Margrét Ásólfsdóttir fæddist í Reykjavík 12. maí 1943. Hún lést 26. ágúst 2016 á Landspítalanum við Hringbraut.

Foreldrar Margrétar voru hjónin Ragnheiður Gestsdóttir húsmóðir frá Hæl í Gnúpverjahreppi, f. 7. febrúar 1918, d. 26. júní 1997, og Ásólfur Pálsson, bóndi, frá Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi, f. 10. júní 1915, d. 2. september 1996. Systkini Margrétar eru Guðný, f. 2. janúar 1945, Sigurður Páll, f. 14. október 1948, og Gestur, f. 9. maí 1952. Eiginmaður Margrétar er Þorsteinn Hallgrímsson verkfræðingur, f. í Reykjavík 25. júlí 1942.

Börn þeirra eru 1) Gunnar Örn verkfræðingur, f. 8. nóvember 1969, kvæntur Þórörnu Ýri Oddsdóttur verkfræðingi, f. 24. ágúst 1972. Börn þeirra eru Bergdís, f. 2. ágúst 1998, og Þorsteinn, f. 23. júní 2002. 2) Kristín Aranka, f. 3. maí 1976, gift Karlo Marsden, f. 29. september 1970. Börn þeirra eru Tahlía Mist, f. 11. maí 2004, Isabel Rún, f. 28. júlí 2005, og Gabríel Þór, f. 29. september 2007.

Margrét ólst upp að Ásólfsstöðum og tók gagnfræðanám á Selfossi. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur 1959 vegna veikinda Ásólfs og var Margrét eitt ár í gagnfræðadeild Hagaskóla.

Margrét lauk kennaranámi vorið 1964 og kenndi við Vogaskóla í Reykjavík frá 1964 til 1970 með hléi veturinn 1967 til 1968 er hún fór til framhaldsnáms, með áherslu á tónlist, við kennaraháskóla Danmerkur. Hún kenndi við Hvassaleitisskóla veturinn 1970-1971 en vorið 1971 flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar þar sem hún dvaldi næstu fjögur árin. Þar hóf hún störf hjá Loftleiðum og síðar Flugfélagi Íslands. Veturinn 1975-76 kenndi Margrét við Seljaskóla í Reykjavík. Frá 1977 vann Margrét á ýmsum ferðaskrifstofum til ársins 1985 er fjölskyldan fluttist til Ósló þar sem hún var í eitt og hálft ár. Þar vann hún hjá Flugleiðum en síðan hélt fjölskyldan til Þýskalands þar sem hún var til ársins 1988. Er heim kom hóf hún störf hjá Samvinnuferðum-Landsýn en fljótlega eftir það fór hún til Flugleiða þar sem hún vann þar til hún hætti sökum aldurs 2010.

Margrét kenndi nokkra vetur stundakennslu við Ferðamálabraut Menntaskólans í Kópavogi og einnig kenndi hún á ýmsum námskeiðum hjá Flug leiðum í gegnum tíðina.

Útför Margrétar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 2. september 2016, klukkan 15.

Elsku Magga mín. Eftir hlýjasta og besta sumar í manna minnum þar sem allt óx og dafnaði og sólskin og fuglasöngur fylgdi manni inn í draumalandið nánast á hverju kvöldi var samt einn skuggi sem fylgdi ávallt með, en það var sú vitneskja að þú værir að berjast við illvígan sjúkdóm.

Það er svo ótrúlega stutt síðan, bara nú í maí, sem þú sagðir okkur systkinum þínum frá þessu og auðvitað, eins og alltaf, varst þú sú sterka í hópnum, en við hin lutum höfði. Þú tókst þessari frétt af svo miklu æðruleysi og ró að maður vildi trúa því að í þessari hörðu glímu mundir þú standa uppi sem sigurvegari og þótt glíman tapaðist ert þú samt sigurvegari, þú stóðst meðan stætt var og bognaðir aldrei. Þú huggaðir okkur hin og stappaðir í okkur stálinu þegar við sáum hvergi ljós á þessum björtu sumardögum.

Ég var aðeins 17 ára þegar foreldrar okkar ákváðu að flytja frá Reykjavík aftur á æskustöðvar okkar að Ásólfsstöðum með Gest bróður með sér, en þú ásamt Guðnýju systur gekkst mér að nokkru leyti bæði í móður- og föðurstað og bjugguð þið okkur gott og traust heimili. Ég held að frá þeim degi hafir þú talið þig bera mikla ábyrgð á mér og mínum og þessari umhyggju hef ég alltaf fundið fyrir og þegar þið Þorsteinn voruð langdvölum erlendis þá stóð ykkar hús alltaf opið, ekki bara okkar fjölskyldum heldur öllum þeim vinum og kunningjum sem laðast höfðu að ykkur í tímans rás.

Þótt margs sé að minnast og margs að sakna, kæra systir, þá varst þú hamingjunnar kona.

Þú lifðir skemmtilegu lífi í leik og starfi, ferðaðist víða um heiminn, kynntist framandi fólki og ólíkum menningarheimum og áttir yndislega og trausta fjölskyldu og fallegt heimili, í miðjum Fossvogsdalnum. Það var líka gaman að sjá hve samhent þið voruð í því að fegra og bæta gömlu fjárhústóftirnar á Akurhólunum, þar sem þið byggðuð sumarhús í hjarta æskustöðva okkar, þar sem ætlunin var að eyða löngu ævikvöldi. En enginn má sköpum renna. Elsku Magga mín. „Nú er hún Snorrabúð stekkur.“

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson.)

Kæru Þorsteinn, Gunnar Örn og Kristín Aranka, makar og börn. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Sigurður Páll Ásólfsson.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast mágkonu minnar, Margrétar Ásólfsdóttur, sem lést aðfaranótt 26. ágúst sl. eftir stutta sjúkdómslegu.

Magga var í mínum huga ennþá ung enda hraustleg og vel á sig komin.

Magga kom til dyranna eins og hún var klædd. Maður vissi alveg hvar maður hafði hana, eins og sagt er. Gat verið ákveðin þegar henni fannst þess þurfa en þess á milli glaðleg og hress. Aldrei man ég til þess að okkur hafi t.d. orðið sundurorða. Hún var að eðlisfari samviskusöm, heiðarleg og vandvirk bæði í orði og verki. Ein af þeim sem gerði allt vel sem hún tók sér fyrir hendur. Einu sinni man ég eftir að við höfðum farið hvor á sitt jólaföndurnámskeiðið. Báðar höfðum við búið til jólaenglaóróa. Ég var bara ánægð með minn alveg þangað til ég sá Möggu óróa. Þar hafði ekkert verið kastað til höndunum.

Systkini hennar töluðu stundum um hvað hún gat verið stjórnsöm í gamla daga. Eftir að foreldrar þeirra flutt aftur austur að Ásólfsstöðum 1965 leigðu eldri systkinin sér saman íbúð í Reykjavík, enda ýmist í skóla eða vinnu. Magga, verandi elst, reyndi eftir bestu getu að stjórna þessum villtu unglingum, sem mest lítið held ég að hafi látið að stjórn. Töluðu bara um stjórnsemina og afskiptasemina í henni. En auðvitað var þetta hennar samviskusemi og ábyrgðartilfinning sem kom þar fram. Ef til vill hafa Ási og Ranka líka beðið hana að líta til með þeim. Mér þykir það mjög trúlegt.

Magga tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands og vann í nokkur ár sem kennari. Mestan sinn aldur vann Magga þó hjá Icelandair. Margan viðskiptavin hennar höfum við hitt gegnum tíðina, sem tók það fram að hann vildi bara skipta við Möggu, því þar stóð allt eins og stafur á bók og hún ekkert nema elskulegheitin.

Magga var glæsileg á velli, hávaxin og reist. Alltaf vel til höfð og flott klædd. Ósjaldan kom maður til að mynda heim eftir að hafa hitt hana og fór að lakka á sér neglurnar því hennar voru svo flottar.

Oft talaði Magga seinni árin um að þau systkinin og makar ættu að fara að hittast oftar. Þá rauk einhver til og hóaði í mat. Allir mjög ánægðir og drífa átti bara mjög fljótlega í næsta matarboði. En eitthvað stóð á því og tíminn leið, þar til Magga fór aftur að tala um málið. Þá endurtók sig sama sagan. Þetta á við held ég í flestum fjölskyldum. Við erum öll orðin svo sjálfhverf að við gleymum að huga að vináttunni sem okkur finnst þó svo dýrmæt.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka Möggu fyrir samfylgdina og góða viðkynningu. Eiginmanni hennar, börnum, mökum þeirra og barnabörnum votta ég mína dýpstu samúð.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Þórunn Hjaltadóttir.

Kær skólasystir, vinkona og tengdamóðir dóttur minnar, Margrét Ásólfsdóttir, er fallin frá eftir stutta og snarpa baráttu við óvæginn sjúkdóm.

Ég kynntist Möggu haustið 1960 er við settumst í fyrsta bekk Kennaraskóla Íslands ásamt hópi nema víða af landinu. Þetta reyndist vera góður hópur sem náði mjög vel saman og myndaði sterk vinabönd sem hafa haldist til þessa dags

Kynni okkar Möggu urðu þó enn meiri er dóttir mín, Þórarna, og sonur Möggu, Gunnar, kynntust og stofnuðu heimili og áttum við því saman tvö barnabörn, Bergdísi og Þorstein.

Við Magga fórum þá að hittast við fleiri tækifæri en einu sinni í mánuði. Við höfum fylgst saman með vexti og þroska barnabarnanna og notið stunda með þeim og oft voru fjörugar umræður um hina ýmsu viðburði.Var gaman að rifja upp gamlar stundir, bæði frá skólaveru okkar og ýmsu sem hafði gerst á lífsleiðinni, en ekki síst dugnaði barnabarnanna. Þar sem Þórarna og Gunnar bjuggu í mörg ár í Danmörku hittumst við líka þar og nutum þess. Magga og Doddi eiga fallegan sumarbústað í Þjórsárdal í landi Ásólfsstaða, ásamt syni sínum og tengdadóttur, þar sem einnig voru margar góðar samverustundir. Magga var hreinskiptin og ákveðin í skoðunum og hafði mikla ást á klassískri músík og fallegum söng, enda söng hún í kór í mörg ár. Var hún fastagestur á sinfóníutónleikum um árabil. Með fráfalli Margrétar er höggvið stórt skarð í fjölskyldu okkar og líka þennan samheldna hóp kennara og vina sem útskrifuðust 1964 frá KÍ.

Megi samheldni og innri styrkur vera með fjölskyldunni á þessari erfiðu stundu.

Magga verður með okkur alla tíð í minningunni.

Blessuð sé minning hennar.

Valborg (Valla).

Kær vinkona okkar, Margrét Ásólfsdóttir, Magga, er látin eftir skammvinn veikindi.

Segja má að vinahópurinn okkar eigi rætur að rekja til námsdvalar átta íslenskra verkfræðinema í Kaupmannahöfn þar sem þeir stunduðu nám við Danmarks Tekniske Höjskole, DTH, sem lauk með útskrift árið 1968. Þeirra á meðal var Þorsteinn Hallgrímsson, Doddi. Á námsárunum voru vinabönd hnýtt og eiginkonurnar bættust í hópinn ein af annarri. Við vorum svo lánsöm að fá Möggu inn í hópinn að námi loknu þegar þau Doddi kynntust. Við kennum vinahópinn okkar oftast við DTH. Með andláti Möggu er stórt skarð höggvið í hópinn öðru sinni, en í febrúar 2003 lést vinur okkar Magnús Ólafsson, einnig eftir stutt veikindi.

Þegar heim til Íslands var komið eftir árin í Kaupmannahöfn fórum við fljótlega að hittast árlega öll saman í heimahúsum og gera okkur glaðan dag og borða saman kvöldverð. Hafa þessar samverustundir okkar ávallt verið tilhlökkunarefni og orðið ómissandi hluti tilveru okkar. Vináttan hélt áfram að dafna og við fórum að ferðast saman bæði innanlands og utan. Fyrsta utanlandsferðin var til Kaupmannahafnar árið 1993 til þess að halda upp á 25 ára útskriftarafmælið. Margar utanlandsferðir fylgdu í kjölfarið og var Magga einn helsti hvatamaður flestra þeirra. Hún kom að skipulagningu ferðanna, enda á heimavelli sem starfsmaður Flugleiða og síðar Icelandair. Ferðirnar voru þaulskipulagðar og hver annarri skemmtilegri.

Magga var hörkudugleg, heilsteypt og hreinskilin og það var aldrei nein lognmolla í kringum hana. Hún hafði skoðanir á flestu og fór ekki í launkofa með þær. Hún var mjög hláturmild og skemmtileg og gaman að hlæja með henni.

Á góðri stund þegar lagið var tekið skar fallega söngröddin hennar Möggu sig úr og gott var fyrir þá ólagvissari að halda sig nálægt henni.

Magga og Doddi voru mjög samhent og gestrisin. Skemmst er að minnast hinnar árlegu veislu vinahópsins, sem á þessu ári var haldin á heimili þeirra í Fossvoginum. Minningin um gestrisnina og gleðina sem þar ríkti mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Á vordögum þegar hin alvarlegu veikindi Möggu komu í ljós var engan bilbug á henni að finna, þótt henni væri fullljóst að veikindin væru ólæknandi. Hún hélt sínu striki, dreif sig í ferðalög innanlands og var hláturmild sem fyrr og sýndi mikið æðruleysi og styrk. Engan sem hitti hana gat grunað að hún væri orðin svona mikið veik og endalokin svo skammt undan. Við vonuðum og trúðum að Magga fengi lengri tíma með okkur, en enginn má sköpum renna.

Það er mikil eftirsjá að Möggu vinkonu okkar, en hún skilur eftir sig bjartar og fallegar minningar, sem gott er að ylja sér við.

Við vottum Dodda, vini okkar, fjölskyldunni og ástvinum öllum okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Möggu.

DTH vinahópurinn:

Guðrún Sveins, Jón B., Stefanía, Guðjón Torfi, Herdís, Sigurður, Emelía, Karl, Þórunn, Magnús, Guðrún Brodda, Guðjón Ingvi, Guðrún Eyjólfs, Ingimar.

Í dag kveðjum við Margréti Ásólfsdóttur, góða vinkonu og skólasystur. Hennar er sárt saknað úr vinahópnum sem hóf nám í Kennaraskóla Íslands við Laufásveg á haustdögum 1960.

Þarna komu saman ungmenni víða að af landinu, hvert og eitt með sinn „karakter“. Allir fengu að njóta sín og blómstra á eigin forsendum í þessum skemmtilega samsetta hópi. Það hefur verið gæfa okkar og styrkur í lífinu að eiga þá vináttu og þann kærleik sem þarna varð til. Skólaárin fjögur voru ljúf og gjöful. Við náðum ótrúlega fljótt saman og handleiðsla margra góðra kennara átti sinn þátt í að þarna skapaðist sjóður minninga, þekkingar og lífsreynslu sem tengt hefur okkur saman alla tíð. Mánaðarlega í meira en 50 ár höfum við stelpurnar haldið saumaklúbb og bekkurinn sem heild hefur til margra ára boðað til endurfunda minnst árlega.

Magga var styrk stoð í hópnum, sterkur persónuleiki og traustur vinur. Hún bjó sín bernsku- og mótunarár á Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi. Rætur hennar eiga sér grunn í íslenskri bændamenningu með stórfjölskyldu og frændgarði sem var margt til lista lagt. Á æskuheimilinu var mikið spilað og sungið og menning í heiðri höfð.

Tryggð hennar við æskustöðvarnar rofnaði aldrei. Magga og Doddi reistu sér sumarhús í landi Ásólfsstaða þar sem þau dvöldu tíðum. Tónlistaráhugi fjölskyldunnar langt aftur í ættir hefur fylgt Möggu og skipað stóran sess í lífi hennar. Hún var sannur listunnandi, las mikið, söng vel og kunni ógrynni af textum og ljóðum.

Þau hjónin voru afar samhent, ferðuðust mikið og voru tíðir gestir á tónleikum og öðrum listviðburðum. Líf hennar var litríkt og fjölbreytt. Eftir nokkur ár við kennslu leitaði Magga á önnur mið og sinnti lengst af störfum tengdum flugi og ferðamennsku. Það gerði hún bæði hér á landi og erlendis. Árin erlendis urðu mörg og hver dvalarstaður var með sínu sniði. Það kallaði á framsýni og aðlögunarhæfni sem Magga átti í ríkum mæli. Störf sín öll vann hún af alúð og fagmennsku. Það var ætíð gott að leita til hennar með hin ýmsu mál varðandi ferðalög víða um heim.

Á kveðjustund viljum við þakka Möggu fyrir samfylgdina og góða vináttu. Við sendum Dodda, börnum og fjölskyldum þeirra okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Margrétar Ásólfsdóttur.

Fyrir hönd bekkjarsystra úr KÍ,

Rafnhildur, Fríða og Björg.

Það er sárt og erfitt að kyngja því að vinkona okkar, Margrét Ásólfsdóttir, er látin. Það eru ekki nema örfáar vikur síðan við hjónin vorum í ferðalagi með henni og Þorsteini á Norðurlandi og var hún þá hin kátasta og sýndi hverfandi lítil áhrif þessa illvíga sjúkdóms sem dró hana til dauða. Það segir þó meira um Margréti að hún hafi borið sig vel og af reisn, því henni var fullljóst hvert stefndi. En svona var Margrét.

Leiðir okkar hjóna hafa legið saman í nær 50 ár og okkar Þorsteins frá barnæsku. Þótt við höfum lengi framan af verið búsett í fjarlægum löndum og síðar Margrét og Þorsteinn víða í Evrópu, þá heimsóttum við hvert annað þegar tækifæri gáfust til og við héldum og treystum vináttuböndin, sem síðan hafa eflst frekar eftir að við öll snérum heim. Það er óhætt að staðhæfa að allt sem Magga tók sér fyrir hendur, hvort sem það voru börnin, heimilið eða atvinnan, allt leysti hún með sóma og af miklum myndarskap.

Magga og Þorsteinn voru einstaklega samrýnd hjón og deildu sameiginlegum áhugamálum, ekki síst tónlistinni. Það var oft undravert fyrir tóndaufa hversu vel þau voru að sér á því sviði. Það er sárt að verða vitni að því hversu miklu Þorsteinn er sviptur með fráfalli Möggu og vottum við honum, Gunnari Erni, Kristínu Arönku sem og barnabörnum, tengdabörnum og systkinum Möggu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín og Einar.

Elsku Magga. Öll erum við einhvers konar samnefnari eðlis og uppeldis, áhrifa og umhverfis. Þannig hafðir þú mótandi áhrif á mig með samtölunum þar sem þú ræddir við norðlenska guttann eins og hann væri fullorðinn og eftir að hann varð fullorðinn með mýmörgum samtölum um bókmenntir, með gjöfunum sem beindu mér áfram inn á hið blómum skrýdda engi bókmenntanna og svo með nærverunni einni saman. Glampi í augum, glettnisbros á vör, skoðanir settar fram, sungið og sögur rifjaðar upp. Þannig ert þú fyrir mér.

Þjórsárdalur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við í fjölskyldunni erum öll meira og minna mótuð af þeim yndislega stað. Og þar verður minningin um þig sterkust. Alla mína ævi hef ég getað gengið að því vísu að hitta þig, Dodda og krakkana reglulega þar. Að fjölskyldan borðaði saman, síðan yrði spjallað og sungið og þið systkinin rifjuðuð æskuna á Ásólfsstöðum upp – og hefðuð deildar meiningar um hvernig þetta var nú allt saman, því stundum var eins og þið hefðuð ekki alist upp á sama bænum. Minningar eru nefnilega einstaklingsbundnar og litaðar af eigin upplifun. Minningar mínar um þig eru hlýjar, umvafðar gæsku og góðvild. Ég er þakklátur fyrir að hafa hitt þig í dalnum um daginn og getað átt með þér stund á pallinum við bústaðinn.

Öll jólin þegar ég fékk Sígildar sögur frá ykkur og gat haldið áfram að lesa um Skytturnar, kynnst Ívari Hlújárn og ferðast um Nýskóga með börnunum. Og spjallað svo við þig um bókina í jólaboðinu, því hún var iðulega efst á mínum leslista og ég vakti fram á nótt spenntur yfir bókinni.

Ég mun heldur aldrei gleyma því þegar ég fékk að vera hjá ykkur í Nökkvavoginum; glaðværðinni og hressleikanum sem einkenndi morgnana. Það voru stundir sem hentuðu mínum morgunhressleika vel. Þið voruð höfðingjar heim að sækja, hvort sem var hér heima eða í Þýskalandi.

Magga og Doddi, Doddi og Magga. Fyrir mér voruð þið óumbreytanleg festa í lífinu og eruð það enn, þrátt fyrir að þú hafir nú horfið á annað svið. Ástin og væntumþykjan sem þið sýnduð hvort öðru áreynslulaust, hvernig þið leidduð hvort annað áfram í frásögnum, af fólki eða bara einhverju sem þið heyrðuð í útvarpinu. Slíkar stundir á maður að vera þakklátur fyrir, að fá að hafa notið þeirra, og þeirra á maður að minnast á erfiðum stundum.

Elsku Doddi, Gunnar Örn, Kristín Aranka og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill og ég vildi að það væri eitthvað sem ég gæti gert til að gera hann bærilegri. Lífið virðist stundum grimmilegt, en þeim mun meiri ástæða er að minnast þess góða og fallega sem við höfum upplifað. Og þannig eru stundirnar með Möggu. Góðar og fallegar, því að hún var góð manneskja.

Elsku Magga. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið af þér með gæsku þinni og góðvild. Fyrst og fremst þakka ég fyrir að hafa átt þig að og notið áhrifa þinna og nærveru. Hvíl í friði.

Kolbeinn Óttarsson

Proppé.