65 ára Auður Styrkársdóttir.
65 ára Auður Styrkársdóttir.
Auður Styrkársdóttir er að ljúka störfum sem forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands eftir að hafa verið fimmtán ár þar í forsvari. Í fyrra var haldið upp á stór tímamót í sögu kvenna en þá voru liðin 100 ár frá því að þær fengu kosningarétt.

Auður Styrkársdóttir er að ljúka störfum sem forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands eftir að hafa verið fimmtán ár þar í forsvari. Í fyrra var haldið upp á stór tímamót í sögu kvenna en þá voru liðin 100 ár frá því að þær fengu kosningarétt.

„Ég var formaður afmælisnefndar og bæði skipulagningin af hálfu nefndarinnar og að veita upplýsingar fyrir hönd safnsins var mjög umfangsmikið þetta ár, sem betur fer, og það var bara mjög gleðilegt.

Ég er nú ung ennþá en ákvað að hætta í vinnunni þegar heilsan og geðið væru enn í góðu lagi og snúa mér að mínu eigin lífi. Það er aðallega þrennt sem ég ætla að gera. Í fyrsta lagi að lesa bækur. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur og hef alltaf séð mjög eftir að fara frá bókunum mínum til vinnu og nú ætla ég að lesa rosalega.

Í öðru lagi er ég búin að skrá mig í nám í ritlist við Háskóla Íslands. Ég hef verið skrifandi alla ævi, mest þó fræðilegs eðlis, en það er alltaf hægt að bæta sig og hver veit nema ég snúi mér að annars konar skrifum. Allavega hlakka ég mikið til námsins.

Í þriðja lagi ætla ég að leggja meiri rækt við gítarinn minn. Ég hef verið í óformlegu gítarnámi undir mjög góðri handleiðslu Hannesar Þ. Guðrúnarsonar og hann er svo elskulegur að vilja hafa mig áfram. Ég lærði sem ung manneskja á gítar en lagði hann síðan á hilluna. En fyrir nokkrum árum rakst ég á hann í geymslunni og það kviknaði löngun að prófa aftur. Þetta er sem sagt klassíkur gítarleikur, ekki eitthvert gutl, heldur alvörustöff!“

Eiginmaður Auðar er Svanur Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands. „Við eigum þrjú börn saman, Kára, Halldór og Herdísi og svo er ég svo lánsöm að vera líka stjúpmóðir Heiðars Inga.“