Benedikt Bragi Pálmason fæddist 7. október 1937. Hann lést 11. ágúst 2016.

Útför Braga fór fram 29. ágúst 2016.

Elsku hjartans pabbi minn. Nú hefur þú kvatt þennan heim og um leið losnað úr viðjum hins illvíga sjúkdóms alzheimer sem hefur hrjáð þig undanfarin ár. Söknuður okkar er mikill sem eftir lifum en um leið verðum við að gleðjast yfir því að nú ert þú frjáls og eflaust búinn að finna foreldra þína sem þú misstir svo ungur. Ég er þakklát fyrir það að þrátt fyrir þennan minnissjúkdóm mundir þú alltaf nöfnin á okkur börnunum þínum fimm og nafnið hennar mömmu sem var það síðasta sem þú sagðir áður en þú hvarfst á braut. Sambandið milli þín og mömmu var einstakt og hét hún þér því í sjúkdómsferlinu að hún myndi hugsa um þig eins lengi og kraftar hennar leyfðu svo þú gætir búið sem lengst heima og unnt væri og það gerði hún svo sannarlega. Ást ykkar var ósvikin og eins og við börnin ykkar lofuðum þér munum við gæta hennar vel fyrir þig. Ég vil, elsku pabbi minn, þakka þér fyrir að hafa verið hluti af lífi mínu og að hafa alltaf verið til staðar. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri pabba en þig. Þú varst svo hlýr og straukst manni alltaf um kinnina til að sýna væntumþykju þína þrátt fyrir að maður væri kominn á fimmtugsaldurinn og lést fylgja með orðin, elskan mín. Þú kvaddir mig alltaf með kossi og maður hélt áleiðis heim með angan af rakspíranum þínum. Ég gæti talið upp alla mannkosti þína, elsku pabbi, en þessi grein sem ég skrifa nú myndi ekki duga til. Því kveð ég þig í hinsta sinn og segi við sjáumst síðar. Hvíl í friði.

Þín dóttir

Sigfríður (Siffa).