[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrstu göngur og réttir fara fram núna um helgina. Á meðfylgjandi lista hér til hliðar getur að líta dagsetningar á vel á annað hundrað fjárréttum víðs vegar um landið næstu vikurnar. Í mörgum tilvikum eru bæði fyrri og seinni réttir.

Fyrstu göngur og réttir fara fram núna um helgina. Á meðfylgjandi lista hér til hliðar getur að líta dagsetningar á vel á annað hundrað fjárréttum víðs vegar um landið næstu vikurnar. Í mörgum tilvikum eru bæði fyrri og seinni réttir. Reyndar tóku Bárðdælingar forskot á sæluna um síðustu helgi þegar fyrri réttir í Víðikersrétt fóru fram.

Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær eru fyrstu fjárréttirnar á morgun, laugardag, í Hrútatungurétt í Hrútafirði, Miðfjarðarrétt í Miðfirði, Rugludalsrétt í Blöndudal og Hraungerðisrétt í Eyjafirði. Seinni Víðikersrétt er einnig á morgun. Á sunnudag verður réttað í Baldursheimsrétt og Hlíðarrétt í Mývatnssveit, Illugastaðarétt í Fnjóskadal, Möðruvallarétt í Eyjafjarðarsveit og Þverárrétt í Öxnadal í Eyjafirði.

Listinn er fenginn frá Bændablaðinu en upplýsingar um tímasetningar allra fjárrétta höfðu ekki borist þangað í gær. Listinn er unninn með þeim hætti að leitað er til sveitarfélaga um upplýsingar. Ferðamálafulltrúar hafa einnig lagt hönd á plóg, sem og bændur og ráðunautar. Hægt verður að fylgjast með uppfærðum lista á vefsíðu Bændablaðsins, bbl.is. Bent er jafnframt á að tímasetningar leita og rétta geta breyst, einkum vegna veðurs.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær er útlit fyrir að meðalfallþungi dilka verði meiri nú en á síðasta ári. Haustslátrun er þegar hafin í öllum helstu sláturhúsum landsins.

Fyrstu stóðréttir á morgun

Fyrstu stóðréttir fara einnig fram um helgina, þ.e. í Miðfjarðarrétt í Miðfirði á morgun, á undan fjárréttunum þar. Af öðrum stóðréttum má nefna að Skrapatungurétt í A-Húnavatnssýslu verður sunnudaginn 18. september og Laufskálarétt í Skagafirði laugardaginn 24. september.