Árni Bjarnason
Árni Bjarnason
Eftir Árna Bjarnason: "Halda menn virkilega að einhver trúi því að afskipti stjórnmálamanna minnki eða hverfi í kjölfar slíkra breytinga?"

Um þessar mundir keppast stjórnmálaflokkarnir við að toppa hver annan í hugmyndum um gagngerar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða og nú þegar liggja fyrir yfirlýsingar um innkallanir veiðiheimilda, endurúthlutanir og opinber uppboð. Vel má vera að einhvers staðar sé fjallað um áhrif þessara fyrirhuguðu breytinga á starfsumhverfi sjómannastéttarinnar en ef svo er þá hefur lítið farið fyrir því. Reyndar má finna nokkur orð í sjávarútvegsstefnu VG um að sums staðar erlendis hafi verið skilgreind „einhvers konar“ atvinnuréttindi sjómanna eða fiskimanna sem útfæra megi fyrir okkar fiskimenn. Ég hef í starfi mínu setið nokkur alþjóðleg þing fulltrúa fiskimanna víðs vegar að úr heiminum og tel mig geta fullyrt að ákaflega fátt sé að sækja til annarra fiskveiðiþjóða til að bæta aðstæður íslenskra fiskimanna. Með þessu er ég alls ekki að halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi hvað varðar fiskimenn okkar þótt óneitanlega sé staða þeirra betri en kollega þeirra víðast hvar annars staðar í veröldinni.

Atvinnuöryggið út um gluggann

Í gegnum tíðina hafa dugandi sjómenn getað með nokkurri vissu gengið úr skugga um hvort útgerðin, sem til stendur að þeir ráði sig hjá, búi yfir aflaheimildum sem tryggja að öllu eðlilegu öruggar tekjur og afkomu viðkomandi sjómanns og fjölskyldu hans. Nú eru blikur á lofti hvað þetta varðar. Ef einhver kokteill af innköllunar-, endurúthlutunar- og uppboðsleiðum yrði niðurstaðan úr pólitíkinni er ekki annað að sjá en að atvinnuöryggi sjómanna verði viðvarandi í lausu lofti og hundruð sjómanna ásamt fjölda útgerðarfyrirtækja yrðu á vonarvöl. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar þá eiga lögmál markaðarins að ráða við úthlutun veiðileyfa og einnig styrki uppboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki för með ófyrirsjáanlegum breytingum milli kjörtímabila. Halda menn virkilega að einhver trúi því að afskipti stjórnmálamanna minnki eða hverfi í kjölfar slíkra breytinga? Þvert á móti myndu afskiptin stóraukast eins og kemur glögglega á daginn nokkrum línum neðar þar sem segir að í útfærslu tilboðsleiðar verði auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Þvílík þversögn og þvæla. Spánný stefna Pírata er ein allsherjar þversögn þar sem ætlunin er nr. 1 að bjóða upp allan kvótann en leyfa á sama tíma frjálsar handfæraveiðar fyrir þá sem kjósa að stunda þær sem atvinnu. „Skynsamleg framtíðarsýn“ gagnvart sjósókn sem fram fer á einu erfiðasta hafsvæði veraldar. Stærsta breytingin yrði að öllum líkindum að sögn Birgittu Jónsdóttur sú að aflaheimildir yrðu boðnar upp til leigu á opnum markaði og leigugjaldið rynni í ríkissjóð. Engar óþarfa útlistanir af hálfu Pírata á framkvæmdinni nema þá helst að útvegsmenn ákveði verðið.

Eitt verðmyndunarkerfi fyrir alla

Allur afli fari á markað er reyndar í takt við ályktanir samtaka sjómanna, þ.e.a.s. að eitt verðmyndunarkerfi skuli gilda fyrir alla sem landa fiski í íslenskum höfnum í stað þess tvöfalda kerfis sem allt of lengi hefur verið við lýði.

Hver er þessi Gamma?

Allir stjórnmálaflokkar leggja áherslu á mikilvægi nýliðunar. En enginn kemur með lausn sem er á vetur setjandi. Þó er að finna lítið dæmi hjá forsvarsmönnum Viðreisnar þar sem kynnt er lausn á þeim vanda. Sett er fram það sem höfundar kalla lítið dæmi þar sem tiltekin eru þrjú fyrirtæki sem vilja gera út. Til einföldunar er gert ráð fyrir að 10% fari á uppboð en gera má ráð fyrir að hlutfallið verði lægra í raunveruleikanum. Alfa fær án endurgjalds 5,4 % af heildarkvótanum, Beta 3,6 % af heildinni þannig að 10 % eru til staðar til að fara á uppboð. Á uppboðinu ákveður Alfa að kaupa ekki neitt, Beta kaupir 1,4% og Gamma 2%. Með þessum hætti sjá viðreisnarmenn þetta þróast ár frá ári í sátt og samlyndi þannig að Gamma geti jafnt og þétt aukið hlut sinn. Frábært ef þetta yrði raunin, en hver er raunveruleikinn? Afkastageta fiskiskipaflotans er mun meiri en nemur þeim veiðiheimildum sem í boði eru. Hvers vegna ættu þeir sem fjárfest hafa í skipum og búnaði fyrir milljarða ekki að bjóða í og kaupa það sem tekið er af þeim í uppboðspottinn? Og hver er þessi Gamma sem metur forsendurnar í sjávarútvegi með þeim hætti að fýsilegt sé að byrja á núlli árið 2017, kaupa skip, veiðiheimildir og allt sem við á að éta. Eru þetta Grímur Sæmundsen eða Gunnar og Gylfi? Spyr sá sem ekki veit. Því fyrr sem menn horfast í augu við að nýliðun í einhverjum mæli er og verður torleyst úrlausnarefni, þeim meiri möguleikar á varanlegri lausn.

Höfundur er forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.