— Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Staðarstjóri Ósafls vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng reiknar með að frágangi á hrunsvæði við stafn ganganna í Fnjóskadal ljúki í þriðju viku þessa mánaðar og eftir það verði hægt að hefja sprengingar og gröft þeim megin í göngunum.

Staðarstjóri Ósafls vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng reiknar með að frágangi á hrunsvæði við stafn ganganna í Fnjóskadal ljúki í þriðju viku þessa mánaðar og eftir það verði hægt að hefja sprengingar og gröft þeim megin í göngunum. Gangagengin ættu að mætast öðru hvoru megin við jól.

Einar H. Hjálmarsson, staðarstjóri Ósafls, segir að verið sé að vinna á síðasta kafla hrunsvæðisins við stafn ganganna úr Fnjóskadal. Þar hrundi heilmikið úr berginu og vatn lak inn á sínum tíma, svo flytja þurfti öll tæki og mannskap úr göngunum. Settir eru stálbogar yfir göngin og rör rekin inn í þakið þar fyrir ofan til að halda því upp.

Einar segir að ágætt berg taki við þegar hrunsvæðinu sleppir. Því ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að hefja sprengingar og gröft. Hann segir þó að fara verði varlega svo verði skemmdir á þeim framkvæmdum sem ráðist hefur verið í til að verja hrunsvæðið.

Ágætlega gengur að sprengja Eyjafjarðarmegin enda hitinn í berginu að lækka. Gangagengið jók afköstin í síðustu viku og lengdust göngin þá um 62 metra. Eru það mestu vikuafköst í hálft annað ár, eða frá því skömmu áður en hætt var að sprengja Fnjóskadalsmegin.

Nú eru um 1.350 metrar eftir, eða tæplega 20% ganganna.

helgi@mbl.is