Í Laugardalnum Sigurgeir Guðmannsson og Sveinn Jónsson.
Í Laugardalnum Sigurgeir Guðmannsson og Sveinn Jónsson. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fyrir um 50 árum fóru nokkrir Íslendingar til Englands til þess að fylgjast með úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrir um 50 árum fóru nokkrir Íslendingar til Englands til þess að fylgjast með úrslitakeppni heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. Sigurgeir Guðmannsson og Sveinn Jónsson voru allan tímann og sáu 12 leiki, þar á meðal opnunar- og úrslitaleikinn.

Næsta undankeppni HM hefst á mánudag og þá sækir Ísland Úkraínu heim. Ísland var ekki með á HM 1966 og ekki var hægt að sjá leikina í beinni útsendingu í sjónvarpi hérlendis. „Ég var að hætta að spila með KR og því fannst mér upplagt að við Sigurgeir færum saman til Englands,“ segir Sveinn. „Þá var ekkert mál að fá miða á besta stað, við fengum miða á ákveðna leiki hjá KSÍ og keyptum svo miða á aðra leiki eftir þörfum.“

Óku 6.500 km

Sigurgeir segir að ekki hafi verið algengt að Íslendingar færu á stórmót á þessum árum. „England kveikti samt í nokkrum og til dæmis fór hópur frá Fram á hluta keppninnar,“ rifjar hann upp.

Félagarnir voru á fyrsta leik á Wembley, leigðu sér bíl og ferðuðust síðan vítt og breitt um England til þess að sjá sem flest lið leika áður en þeir fóru á úrslitaleikinn þremur vikum síðar. „Við keyrðum 6.500 km og sáum 12 leiki en þess á milli skoðuðum við þekkta sögustaði eins og til dæmis hallir og kastala, þar á meðal Blenheim-höll í Oxfordshire, fæðingarstað Churchills,“ segir Sigurgeir.

Á leiðinni til Liverpool óku þeir í gegnum Wales. Þeir sáu þeir skilti sem vísaði á foss og þar sem þetta var menningar- og fræðsluferð tóku þeir á sig krók til að sjá fossinn. „Aðgangseyririnn var tveir og hálfur skildingur,“ segir Sigurgeir og Sveinn skellir upp úr. „Þetta voru bara flúðir,“ segir hann og bætir við að merkilegra hafi verið að sjá rómverska vegginn eftir leik Ítalíu og Rússlands í Sunderland. „Það var aumasti leikurinn sem við sáum,“ segir Sigurgeir. „Skemmtilegasti leikurinn var Ungverjaland-Brasilía á Goodison Park uppi í Liverpool. Ungverjinn Florian Albert átti yfirburðaleik í 3:1 sigri, ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Sveinn.

Þeir náðu í Hörð Óskarsson og Guðmund Sigtryggsson, mág hans, á flugvöllinn í Liverpool. Þar voru þeir beðnir um að taka einn farþega með sér á Goodison. Sigurgeir segir að maðurinn hafi komið sér kunnuglega fyrir sjónir og í ljós hafi komið að þar fór Ragnar Larsen, landsliðsþjálfari Noregs, sem hann hafði hitt þegar hann lék með Vålerenga á Íslandi 1951. „Heimurinn er stundum lítill,“ segir Sigurgeir.

Sveinn segir að þetta hafi verið mikil ævintýraferð og Sigurgeir, sem hafi verið vanur að ferðast, hafi sýnt þeim marga merkilega staði. „Hann keyrði, ég var á kortinu og þetta var mikil upplifun.“

Ferðin skildi það mikið eftir sig að þeir hafa ekki farið á stórmót síðan. „Það er miklu betra að sitja heima í stofu og horfa á leikina beint í sjónvarpinu,“ segir Sigurgeir, sem fer samt reglulega á KR-leiki og valda landsleiki. „Þetta var sérlega gaman og nóg fyrir lífstíð,“ segir Sveinn. Leggur samt áherslu á að hann hafi oft farið á völlinn erlendis síðan en þá bara á einn leik í ferð. „Í úrslitaleiknum 1966 sá ég að umdeilt þriðja mark Englendinga, sem Geoff Hurst skoraði í framlengingunni, var löglegt, boltinn var inni allan tímann, sláin inn,“ segir Sveinn.