Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum skipar alltaf ákveðinn sess. Þá fór ég á minn fyrsta leik. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum þá fylgdist ég með þeim leik í nákvæmlega tvær mínútur áður en athyglin var búin. Vallarstæðið þar er líka ótrúlega fallegt en í góðu veðri er fátt betra en fótboltaleikur í Eyjunni grænu.
Ferð á leik hjá Lokomotiv Moskvu og Spartak Mosvku var einnig eftirminnileg. Ekki ríkja miklir kærleikar á milli liðanna en gera þurfti tíu mínútna hlé á leiknum eftir að mark var skorað. Ástæðan: Stuðningsmenn Lokomotiv kveiktu í svo mörgum blysum og flugeldum að það sást ekkert inn á völlinn.
Leikur Tottenham og Bolton fyrir tíu árum var frábær. Ungur og efnilegur leikmaður að nafni Aaron Lennon sló í gegn og ég hélt að hann yrði næsta stjarna. Bara ef hann hefði lært að sparka í bolta.
„Þyrluleikurinn“ árið 2002 þegar KR vann Þór, 5:0, í lokaumferð Íslandsmótsins var frábær stund sem óþarfi er að rifja nánar upp.
Besta minningin er frá Hreiðrinu í Nice. Þar vann Ísland England í sumar, eins og allir vita. Ég hef á tilfinningunni að sá leikur verði aldrei toppaður.