Arthur Morthens fæddist 27. janúar 1948. Hann lést 27. júlí 2016.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst 2016 en útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst 2016.

Hver manneskja er í stöðugri mótun á lífsferli sínum og geta áhrifavaldarnir verið ýmsir og ýmiss konar. Sumir einstaklingar sem verða á vegi hverrar manneskju um lengri eða skemmri tíma geta haft meiri og varanlegri áhrif til að móta hana sem einstakling og persónu en aðrir. Sumir koma og hverfa síðan fljótt aftur og hafa ekki afgerandi áhrif á lífssýn, viðhorf eða lífsstefnu einstaklingsins. Aðrir hafa varanlegri og djúpstæðari og ekki síst mannbætandi áhrif með hugmyndum sínum, viðhorfum, sýn, framkomu og gerðum. Jafnvel á óútskýranlegan hátt, eingöngu með nærveru sinni. Arthur Morthens var slíkur einstaklingur.

Þegar ég kom fyrst til starfa hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar í Miðbæjarskólanum í ágúst 2000 var Arthur Morthens forstöðumaður þjónustusviðs. Eitt af fyrstu verkefnunum sem ég tók þátt í var vinnuhópur sem fjallaði um skipulag og framtíð sérkennslu í grunnskólum í Reykjavík og stýrði Arthur störfum hópsins. Alla tíð síðan í þeim fjölmörgu verkefnum sem á eftir fylgdu hafði Arthur, sem fagmaður en þó fyrst og fremst sem manneskja, stöðug áhrif í samstarfi okkar með viðhorfum sínum og sýn á grundvallarþætti mannréttinda, lýðræðis og jafnréttis og með viðamikilli þekkingu sinni á sögu skólastarfs og sérkennslu á Íslandi.

Það eru forréttindi að fá tækifæri í lífinu til að vinna með einstaklingi sem veitir óheftan og óeigingjarnan aðgang að faglegri þekkingu sinni og reynslu. Að geta óhindrað velt upp krefjandi spurningum og haft aðgang að einstakri, faglegri og ígrundaðri samræðu. Að fá að sitja við fótskör meistarans. Þeirra forréttinda naut ég í störfum mínum með Arthuri Morthens.

Hrund Logadóttir.