Hverfisgata 2014 Fyrir tveimur árum, þegar búið var að rífa nokkur hús við Hverfisgötu, var götumyndin svona frá danska sendiráðinu áður en nýtt hótel tók að rísa hröðum skrefum.
Hverfisgata 2014 Fyrir tveimur árum, þegar búið var að rífa nokkur hús við Hverfisgötu, var götumyndin svona frá danska sendiráðinu áður en nýtt hótel tók að rísa hröðum skrefum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Ég hef alltaf haft gaman af því að taka ljósmyndir og grúska í gömlum myndum. Það getur verið gaman að ferðast aftur í fortíðina,“ segir Karl G.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Ég hef alltaf haft gaman af því að taka ljósmyndir og grúska í gömlum myndum. Það getur verið gaman að ferðast aftur í fortíðina,“ segir Karl G. Smith, sem kominn er á eftirlaun eftir að hafa starfa í Seðlabankanum í 56 ár. Karl ólst upp í Reykjavík en býr nú í Kópavogi.

Hann bjó lengi á Skólavörðuholtinu á sínum yngri árum og segist eiga margar góðar og skemmtilegar minningar frá uppvextinum þar. Árið 1969 fékk hann góða myndavél og hélt þá áfram að taka fjölda mynda af mannlífinu og húsum borgarinnar. Eftir að hann hætti störfum í bankanum hefur meiri tími gefist til að skoða myndasafnið og rifja upp eldri tíð. Segist Karl hafa gert töluvert af því að setja gamlar myndir m.a. inn á ljósmyndavef á Facebook, og þær hafi vakið talsverða athygli. Þá hefur hann einnig teiknað eftir gömlum ljósmyndum.

Stundum tekur hann upp gamla ljósmynd úr safninu og fer með hana á vettvang til að ná nýrri mynd frá sama sjónarhorni, 40-50 árum síðar. Þetta hefur hann m.a. gert á Frakkastíg og Hverfisgötu en götumyndin þar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum.

„Ég sakna gamla tímans en borgin þróast og það er ekki alltaf hægt að standa í vegi fyrir breytingum,“ segir Karl en viðurkennir að turnarnir við Skúlagötu séu ekki fallegir. Þeir skerði að auki útsýnið af Skólavörðuholtinu út á sundin blá.

„Þetta eru sviplaus glerhýsi hlið við hlið. Eitthvað varð þó að gera við svæðið. Götumyndin var ekki falleg áður, þarna blöstu við kofar og braggar á Sláturfélagsreitnum. Kannski er þetta bara eðlileg þróun,“ segir hann um breytingarnar á Skúlagötu.

Karl er jákvæðari gagnvart breytingum á Hverfisgötunni, þær hafi verið til mikilla bóta.