Sigurbjörn Þórisson fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1992. Hann lést á heimili sínu 21. ágúst 2016.

Foreldrar hans eru Þórir Rafn Halldórsson, f. 17. júní 1956, og Sigurbjörg Sigurbjörnsdóttir, f. 8. mars 1964. Systkini Sigurbjörns eru: Tinna Þórisdóttir, f. 27. júní 1990, unnusti Vilhjálmur Þorsteinsson, f. 6. ágúst 1982, og Þórir Rafn Þórisson, f. 23. maí 2001. Áður átti Þórir dæturnar Svövu Kristínu Þórisdóttur, f. 19. maí 1974, maki Hjörvar Sæberg Högnason, f. 12. desember 1974, börn þeirra eru Högni Sæberg, Sandra Rós og Hilmir Örn, og Evu Sólveigu Þórisdóttur, f. 13. september 1984, maki Jónas Einar Thorlacius, f. 20. júlí 1978, börn þeirra eru Sigurrós Thalia og Guðný Kolfinna. Unnusta Sigurbjörns er Margrét Ósk Brynjólfsdóttir, f. 20. september 1990.

Sigurbjörn ólst upp í Fossvoginum, gekk í Fossvogsskóla, Réttarholtsskóla og fór síðan í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Síðustu ár vann Sigurbjörn í fyrirtæki fjölskyldunnar.

Útför Sigurbjörns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 2. september 2016, og hefst athöfnin kl. 15.

Fyrir 23 árum fæddist yndislega fallegt barn, sem var minn fyrsti drengur, en fyrir átti ég þrjár fallegar stúlkur. Stoltari föður var ekki hægt að finna. Drengurinn okkar var dökkur á brún og brá með skínandi blá augu sem dáleiddu mann.

Það er erfitt að skrifa þessi kveðjuorð til þín, elsku Bjössi minn, þú varst svo duglegur, hjartahlýr og hjálplegur en líka dulur, nærgætinn, næmur og viðkvæmur.

Þú dýrkaðir systur þínar og yngri bróður þinn og þú verndaðir hann og þær og hvattir ávallt sem góður bróðir. Þú máttir ekkert aumt sjá, góðmennskan og hjartahlýjan umlukti alla sem þú þekktir enda varstu vinamargur og vinsæll. Ég mun aldrei gleyma hvað þú og mamma þín voruð góðir vinir, virðing ykkar og vinskapur var einlægur. Fallegri og betri son var ekki hægt að hugsa sér.

Far þú nú heill og heilbrigður til betri heima, umlukinn ást og vináttu.

Þar til við hittumst aftur á ný.

Þinn pabbi,

Þórir Rafn Halldórsson.

Það var ljós og ljósið varst þú

skærari en stjarna og lífið nú.

Er ég hugsa til baka verður mér hlýtt

því minningar okkar veita mér styrk.

Sigurbjörn, elsku Bjössi minn,

fallegasti, besti bróðirinn.

Manstu allt sem við gerðum

og alla sem við hrekktum

þegar við eins og

vitleysingar létum

einnig þegar við grétum.

Ég man og mun alltaf muna

hvað var stutt í gleðina.

Þegar ég horfði á þig fann ég

fyrir ást og öryggi

hjartað þitt var svo stórt

og ástin svo mikil

að guð fannst hann hafa misst

sinn besta engil

svo hann eftir þér sendi

til að nota sem sína hægri hönd.

Ég veit að þú ert hjálp

þar sem þú ert þú ert

passar upp á okkur hvert sem ég fer.

Frá mér ertu farinn og okkur öllum

það eigum við eftir að læra

að lifa með í köflum.

Nú ertu heill og frjáls þinna ferða

getur stíliserað engla og aðra herra.

Elsku Bjössi bróðir minn,

flotti fataperinn þinn.

Þú ert allt sem ég dýrka,

þú ert allt sem ég vildi vera líka.

Þú varst svo svalur, þú varst svo kúl.

Þú varst allt sem lét fólk lúkka núll.

Ég hef þig alltaf í hjarta mér

hvar sem ég er,

hvert sem ég fer.

Ég elska þig og mun alltaf gera

passaðu nú okkur fjölskylduna.

(Höf.: Tinna Þórisdóttir.)

Þín stóra systir

Tinna Þórisdóttir.

Elsku Bjössi bróðir.

Að setja niður á blað orð til að kveðja þig er erfiðara en tárum taki. Orðin sem eiga að kveðja þig í hinsta sinn eru ekki til því kveðjustundin er eitthvað sem við hugsum auðvitað ekki út í á þessum aldri.

Þú varst alltaf svo góður og flottur strákur. Með þitt fallega bros og rólega yfirbragð náðir þú einhvern veginn að laða að þér fólk og það var alltaf gott að vera í kringum þig. Þú áttir svo margt ólifað. Við lifðum í voninni um að þér tækist að skrifa þína næstu kafla þar sem við hefðum orðið þátttakendur og erfiðu kaflarnir yrðu aðeins fjarlæg minning.

Það er hvergi hægt að fela sig fyrir sorginni, það er engin flóttaleið. Það eina sem við getum gert er að takast á við hana og læra að lifa með henni.

Harmur okkar felst í því sem aldrei verður og við grátum yfir þeim minningum sem við fáum ekki að skapa en leitum huggunar í þeim sem við áttum.

Við trúum því að þú munir vaka yfir okkur og heimsækja okkur á gleðistundum og veita styrk á þeim erfiðu.

Guð, gefðu mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr.)

Þú verður alltaf í hjörtum okkar elsku bróðir, þínar systur,

Svava og Eva.

Elsku hjartans kærleiksbjössinn minn.

Hvernig má það vera að þetta hafi farið svona eftir öll samtölin okkar um framtíðina og hvað við ætluðum að eignast heilbrigt og fallegt líf?

Bjössi þráði það svo heitt að verða heilbrigður og ég trúði því svo innilega að hann myndi ná því, að við myndum ná því í sameiningu.

Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá Bjössa.

Hann heillaðimig svo upp úr skónum að það steinlá næstum yfir mig. Húmorinn hans var svo skemmtilegur og alltaf stutt í stríðnina.

Yndislega fallega brosið hans og hláturinn sem lýstu allt upp í kringum hann.

Bjössi hugsaði alltaf vel um sig, var alltaf óaðfinnanlegur til fara, hárið alltaf vel greitt, vel af rakspíra.

Hann setti á sig krem, olíur og maska sem mér fannst alltaf svo æðislegt þótt ég hafi strítt honum pínkulítið.

Viðkvæmur, einlægur, ástríkur, ljúfur og svo rómantískur þótt hann hefði seint viðurkennt það.

Aldrei var neitt mál fyrir hann að rétta fólkinu sínu hjálparhönd.

Hann vildi gera vel við alla, var sanngjarn, örlátur og gjafmildur. Ég gæti talað um hann endalaust.

Hann var alltof stuttur tíminn sem við fengum saman, en dýrmætur var hann. Við náðum að gera svo mikið sem ég er svo þakklát fyrir.

Ástin var mikil enda söknuðurinn ólýsanlegur.

Takk fyrir allt, elsku gullið mitt.

Takk fyrir þann styrk sem þú hefur gefið mér og þínum nánustu. Án hans væri ómögulegt að yfirstíga þennan harmleik og halda lífinu áfram. Ég veit að þú ert í góðum höndum og þjónar mikilvægu hlutverki þar sem þú ert núna. Ég mun sakna þín alla ævi. Ég elska þig. Þín,

Margrét.

Elsku besti Bjössi minn.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,

og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því

sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð,

við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farinn þú sért,

og horfinn ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir.)

Þín frænka að eilífu,

Kristín (Stína).

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Elsku Sibba, Þórir og fjölskylda, missir ykkar er mikill.

Þið áttuð góðan og fallegan son sem var duglegur, lífsglaður og yndislegur.

Við biðjum Guð að vera með ykkur og megi minningarnar um einstakan son líkna í sorginni og reynast okkur sem eftir lifum dýrmætt leiðarljós.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur,

Hermann og Sigrún.

Elsku Bjössi minn.

Nú ert þú frjáls og kominn á miklu betri stað.

Hugurinn fer af stað og spurningarnar eru margar, en minningar af ykkur Svabba bróður, litlum prökkurum alltaf eitthvað að dengsast, eru mér kærar. Þegar ég skoða gamlar myndir af ykkur frændum er svo ósanngjarnt að þetta sé niðurstaðan, að barn sé tekið frá foreldrum sínum og fjölskyldu, svona óvænt, en á sama tíma minnir það mann á að taka engu sem sjálfsögðu og þakka fyrir það sem maður hefur. Sorgin er svo erfið og er hugur minn allur hjá fjölskyldu þinni og sér maður það á stundu sem þessari hversu mikilvægt það er að standa þétt saman og halda vel utan um hvert annað.

Við höfum rætt saman síðustu ár um þessi mál og hvernig best væri að haga hlutunum, en eins og lífið getur svo oft verið, getur verið erfitt að halda plani og enn erfiðara að biðja um hjálp. Menn bera það ekki utan á sér hvernig þeim virkilega líður, og barst þú það svo sannarlega ekki með þér, alltaf brúnn og ferskur eins og klipptur út úr blaði, að ekki væri allt eins og það ætti að vera.

Kæra fjölskylda, ég vil votta ykkur mína innilegustu samúð og Guð veiti ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Gunnar Björgvin (Gosi).

Elsku Bjössi.

Á svona stundum er maður svo þakklátur fyrir allar góðu minningarnar sem við áttum, það er svo óraunverulegt að frændi minn, sem ég var með flesta daga þegar við vorum yngri, sé farinn. Þó að við höfum ekki verið nánir síðustu ár var alltaf eins og við værum ennþá bestu vinir þegar við hittumst. London-ferðin sem við fórum í fyrra, öll prakkarastrikin og allar góðu stundirnar eru allt í einu orðnar svo ómetanlegar.

Hvíldu í friði, elsku Bjössi minn, við sjáumst síðar. Þinn frændi,

Svavar Dór.