Engar vísbendingar eru um að afnám vörugjalda, lækkun á virðisaukaskatti og styrking krónunnar hafi skilað sér í lægri verði á byggingavörum til neytenda á seinustu árum skv.

Engar vísbendingar eru um að afnám vörugjalda, lækkun á virðisaukaskatti og styrking krónunnar hafi skilað sér í lægri verði á byggingavörum til neytenda á seinustu árum skv. mati verðlagseftirlits ASÍ, sem farið hefur í saumana á þróun undirvísitölu neysluverðsvísitölunnar sem mælir verð á efni til viðhalds.

Hvar eru vörugjaldslækkanir?

„Hvar eru vörugjaldslækkanir af byggingavörum?“ spyr ASÍ í umfjöllun um málið og rifjar upp að um áramótin 2014/2015 voru vörugjöld á byggingarvörum afnumin. Verðlagseftirlit ASÍ áætlaði að verð þeirra byggingavara sem áður báru 15% vörugjöld hefði í kjölfarið átt að lækka um 14%.

Á sama tíma lækkaði einnig almennur virðisaukaskattur úr 25,5% í 24% og ef sú lækkun er tekin með í reikninginn hefði heildarlækkunin átt að nema um 15,2% á þeim vörum sem báru vörugjöld.

Verð hækkaði þó að skattar lækkuðu og gengi styrktist

„Þegar rýnt er í vísitöluna fyrir efni til viðhalds sl. 2 ár sést að verð lækkar örlítið á fyrri hluta árs 2015 eða um 0,8% en sú lækkun nemur ekki einu sinni lækkun virðisaukaskattsins. Frá því í ágúst 2014 þegar breytingarnar voru tilkynntar þar til nú í ágúst 2016 hefur efni til viðhalds hækkað um 1,5%. Á sama tíma hefur gengi krónunnar styrkst um 14% sem einnig hefði átt að leiða til lækkunar á þessum vörulið,“ segir ASÍ, sem heldur því fram að neytendur eigi inni skattalækkunina hjá söluaðilum.

omfr@mbl.is