðamenn fengið gott tækifæri til að njóta hljómburðarins í Eldborgarsalnum.

„Einnig eru hér ljósmyndasýningar sem ferðamenn og aðrir gestir hússins hafa notið. Suma daga eru fjórar sýningar í einu og mikið um að vera. Skoðunarferðir um húsið eru jafnframt mjög vinsælar. Við erum mjög ánægð með þessar undirtektir,“ segir Halldór. Eitthvað verður dregið úr framboði sýninga í vetur, en þar sem ferðamannatíminn nær nú yfir allt árið segir Halldór að áfram verði fjölbreytt dagskrá, jafnt fyrir ferðamenn sem aðra.

Söfnin sífellt vinsælli

Ferðamenn eru duglegir að sækja söfnin í Reykjavík, ekki hvað síst í miðborginni. Áslaug Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir aðsókn ferðamanna hafa færst í aukana, sérstaklega í Hafnarhúsinu. Þar séu rúm 70% gesta, sem greiða svonefndan einskiptisaðgang, erlendir ferðamenn. Einnig hefur gestum fjölgað á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Samanlagður fjöldi gesta á þessum þremur söfnum var ríflega 38 þúsund á síðasta ári, þar af tæplega 25 þúsund ferðamenn sem borguðu stakan aðgangsmiða, langflestir í Hafnarhúsinu, eða ríflega 20 þúsund. Til marks um fjölgunina greiddu um 16.300 ferðamenn stakan miða í Hafnarhúsinu árið 2014 og um 12.500 árið 2013.

„Traffíkin hérna er stöðug, sama hvernig viðrar, enda erum við í alfaraleið hér í Hafnarhúsinu,“ segir Áslaug en bendir á að miði sem keyptur sé á einu safni gildi á öðrum á vegum Listasafns Reykjavíkur.

Safnið hefur gefið út sérstakt kynningarefni fyrir ferðamenn en sýningar eru að öðru leyti ekki sérstaklega settar upp fyrir þá.

„Ef í ljós kemur að einhver sýning höfðar meira til erlendra ferðamanna reynum við að vekja meiri athygli á henni,“ segir Áslaug.

Listasafn Íslands hefur einnig fundið vel fyrir aukinni aðsókn í sín söfn, sem rakin er til fjölgunar ferðamanna. Miðað við tímabilið 1. maí í vor til 23. ágúst hefur gestum safnsins fjölgað um 26%. Fjölgunin á milli ára er minni ef farið er aftur til áramóta, en það skýrist aðallega af því að í sumar var safnið opið lengur, með því að bæta við opnun á mánudögum.

Anna María Urbancic, framkvæmdastjóri Listasafns Íslands, segir að á sumrin sé hlutfall erlendra gesta um 92% en á veturna fari það niður í 60%. Svipuð hlutföll sjást í aðsókn að söfnum Ásgríms Jónssonar og Sigurjóns Ólafssonar. Að sögn Önnu hefur gestum í þessum tveimur söfnum fjölgað um 50% síðan í vor. Þá var gestum boðið upp á að greiða einn aðgangseyri sem gilti í söfnin þrjú á vegum Listasafnsins.

Anna telur markaðssetningu á menningu landsins algjörlega vannýtt sóknarfæri í ferðaþjónustunni.

„Það snýst allt um að kynna náttúruna en söfnin, húsakostur þeirra og aðbúnaður sitja eftir. Þar er mikil vannýtt auðlind,“ segir hún.

Markaðssetningin erfið

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós, segir reyting af erlendum ferðamönnum hafa komið á sýningar í húsinu, nokkrar slíkar hafi verið sýndar í sumar í samstarfi við ýmsa leikhópa. Friðrik telur mörg tækifæri liggja á þessum markaði, sem menningarfélagið Tjarnarbíó muni halda áfram að sækja inn á, í samstarfi við aðra aðila, bæði innlenda og erlenda.

„Markaðssetningin er erfið, það er nokkuð sem við erum ennþá að læra og vonumst til að geta staðið okkur betur í. Við kunnum vel að markaðssetja fyrir Íslendinga, það hefur ekki verið vandamál,“ segir Friðrik, en fram að næsta vori eru fyrirhugaðar 14 nýjar frumsýningar í Tjarnarbíói. Inni á milli gætu komið sýningar sem ætlaðar eru ferðamönnum sérstaklega.

Vilja blanda geði

„Hvað get ég gert í borginni?“ er sú spurning sem brennur á vörum flestra ferðamanna sem koma í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í miðbæ Reykjavíkur. Karen María Jónsdóttir deildarstjóri segir mikið og gott framboð hafa verið af menningar- og listviðburðum í borginni undanfarin ár. Hins vegar sé aukið kynningarstarf meðal erlendra ferðamanna að skila sér í meiri aðsókn þeirra á viðburði margs konar. Þannig sé stóraukin aðsókn í flestum söfnum og tónlistarhátíðir á borð við Iceland Airwaves og Secret Solstice farnar að trekkja þúsundir ferðamanna til borgarinnar.

Á síðasta ári komu 1,3 milljónir ferðamanna til landsins og upplýsingamiðstöðin fékk til sín stóran hluta þeirra, um 500 þúsund manns.

„Ferðamenn sækja í viðburði til að geta upplifað stemninguna og mannlífið í borginni. Þeir sækja í alls konar viðburði, ekkert endilega í þá sem settir eru sérstaklega upp fyrir ferðamenn. Þeir vilja blanda geði við heimamenn,“ segir Karen María.

Hún segir nauðsynlegt að ferðaþjónustufyrirtæki og menningartengd starfsemi vinni meira saman.

„Það er mikil eftirspurn eftir afþreyingu í borginni, bara spurning hvernig við miðlum þessu áfram. Við erum enn að læra og mættum aðstoða hvert annað meira, bæði ferðaþjónustan og menningargeirinn,“ segir Karen María enn fremur.

„Algjörlega frábært sumar“

Hallgrímskirkja er áberandi kennileiti í miðborginni og þangað sækir fjöldi ferðamanna dag hvern. Listvinafélag Hallgrímskirkju hefur staðið fyrir tónleikum í kirkjunni í sumar, sem ferðamenn hafa verið duglegir að nýta sér.

„Þetta hefur verið algjörlega frábært sumar, og mjög margir erlendir ferðamenn. Þeir hafa alltaf verið í meirihluta tónleikagesta. Hingað í kirkjuna er straumur ferðamanna frá morgni til kvölds,“ segir Inga Rós Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Listvinafélagsins, en alls hafa að jafnaði 700 manns á viku sótt tónleika félagsins. Jafnan voru fernir tónleikar á viku og alls 40 tónleikar yfir sumarið. Þar af voru þrennir orgeltónleikar og Schola Cantorum hefur verið með tónleika á miðvikudögum. Síðustu sumartónleikar sönghópsins verða næsta miðvikudag.

Þetta er 24. sumarið sem félagið stendur fyrir tónleikaröð í Hallgrímskirkju. Inga Rós segir sífellt fleiri ferðamenn hafa sótt tónleikana og líkað vel. Einnig séu þeir duglegir að sækja messur í kirkjunni og skoða myndlistarsýningar.

„Kirkjan hefur mikið aðdráttarafl og hefur víða komist á lista yfir markverðustu byggingar heims. Ferðamenn vita af þessu og eru duglegir að heimsækja okkur. Allt kynningarefni okkar er einnig orðið á ensku,“ segir Inga Rós.

Fjölbreyttir tónleikar eru yfir veturinn í kirkjunni og hápunktar jafnan verið á aðventunni og páskum.

„Við erum hæstánægð með aðsóknina. Kirkjan er opin til níu á kvöldin yfir sumarið og allan daginn eru organistar að æfa sig. Ferðamenn koma þá inn og setjast til að hlusta. Það er stórkostleg upplifun að koma inn í kirkjuna og upplifa fallegan orgelleik og vera í þetta mikilli nánd við orgelleikarann. Þetta skapar ákveðna sérstöðu hjá okkur,“ segir Inga Rós.

Mjög vinsælt er að komast upp í Hallgrímskirkjuturn til að fá gott útsýni yfir borgina. Af þeim sökum er lyftan á látlausri ferð upp og niður. Listvinafélagið er með skrifstofu í turninum en Inga Rós segir þá aðstöðu ekki nýtast yfir sumarið sökum aðsóknar í lyftuna. „Við höfum orðið að skapa okkur aðra vinnuaðstöðu á meðan, en þetta er bara ákveðið lúxusvandamál,“ segir hún.

Faldir gimsteinar

Engar sérstakar sýningar eru haldnar í Iðnó fyrir erlenda ferðamenn en hins vegar hafa ferðaskrifstofur leigt salinn undir viðburði fyrir sína hópa. Margrét Rósa Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hússins, segir fyrirhugað að hafa tónlistarflutning á 3. hæðinni í vetur, m.a. fyrir ferðamenn, og næsta vor er ætlunin að setja upp sýningu á ensku sem fjallar um íslenskar konur. Þá stendur til að setja upp leiklistarsögusýningu í húsinu, en Iðnó er eitt elsta menningarhús landsins, með mikla og langa sögu.

„Markaðssetning fyrir ferðamenn tekur tíma og er kostnaðarsöm. Oft eru menn búnir að gefast upp þegar eitthvað fer síðan loksins að gera sig. Allir vilja fara í Hörpu og Bláa lónið og aðrir þurfa að hafa meira fyrir hlutunum í kynningarstarfi,“ segir Margrét.

Hannesarholt er „falinn gimsteinn“ eins og Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, forstöðumaður hússins, orðar það. Hún segir erlenda ferðamenn ekki koma þangað í hópum, enda sé húsið ekki alveg í hjarta miðborgarinnar. Einstaka ferðmenn komi og dásami staðinn að heimsókn lokinni, hvort sem það sé eftir tónleika eða snæðing. Ragnheiður segir viðburði ekki setta upp sérstaklega fyrir ferðamenn, enda sé Hannesarholt meira ætlað fyrir Íslendinga.

Maður er manns gaman

Auk þeirra menningarhúsa sem þegar hafa verið nefnd væri hægt að telja upp fjölmargt annað í lista- og menningarlífinu sem stendur erlendum ferðamönnum til boða. Má þar nefna leikhúsin, veitingahúsin, kirkjurnar, styttur bæjarins, margs konar söfn, kvikmyndasýningar í Bíó Paradís og tónleika á ýmsum öldurhúsum borgarinnar. Þannig hafa tónleikar á Kex hosteli verið mjög vinsælir meðal ferðamanna og annarra unnenda góðrar tónlistar.

Máltækið „maður er manns gaman“ gildir alls staðar, óháð þjóðerni þeirra sem koma saman til að skemmta sér og öðrum. Gangi spár eftir halda ferðamenn áfram að streyma til landsins næstu árin og viðskiptatækifæri eru óteljandi – einnig fyrir menningu og listir.