Magnús Þorbergur Jóhannsson fæddist 4. september 1926. Hann lést 17. ágúst 2016.

Útför Magnúsar fór fram 26. ágúst 2016.

Elsku afi minn var góður maður.

Ég á óteljandi góðar minningar um hann sem ég varðveiti vel í hjarta mínu.

Afi gat hlustað, hann var rólegur og brosmildur og var alltaf til í að keyra mig út um allt eða hjálpa mér ef mig vantaði eitthvað.

Maður lét sig alveg hafa það að sitja í bíl með afa á 40 kílómetra hraða á Kringlumýrarbrautinni, það var fljótlegra en að taka strætó.

Afi sagði okkur líka sögur, og er ein sérstaklega eftirminnileg sem hann sagði okkur Styrkári, en hún var um það hvernig hann fékk skalla. Í stuttu máli sagt féll járnfata beint ofan á hausinn á honum þegar hann var úti á sjó og fékk hann skalla eftir botninn á fötunni.

Þessi skalli geymir óteljandi kossa frá mér, en ég kyssti alltaf á honum skallann.

Hann raulaði mikið og hummaði lög, líka þegar hann reykti pípuna sína. Ég sé hann fyrir mér þjappa tóbakinu ofan í pípuna með silfurlitaða kveikjaranum sínum.

Mér fannst alltaf jafn skrítið að hann skyldi ekki brenna sig.

Afi var mikið hjá okkur og við mikið hjá honum. Hann hafði ótrúlega þolinmæði gagnvart okkur og hefur tvisvar á allri minni ævi hálfskammað mig. Í annað skiptið setti ég álpappír í örbylgjuofninn og kveikti næstum því í eldhúsinu heima í Höfðagötu. Viðbrögðin hjá afa voru snögg, honum brá, skammaði mig pínu og tók svo utan um mig. Í hitt skiptið ákvað ég að þrífa allt heima hjá honum, þá um 10 ára, ég endaði þrifin á að þrífa pípuna hans vel og vandlega. Afi var ekki sérstaklega glaður með þau þrif en bað mig afsökunar á því að hafa hvæst á mig um leið og hann var búinn að því og sagði mér hvað ég væri rosalega dugleg – bara aðeins of dugleg í þetta skiptið. Hann gat ekki horft á mig leiða.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið öll þessi ár með afa. Ég þakka fyrir að hann hafi fengið að hitta öll börnin mín og að þau hafi fengið að hitta hann.

Núna er afi kominn á betri stað. Það er sárt að kveðja en það hlýjar mér í hjartanu að hugsa um að núna sé hann kominn til ömmu.

Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Þín

Katrín Magnea.