Í fjöllum nærri Rangárbotnum hefur mosi náð að festa rætur í skriðum og skorningum fjalla. Þegar skúrir eða rigning ganga yfir sprettur þarna fram litasinfónínía með fallegum tónum.
Í fjöllum nærri Rangárbotnum hefur mosi náð að festa rætur í skriðum og skorningum fjalla. Þegar skúrir eða rigning ganga yfir sprettur þarna fram litasinfónínía með fallegum tónum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
þjóðvegurinn Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Syðra-Fjallabak heitir einu nafni leiðin sem hér greinir frá. Ekið er inn á hálendisveginn við Keldur á Rangárvöllum og þar svo farið norður á bóginn um lítt gróið land.

þjóðvegurinn

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Syðra-Fjallabak heitir einu nafni leiðin sem hér greinir frá. Ekið er inn á hálendisveginn við Keldur á Rangárvöllum og þar svo farið norður á bóginn um lítt gróið land. Þetta er 90 kílómetra hringleið, norður fyrir Tindfjöll þar sem komið er niður í Fljótshlíðina. En byrjum við Keldur, en þar skammt ofan byggðar er Skógshraun, en örnefnið vitnar um að forðum tíð hafi þetta svæði verið viði vaxið. Nærtækt er að ætla að skógarnir hafi eyðst í eld gosum Heklu, sem hér blasir við í vestri. Foldgná og falleg á góðum degi.

Ekið í árfarvegi

Vegurinn inn á Fjallabak liggur um ása og hryggi – og gjarnan við hlíðar lágreista fjalla. Staðarheitin hér eru sum mjög eftirtektarverð. Á landakorti má sjá Hafrafell, Grasleysufjöll, Hrauntind, Skyggnishlíðar og -vatn, Launfitjarsand og Ljósá. Einnig Laufafell og sunnan þess er Hagafell. Milli þessara tveggja fjalla er Hagafellskvísl, en þar á kafla liggur Fjallabaksleiðin eftir árfarvegi. Á stöku stað er reyndar hægt að aka eftir árbakkanum en oftar þó eftir miðri streymandi ánni svo allrar aðgæslu er þörf.

Þegar blaðamaður var á þessum slóðum var sumri farið að halla og það gekk á með skúrum. Við slíkar andstæður fær landið nýjan svip. Liturinn á grænum mosanum, sem teygir sig upp eftir hlíðum fella og ása, verður sterkur og skær. Útkoman er eins og ljósmynd unnin í photoshop og jafnvel mætti leggja þetta að jöfnu við málverk eftir Tolla Morthens eða verk eftir Erró: klippimynd í kaosstíl.

Fjórir Ferðafélagsskálar

Eftir akstur um torfærurnar, um 50 kílómetra leið frá Keldum, er komið að Álftavatni. Í þessu umhverfi eru áberandi Stóra-Grænafell og Illasúla, sem í logninu speglaði sig í fallegu heiðarvatninu sem er í dal milli hárra fjalla. Norðan við vatnið standa reisulegar skálabyggingar Ferðafélags Íslands og þangað lá leið gönguhrólfa á Laugaveginum sem við sáum koma fram Jökultungur eftir göngu dagsins úr Landmannalaugum eða Hrafntinnuskeri.

Laugavegsfarar eru að stærstum hluta útlendingar, en eftir umfjöllun til dæmis í National Geographic hefur þessi leið komist á kort heimsvísunnar. Á góðum degi í sumar hafa um 200 manns á dag farið um þessa leið og er þá gist í Ferðafélagsskálunum fjórum sem þarna eru. Frá Álftavatni og fram í Fljótshlíð eru rúmir 40 kílómetrar.

Jökulbland í blávatni

Örstutt er milli Álftavatns- og Hvanngilsskála en algengt er að Laugavegsfólk gisti í öðrum hvorum þeirra skála og næstu nótt í Emstrum og þrammi svo suður í Þórsmörk. Raunar hefur hver sinn háttinn á: margir ganga Laugaveginn á tveimur dögum eða jafnvel hlaupa á einum. Mikilvægt er þá að hafa hindranirnar í huga. Rétt sunnan við Hvanngil þurfa göngmenn að vaða yfir Bláfjallakvísl sem er, eins og nafnið ber með sér, tær bergvatnsá. Í sumar hefur jökulvatn runnið í ána svo svipurinn er annar en venjulega og hún vatnsmeiri en í annan tíma. Hér er einnig Kaldaklofskvísl. Göngubrú þar, sem Ferðafélag Íslands lét reisa, tekur tálma af.

Rétt sunnan við þessar ár er ekið inn á leiðina um Mælifellssand, sem er hluti af Syðri-Fjallbaksleið sem liggur alla leið í Skaftártungur. Við ætlum hins vegar fram Emstrur og tökum mið af Hattfelli sem rís í suðri. Nokkru framan við fellið háa er Emstruskáli Ferðafélags Íslands, lágreist þyrping bygginga sem eru á þrepum í hárri, brattri brekku. Í kvos neðan þeirra eru tjaldsvæði í lækjarbakka í hvannstóði og er þetta virkilega skemmtilegur og áhugaverður staður.

Virkjunarkostir í verndarflokki

Markarfljótsgljúfur, dimm og djúp, eru rétt sunnan og vestan við Hattfell. Ofan gljúfranna er brú á fljótinu sem sprænur, lækir, kvíslar sem hér færa Markarfljót úr millistærð í eitt af mestu vatnsföllum landsins. Í þessu landslagi eru mikil fallvötn og hér mætti ábyggilega reisa virkjanir; aflmiklar og aðrbærar. Skissur að slíkum orkuverum eru til en ýmsu yrði þó að kosta til og fórna, svo sem að útbúa í þessu viðkvæma umhverfi uppistöðulón sem yrði tugir ferkílómetrar að flatarmáli. Því er skiljanlegt að í rammaáætlun um orkunýtingu skuli þessir virkjunarkostir vera í verndarflokki.

Þegar hér er komið sögu nálgumst við byggð. Hvítur skalli Mýrdalsjökuls er á vinstri hönd en beint fyrir framan okkur Einhyrningur, tilkomumikið fjall sem dregur nafn sitt af sérstæðu horni í norðri. Einhyrningur sést víða frá svo sem úr Þórsmörk og þar blasa líka við Tindfjöll, hinir sunnlensku alpar. Slóði að þeim fjallageim er við Fljótsdal, innsta bæ í Fljótshlíð og þar endar hringferð okkar. Við erum komin í mark eftir skemmtilega dagsferð á Fjallabaki - og höfum tekið stóra lykkju norður fyrir Tindfjöll um stórbrotið umhverfi og litríkt land í meira lagi.