Fjallafólk Halla Jónsdóttir lengt t.v. og Steinunn Lilja Torfadóttir dóttir hennar, og svo skálaverðirnir Ingólfur Árnason, Eyrún Ósk Stefánsdóttir, og Anders Rafn Sigþórsson. Myndin er tekin í Emstrum.
Fjallafólk Halla Jónsdóttir lengt t.v. og Steinunn Lilja Torfadóttir dóttir hennar, og svo skálaverðirnir Ingólfur Árnason, Eyrún Ósk Stefánsdóttir, og Anders Rafn Sigþórsson. Myndin er tekin í Emstrum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Mér fannst skemmtilegt nú í sumar að fara á fætur á morgnana eftir rigningarnætur og sjá þá þann tæra svip sem landið hafði fengið þá um nóttina, jafnvel talsvert annan en kvöldið áður.

„Mér fannst skemmtilegt nú í sumar að fara á fætur á morgnana eftir rigningarnætur og sjá þá þann tæra svip sem landið hafði fengið þá um nóttina, jafnvel talsvert annan en kvöldið áður. Að Fjallabaki er einstök eldfjallanáttúra sem er í sífelldri mótun,“ segir Halla Jónsdóttir, sem stóð vaktina í skála Ferðafélags Íslands í Emstrum nokkra daga nú í ágúst.

Halla þekkir Fjallabakssvæðið vel eftir að hafa stundað gönguferðir og útivist í mörg ár. „Margir staðir á Laugaveginum eru fallegir og útsýnið einstakt, til dæmis þegar komið er úr Hrafntinnuskeri um Jökul-tungu niður að Álftavatni. Þar sést langt til suðurs og fremst er Illasúla. Raunar má taka Laugaveginn eftir ýmsum leiðum og útúrdúrum eins og færist í vöxt,“ segir Halla.

„Nei, ég varð ekki vör við neitt óvenjulegt á sveimi í Esmstrum. Hins vegar hefur draugagangur viljað loða við Fjallabak. Skálinn í Hattfellsgili hefur sérstaklega verið nefndur í því sambandi. Einnig get ég vitnað í vinkonu mína sem sá – svo enginn vafi lék á – mann af öðrum heimi við Strútslaug á Mælifellssandi en einmitt þar í kring bregður ýmsu fyrir sem ekki er hægt að útskýra.“