Anny Irene Þorvaldsson fæddist í Fredrikshavn í Danmörku 6. ágúst 1934. Hún lést á heimili sínu í Kaupmannahöfn 27. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Christian Christensen og Sørine Louise Christensen. Þau eru bæði látin. Börn þeirra voru 12 og eru tvö enn á lífi, þau Jonna og Ole.

Anny giftist Vilhjálmi Þorvaldssyni, f. 5. júní 1932, d. 28. júní 1976. Eignuðust þau fimm börn, þau eru: 1) Pála Anna Lisa, f. 19. janúar 1956, eiginmaður hennar er Hilmar Sveinsson, f. 4. júlí 1955, og eiga þau einn son. 2) Hildur Kristin, f. 25. maí 1957, á hún tvö börn úr fyrra hjónabandi og þrjú barnabörn, eiginmaður hennar er Bjarne Kaare Larsen, f. 17. maí 1961. 3) Bylgja Ýr, f. 14. janúar 1959, eiginmaður hennar er Ramo Tas, f. 6. maí 1955. 4) Lárus, f. 11. október 1960, eiginkona hans er Vigdís Helgadóttir, f. 18. júlí 1962, eiga þau fjögur börn og tíu barnabörn. 5) Sørine Louise, f. 27. maí 1975, eiginmaður hennar er Þorgeir Snorrason, f. 13 janúar 1975, og eiga þau þrjú börn.

Anny flutti ung til Stykkishólms og bjó þar með manni sínum Vilhjálmi þar til hann dó. Hún vann mikið og hélt áfram að byggja hús þeirra á Laufásvegi 4 sem þau voru byrjuð á og kláraði hún það eftir að Villi féll frá. Anny var mikil fjölskyldukona og hélt oft miklar veislur, síðast 70 manna veislu viku áður en hún dó.

Útför Annyjar fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 27. ágúst 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma mín, núna ertu farin frá okkur. Ég er viss um að margir hafa beðið þín, pabbi okkar, systkini þín og fullt af vinum og ættingjum.

Ætli þau hafi ekki tekið á móti þér með gleði og veislu. Þú varst allavega alltaf viss um að þau væru að bíða eftir þér og þess vegna varst þú aldrei hrædd.

Eftir stöndum við hér og söknuðurinn er mikill, að hafa þig ekki hjá okkur ennþá.

Þú hefur alltaf verið fyrirmynd mín. Þú hefur sýnt mér réttu leiðina í lífinu og ég er svo þakklát fyrir það.

Ef ég ætti að lýsa þér myndi ég segja: hreinskilin, falleg, smart, kvenleg, elskuleg, hress, sportleg, hjálpsöm, sterk. Listinn er langur og ég gæti haldið endalaust áfram. Þú varst alveg spes, og ég þekki engan sem fannst þú ekki vera einstök kona, og ég var svo heppin að eiga þig sem móður.

Þrátt fyrir að þú hafir verið mjög veik varstu svo sterk, þú treystir á sjálfa þig og þær ákvarðanir sem þú tókst í lífinu, og þú gerðir það með kærleika. Þú valdir að njóta lífsins lifandi.

Við fórum til Austurríkis, en þangað hafði þig lengi langað að fara.

Þar var sungið, dansað við Sound of Music og hlegið mikið. Þessi ferð er ógleymanleg.

Þetta sumar hefur verið mikil sorg í hjarta okkar, því við vissum að við værum að fara að missa þig, en það voru líka margar skemmtilegar og yndislegar stundir, sem við getum minnst í dag. Stundir sem koma ekki aftur en ég mun geyma í hjarta mínu og ég er svo þakklát fyrir hverja einustu stund sem ég hef átt með þér.

Nóttin sem þú fórst frá okkur var ein sorglegasta stund í lífi mínu, en líka ein sú fallegasta, því á sama augnabliki og þú fékkst englavængina þína, reis sólin upp á himni og lýsti á okkur öll og við vissum að núna hefðir þú fengið frið.

Núna ertu orðin stjarna á næturhimni okkar, sú fallegasta af þeim öllum. Ég mun elska þig að eilífu og mun aldrei gleyma þér.

Farðu vel með þig, þar til við hittumst á ný.

Ástarkveðja, þín dóttir

Sørine.

Elsku amma.

Mikið rosalega sakna ég þín mikið og finnst mér erfitt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Það var mjög erfitt að heyra um veikindin þín um páskana og það var mjög erfitt að vera svona langt frá þér seinustu dagana. En ég er endalaust ánægð með að hafa komið til Köben í janúar í afmælið hennar Pálu og þar áttum við margar góðar stundir eins og alltaf þegar við hittumst, ég á vídeó af þér að dansa og þá varst þú svo hress og ekki grunaði mann að eftir nokkra mánuði yrðir þú farin frá okkur. Ég á eftir að horfa á þetta vídeó og hugsa til þín og hlæja því það myndir þú vilja. Það var rosalega erfitt að koma til þín í júní og vita að þetta yrði síðasta skiptið sem við myndum hittast og ég er endalaust þakklát fyrir þær stundir. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín í Köben og tala nú ekki um góðu kringlurnar og bollurnar sem þú bakaðir. Það var mjög skrítið að koma í íbúðina þína í júlí og engin amma að taka á móti manni, það var erfitt. En ég er svo þakklát og ánægð með allar stundirnar sem við áttum saman og fyrir allar prjónapeysurnar sem þú hefur gefið strákunum mínum og mun ég geyma þær eins og gull og það verður skrítið að fá engar peysur frá Anný ömmu og geta ekki þefað af þeim því alltaf var svo góð lyktin af þeim.

Elsku amma, ég get skrifað endalaust en ætla að láta þetta nægja og þakka þér fyrir allt og veit að þú ert komin á betri stað. Ég mun alltaf hugsa til þín og á ég eftir að segja strákunum mínum sögur af þér dansandi uppi á borðum og hvað þú varst alltaf hress, mikið partídýr, yndisleg og besta amma í heimi.

Ég er ánægð að hafa fengið að vera nafna þín. Þín nafna,

Anný María og fjölskylda.

Í dag kveðjum við frá Stykkishólmskirkju Anny Irena Þorvaldsson, eða Anný hans Villa, eins og hún var ávallt kölluð. Anný andaðist 6. ágúst síðastliðinn eftir nokkurra vikna snörp veikindi, baráttu við krabbamein sem að lokum hafði yfirhöndina.

Vilhjálmur Þorvaldsson móðurbróðir okkar kynntist eiginkonu sinni 1954, þegar hann ásamt fleiri Hólmurum sótti tvo báta til Danmerkur, fyrir frystihús Sigurðar Ágústssonar.

Þarna féll hamingjan Villa í skaut, Anný kom óhrædd til Íslands með fiskibátnum. Elskulegi frændi okkar, hann Villi kom með unnustu sína Anný til systur sinnar Sæmu og þar voru þau um tíma uns þau fengu leigt herbergi í Hólminum.

Ég þá annað barn foreldra minna, var heilluð af kátum og glaðlegum bræðrum mömmu þeim Jenna og Villa og þeir voru daglegir gestir hjá Sæmu systur sinni og Palla mági.

Hvað krakkinn var endalaust hrifinn af þessum frændum sínum, ekki var það verra þegar þeir bræður fundu sín konuefni, Hrefnu og Anný.

Nú var skokkað á milli heimila, þar sem bræðurnir bjuggu, danska lærð alveg þokkalega og fylgst með fjölskyldum þeirra.

Börn þeirra fæddust fimm hjá öðrum, en sex hjá hinum, nóg að gera alls staðar.

Hjá Anný og Villa stóð hamingjan í aðeins í 22 ár, þá höfðu þau bæði búið hér heima og í Danmörku.

Árið 1976 féll Villi frændi snögglega frá. Þá varð ekkjan Anný að standa sig, sem hún gerði svo sannarlega. Börnum sínum kom hún til manns, dætrunum fjórum og einkasyni þeirra. Öll mannvænleg börn sem öll hafa staðið sig afburðavel í lífinu og fjölgað ættinni, hér á landi og líka í Danmörku.

Anný sýndi okkur ættingjum sínum hér heim, einstaka elsku og alúð þegar hún að lokum settist að í föðurlandi sínu ásamt dætrunum fjórum, þá urðu ferðir okkar tíðari til Danmerkur. En sonur þeirra býr á Íslandi, landi sem Anný elskaði.

Hún var ávallt trú og trygg landinu sem hún tengdist svo sterkum böndum. Á 75 ára og 80 ára afmælum Annýjar, fögnuðum við með henni og stórfjölskyldu hennar, í veislum sem við aldrei munum gleyma.

Að leiðarlokum og á kveðjustundu, þökkum við okkar kæru Anný vináttu, elsku og tryggð, sem hún sýndi íslensku fjölskyldunni sinni. Vonum að við höfum sýnt þér kærleika til baka, sem þú áttir svo sannarlega skilið.

Börnum þínum vottum við innilega samúð, vitum að þau sýndu þér elsku og ást til hinstu stundar.

Hvíl í friði, okkar kæra, hjá ástvini þínum honum Villa.

Sesselja Pálsdóttir

og fjölskylda.

Það streyma fram margar minningar nú þegar við kveðjum elsku Anný, og ég er víst ekki ein um það, svo margir hafa notið gestrisni hennar og góðmennsku í kóngsins Kaupmannahöfn. Alltaf stóðu dyrnar opnar hjá Anný fyrir Íslendinga og alla ættingja.

Anný fylgdi unnusta sínum yfir hafið árið 1954 á litlum fiskibát til Íslands aðeins tuttugu ára gömul. Ég var þá tólf ára og mér fannst þetta vera fallegt ástarævintýri, og hún ótrúlega dugleg að yfirgefa allt sitt fólk – já fyrir ástina.

Eftir að eiginmaðurinn, Vilhjálmur Þorvaldsson, móðurbróður minn, lést um aldur fram lá leiðin aftur til Danmerkur en Anný tók ástfóstri við Ísland og hér vildi hún hafa sína hinstu hvílu við hliðina á Villa sínum. Stundin hér í dag í Stykkishólmskirkju innsiglar tryggð Annýjar. Fjölskyldan var henni allt. Ég votta ykkur samúð, kæra frændfólk, og bið ykkur um að halda vel utan um hvert annað eins og Anný gerði. Blessuð sé minning um góða og trygga konu.

Þórhildur Pálsdóttir,

Stykkishólmi.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besta amma í heimi, þú varst alltaf til staðar fyrir okkur á hverjum degi. Við elskum þig, og söknum þín á hverjum degi, þú komst alltaf í heimsókn, og núna er svo skrítið að þú ert ekki lengur hér. Þú varst frábær amma og gullfalleg kona, við munum alltaf muna eftir þér og í hvert skipti við horfum upp til himna, munum við hugsa til þín. Þú ert best. Anny amma, hvíldu í friði engill.

Snorri Jónas, Frida Liv og Lykke Björg.