[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimleikar Jóhann Ólafsson johann@mbl.is „Nú er komið að því að styðja stelpurnar, er það ekki svolítið þannig?“ sagði Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fimleikasambands Íslands, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Fimleikar

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

„Nú er komið að því að styðja stelpurnar, er það ekki svolítið þannig?“ sagði Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fimleikasambands Íslands, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Valin hafa verið landslið Íslands í hópfimleikum sem taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Maribor í Slóveníu 10.-16. október. Um er að ræða 12 sem skipa kvennalandsliðið og 16 liðsmenn sem skipa blandaða sveit karla og kvenna. Auk þess tekur unglingalið kvenna og blandað lið unglinga þátt.

„Það myndaðist mögnuð stemning þegar mótið var haldið hér árið 2014 og það var stund sem enginn sem var þar mun gleyma. Við ákváðum að reyna að búa það til og taka með okkur út,“ sagði Sólveig en Evrópumótið fór fram hér á landi fyrir tveimur árum. Kvennalið Íslands hafnaði þá í öðru sæti en liðið varð Evrópumeistari 2010 og 2012.

Blandaða liðið kemur á óvart

„Kvennaliðið er sigurstranglegt og þær hafa sjálfar sagt að þær stefni á toppinn. Síðan erum við með blandað lið sem ég tel að eigi eftir að koma á óvart. Það á eftir að verða ótrúlega spennandi keppni í þeim flokki og þau eiga eftir að blanda sér í baráttu um sæti á verðlaunapalli,“ sagði Sólveig ennfremur en blandaða liðið hefur aldrei unnið til verðlauna á Evrópumóti.

„Liðin voru sett saman fyrir tveimur vikum og lokaundirbúningur er að hefjast. Við verðum með keyrslumót, opið mót, 26. september sem er nokkurs konar stór lokaæfing,“ sagði Sólveig og bætti við að nú væri rétti tíminn til að hvetja íslenskt íþróttafólk, enda mikill meðbyr með íþróttum. „Íþróttir eru að bjarga samfélaginu,“ sagði Sólveig og hló létt að lokum.

Þetta er hark

„Við kostum ferðina sjálfa og þetta er svaka hark,“ sagði landsliðskonan Sólveig Bergsdóttir en hún er einn liðsmanna í kvennaliðinu á EM. „Við erum með samning um að fá æfingaföt og fáum einhverja afslætti og litla hluti frá ýmsum aðilum. Hins vegar er erfitt að nálgast fjármagn.“

Sólveigu B. þykir ótrúlegt að landsliðsfólkið þurfi enn í dag að greiða fyrir landsliðsferðir úr eigin vasa en fyrirtæki virðast vera treg við að styrkja fimleikafólk. „Ég er búin að vera í þessu mjög lengi og það er frekar ótrúlegt að ég sé að greiða fyrir þessar ferðir sjálf. Við fórum í æfingaferð í lok júlí sem við greiddum líka sjálfar fyrir.“ Heildarkostnaður fimleikasambandsins vegna Evrópumótsins er rúmlega 60 milljónir en sambandið fékk tveggja milljóna króna styrk frá afrekssjóði ÍSÍ vegna þess en án styrktaraðila sambandsins væri keppni af þessu tagi ógjörningur.

Stefnan sett á gull

Sólveig B. segir að stefna kvennaliðsins sé að koma með gullið heim. „Það kemur ekkert annað til greina. Við höfum aldrei verið með jafn sterkt lið. Fimleikar á Íslandi hafa þróast þannig að núna eru tvö sterk lið, Stjarnan og Gerpla, og við erum í stöðugri samkeppni. Baráttan ýtir landsliðinu áfram og við erum töluvert sterkari en 2014 og 2012. Ég sé enga ástæðu hvers vegna við ættum ekki að taka þetta gull. Það væri ekki gaman að fara út og vonast til að enda á palli.“

Nú þegar sex vikur eru í mót æfir landsliðið stíft, enda þarf að fínpússa öll stökk og allar hreyfingar.

„Við æfum fimm sinnum í viku saman í þrjá og hálfan tíma í senn. Það gengur vel en álagið er mikið núna en minnkar þegar nær dregur mótinu sjálfu. Þá förum við einnig að fullkomna stökkin og allt sem við kunnum og fínpússa það.“

Þeir sem hafa áhuga á að hvetja fimleikafólkið geta farið á heimasíðu fimleikasambandsins til að afla sér frekari upplýsinga um ferðina

EM í hópfimleikum
» Fer fram dagana 10.-16. október í Maribor í Slóveníu.
» Ísland sendir fjögur lið til keppni, kvennalið og blandað lið í fullorðins- og unglingaflokki.
» Kvennaliðið varð Evrópumeistari 2010 og 2012 en hafnaði í öðru sæti á heimavelli fyrir tveimur árum.