Snillingur Marta var m.a. valin besti leikmaður heims árin 2006-2010 og næstbest 2011, 2012, 2014.
Snillingur Marta var m.a. valin besti leikmaður heims árin 2006-2010 og næstbest 2011, 2012, 2014. — AFP
Stjörnum prýtt lið Rosengård, með hina brasilísku Mörtu fremsta í flokki, mætir til landsins snemma í október til að leika við Íslandsmeistara Breiðabliks í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Stjörnum prýtt lið Rosengård, með hina brasilísku Mörtu fremsta í flokki, mætir til landsins snemma í október til að leika við Íslandsmeistara Breiðabliks í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Dregið var til 32-liða úrslita í gær og lýsa sænskir miðlar á borð við Expressen niðurstöðunni sem „draumadrætti“ fyrir sænsku meistarana, enda var Breiðablik lægst á styrkleikalista fyrir dráttinn.

Sara Björk Gunnarsdóttir er nýbúin að yfirgefa Rosengård en í liðinu er eftir sem áður fjöldi frábærra leikmanna. Nægir þar að nefna Mörtu og markamaskínuna Lottu Schelin, sem er nýkomin frá Evrópumeisturum Lyon í Frakklandi og fór í úrslitaleik Ólympíuleikanna með sænska landsliðinu. Varnarmaðurinn Emma Berglund var sömuleiðis í silfurliðinu í Ríó. Einnig má nefna leikmenn eins og hollensku landsliðskonuna Lieke Martens og hina bandarísku Ellu Masar sem skorað hefur 10 mörk í 13 leikjum það sem af er leiktíðinni. Markadrottning sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra, Gaëlle Enganamouit, er svo óðum að jafna sig eftir krossbandaslit. Þá má geta þess að íslenska U19-landsliðskonan Andrea Thorisson er á mála hjá Rosengård, en hún hefur leikið 1 deildarleik fyrir félagið.

Sara Björk og félagar í Wolfsburg mæta Chelsea frá Englandi í 32-liða úrslitunum. Eskilstuna, með Glódísi Perlu Viggósdóttur innanborðs, mætir Glasgow City frá Skotlandi. Evrópumeistarar Lyon mæta Hólmfríði Magnúsdóttur, Þórunni Helgu Jónsdóttur og stöllum í Avaldsnes frá Noregi. Leikið er 5. eða 6. og 12. eða 13. október. sindris@mbl.is