Árni Johnsen
Árni Johnsen
Eftir Árna Johnsen: "Það var ömurlegt hvernig Vinstri grænir börðust gegn eðlilegu uppgjöri og hagsmunum Reykjanesbæjar upp á milljarð króna."

Maður hrekkur orðið í kút þegar maður heyrir Vinstri græna básúna ítrekað að þeir séu hlaðnir lýðræðisást. Staðreyndin er nefnilega önnur. Ég ætla að nefna eitt mál sem er stórmál og varðar heilt bæjarfélag á Íslandi, Reykjanesbæ. Í framgangi þessa máls á Alþingi voru Vinstri grænir skemmdarverkamenn og brutu allar leikreglur og fordæmi sem fyrir eru.

Málið snýst um Helguvíkurhöfn í Reykjanesbæ. Reykjanesbær er eina sveitarfélagið á landinu sem hefur ekki fengið greidda eðlilega hlutdeild í uppbyggingu hafnarinnar samkvæmt reglum og hefðum og er eina sveitarfélagið á landinu sem býr við þessa mismunun. Þetta skiptir miklu máli, því um er að ræða upphæð upp á um einn milljarð króna, 1.000 milljónir.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar, sem datt út fyrir þremur árum, var ég með þingsályktunartillögu á Alþingi um staðfestingu á þessu uppgjöri. Ég var með meirihluta þingmanna, um 30 talsins, með á þessari tillögu, þannig að hún hafði tryggt brautargengi í gegnum þingið.

Vinstri grænir voru hins vegar á móti þessu og beittu kúgunarvaldi í samgöngunefnd gegn því að hleypa tillögunni út úr samgöngunefnd og inn í Alþingi. Þeir beittu þessu kúgunarvaldi sem aðilar að ríkisstjórninni og þannig gekk, síðustu tvö ár Jóhönnustjórnarinnar.

Síðan hefur enginn haft rænu á að taka málið upp, því það er enn óútkljáð. Hefði þó verið í lófa lagið fyrir núverandi þingmenn að taka málið áfram með undirskriftum meirihluta þingmanna á þingskjölum.

Það er því miður þannig að Vinstri grænir eru ekki menn athafna og oft orðblindir um staðreyndir og verkkvíðnir.

Hinn indæli formaður Vinstri grænna er vinaleg og hlý í viðmóti með fallegt bros sólarinnar, en hún hefur tvö bros eins og sjálfir Vinstri grænir þegar þeir almennt leyfa sér að brosa.

Hið persónulega bros formanns Vinstri grænna er einlægt, en svo hefur hún annað bros, pólitíska brosið. Gallinn er sá að það er „kínverskt bros“ eins og kallað er á alþjóðavettvangi. Það er falskt bros og er kallað svo vegna þess að Kínverjar geta verið lævísari en margar þjóðir í viðskiptum og samskiptum.

Það var ömurlegt hvernig Vinstri grænir börðust gegn eðlilegu uppgjöri og hagsmunum Reykjanesbæjar upp á milljarð króna.

Höfundur er fv. alþingismaður.

Höf.: Árna Johnsen